Aðrar rannsóknir

Úttekt á lífríki Varmár í Mosfellsbæ

Undir þennan flokk falla samantektarskýrslur og ýmsar rannsóknir sem ekki falla beinlínis undir hina flokkana. Hér má einnig finna niðurstöður rannsókna sem unnar hafa verið af utanaðkomandi aðilum fyrir Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Leiðbeiningar fyrir gróðurkönnun í stöðuvötnum

KVER HAFRANNSÓKNASTOFNUNAR – KV 2022-12

Fjallað er um aðferðir sem nota skal við könnun vatnaplantna í stöðuvötnum við vöktun vatnshlota samkvæmt lögum um stjórn vatnamála (nr. 36/2011). Framkvæmd könnunar á vatnaplöntum á vettvangi er lýst og fjallað er um úrvinnslu og skil á niðurstöðum sem nota skal við ástandsflokkun stöðuvatna.

Haraldur R. Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Finnur Ingimarsson og Sunna Björk Ragnarsdóttir

Skýrslan er unnin fyrir Stjórn vatnamála, Umhverfisstofnun

Tjarnarnál í Þingvallavatni

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) er ráðandi tegund vatnagróðurs í Þingvallavatni og finnst hún víðsvegar um vatnið, aðallega á 5–35 m dýpi. Tegundin getur náð um og yfir 1 m hæð og myndað þéttar breiður á botni, en einnig verið gisin og lágvaxin. Tjarnanálabreiður auka fjölbreytileika búsvæða í vatninu og þar má m.a. finna urmul hornsíla og ýmissa smádýra, ásamt því að þær mynda undirlag fyrir ásætur, bæði þörunga og dýr.

Á árunum 2015 og 2016 var ráðist í litla rannsókn á útbreiðslu og þéttleika tjarnanálarinnar á völdum stöðum í vatninu og rannsóknarsvæði frá fyrri tíma höfð til hliðsjónar við það val. Beitt var nokkrum mismunandi aðferðum við mælingarnar og var það gert í þeim tilgangi að bera saman árangur þeirra og fýsileika ef til umfangsmeiri vöktunar kæmi í framtíðinni.

Að svo miklu leyti sem niðurstöður þessa verkefnis eru sambærilegar við eldri gögn, virðist sem vöxtur tjarnanálar hafi verið minni á árunum 2015 og 2016 en fyrr á árum þótt útbreiðsla væri sambærileg. Ekki er hægt að segja til um hvort þarna er um náttúrulegan breytileika að ræða eða aðrar orsakir liggi þar að baki.

Varnarefnið DDT gegn mývargi við Steingrímsstöð

Í eftirfarandi skýrslu er greint frá notkun á varnarefninu DDT við Efra Sog og Kaldárhöfða á árunum 1957 og 1958, en efnið var notað til að eyða mývargi á þessu svæði. Á þessum árum var unnið að byggingu Steingrímsstöðvar við Sog en hún var gangsett á árunum 1959-1960. Mývargurinn gerði starfsmönnum sem unnu við byggingu Steingrímsstöðvar mjög erfitt fyrir við störf sín og reyndist þrautin þyngri að fá menn til að starfa við þessar aðstæður.

Þá er gerð grein fyrir þeim mælingum sem framkvæmdar voru á árunum 2000, 2001 og 2011 til að meta hvort mengun vegna DDT efna væri til staðar í jarðvegi og vatnaseti við Efra Sog og í Úlfljótsvatni. Einnig er lagt mat á möguleg áhrif DDT á lífríki þessa svæðis.

Mengunarflokkun á Reykjavíkurtjörn

Ástand Reykjavíkurtjarnar m.t.t. örvera og efna- og eðlisþátta var kannað á tímabilinu maí 2007–apríl 2008 og vatnsgæði tjarnarinnar metin og tjörnin mengunarflokkuð í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Á heildina litið var ástand tjarnarinnar slæmt m.t.t. næringarefna og örvera, en skárra m.t.t. málma. Fosfór (Tot-P), ammóníak (NH3) og lífrænt kolefni (TOC) mældust í sérlega miklu magni og er Reykjavíkurtjörn í næstlakasta mengunarflokki, flokki D, sem verulega snortið vatn m.t.t. þessara efna. Hvað varðar fosfat (PO4), köfnunarefni (Tot-N) og blaðgrænu-a er tjörnin í þriðja mengunarflokki, flokki C, sem nokkuð snortið vatn. Umtalsverð saurmengun mældist í tjörninni og ratar hún í mengunarflokk D m.t.t. saurkólígerla og mengunarflokk C m.t.t. enterókokka.

Samkvæmt greiningu á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur telst mengunarálag á Reykjavíkurtjörn vera mikið. Auk röskunar og mengunar frá fyrri tíð, þ.m.t. eyðing votlendis, uppfyllingar, skólplosun og sorpurðun, er helsti uppruni næringarefna- og málmmengunar nú til dags rakin til ofanvatns, einkum frá umferðargötum, og til lífrænnar ákomu frá fuglum.

Mat á hitaáhrifum á lífríki Gljúfurholtsár

Í Ölfusi á milli Hveragerðis og Selfoss er brú yfir Gljúfurholtsá á þjóðvegi nr. 1, Suðurlandsvegi. Utan á brúnni er leiðsla sem flytur allt að 20 l/s af nær 80 °C heitu vatni. Festingar heitavatnspípunnar á brúnni voru farnar að gefa sig og ekki útilokað að leiðslan rofnaði og að heitt vatn rynni út í Gljúfurholtsá. Af þessu tilefni fór Orkuveita Reykjavíkur fram á það við Náttúrufræðistofu Kópavogs að stofan gerði gróft mat á hugsanlegum áhrifum á lífríki árinnar ef heitt vatn bærist í ána.

Áhrif vatnsmiðlunar á vatnalífríki Skorradalsvatns

Greinargerð þessi er unnin að beiðni Orkuveitu Reykjavíkur í tengslum við fyrirspurn Veiðifélags Skorradalsvatns til Náttúrufræðistofu Kópavogs um hugsanleg áhrif vatnsmiðlunar Andakílsárvirkjunar á vatnalífríki Skorradalsvatns.

Um er að ræða forkönnun og tillögugerð sem felst í 1) samantekt heimilda um líffræðirannsóknir í vatninu og ástandslýsingu á lífríki vatnsins, 2) mat á notagildi fyrirliggjandi rannsókna og nauðsyn frekari rannsókna varðandi áhrif vatnsmiðlunar á vatnalífríki Skorradalsvatns og 3) tillögugerð um vöktun á völdum lífríkisþáttum í Skorradalsvatni með það að markmiði að fylgjast með lífríki vatnsins og hugsanlegum áhrifum af völdum vatnsmiðlunar.

Vistfræði- og verndarflokkun íslenskra stöðuvatna

Rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma er umfangsmikið verkefni sem hófst árið 1999. Markmið verkefnisins er að leggja mat á og flokka virkjunarkosti, jafnt hvað varðar vatnsafl og jarðvarma, með tilliti til orkugetu, hagkvæmni, áhrifa á náttúrufar, náttúru- og menningarminjar, svo og hagsmuni allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði.

Í rammaáætluninni starfa verkefnisstjórn og fjórir faghópar á mismunandi sviðum. Hlutverk faghópanna er að fara yfir virkjunarkosti, meta þá hver frá sínum sjónarhóli og senda tillögur til verkefnisstjórnar. Í Faghópi I um Náttúru- og Minjavernd er fengist við mat á áhrifum einstakra virkjunarkosta á landslag, jarðmyndanir, gróður, dýralíf og minjavernd. Í tengslum við starf Faghóps I var leitað til Náttúrufræðistofu Kópavogs og aðstandenda verkefnisins Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatna og óskað eftir ráðgjöf varðandi vatnalífríki á virkjunarsvæðum. Í kjölfarið (árið 2003) kom út áfangaskýrsla frá Náttúrufræðistofunni og má nálgast hana hér að neðan.

Fuglar í Kópavogi 2013

Árið 2013 var fylgst með fuglalífi í Kópavogi og á neðsta hluta Kópavogslækjar og voru fuglar á svæðinu taldir alls 17 sinnum. Verkefnið var unnið af Jóhanni Óla Hilmarssyni og Ólafi Einarssyni fyrir Umhverfissvið Kópavogs og Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Í útdrætti skýrslunnar segir m.a: „Fuglar voru taldir í Kópavogi í 17 talningum og á neðsta hluta Kópavogslækjar í 12 talningum á árinu 2013. Þetta var gert til að sjá hvort og hvaða breytingar hefðu orðið á fuglalífi vogsins frá ítarlegum talningum 1980-81. Árið 1997 var talið 16 sinnum og 6 sinnum 2009 og voru þær talningar notaðar við samanburðinn. Jafnframt var talið í Arnarnesvogi nú. Talningarnar 2013 voru bornar saman við fyrri talningar og rýnt í hvort breytingar hafi orðið, fjölgun eða fækkun fugla, og hvað valdi þeim.“

Gróður í Borgarholti

Sumarið 2003 var ráðist í rannsókn á gróðri í Borgarholtinu á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Um rannsóknina sá Náttúrufræðistofnun Íslands. Hér gefur að líta afrakstur þessarar vinnu.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner