Fuglar

Brúsar

Stórir vatnafuglar, með stutta vængi og djúpsyndir. Fara afar sjaldan á land nema til að verpa. Eru fiski- og skordýraætur. 
Af brúsum eru til 5 tegundir í heiminum og verpa 2 tegundir á Íslandi.

Himbrimi (Gavia immer) Brúsaætt (Gaviidae)
Himbrimi verpir hvergi ad staðaldri í Evrópu nema á Íslandi. Himbrimar halda sig yfir sumarið mest á stórum og djúpum stöðuvötnum og aðalfæðan eru silungar og hornsíli. Himbrimar eru ekki félagslyndir og er aðeins eitt par á flestum vötnum. Á sjó éta þeir ufsa, þorsk, marhnút, trjónukrabba og fleiri dýr. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 300 pör. Vetur, Fjöldi: 100–1.000 fuglar.

Lómur (Gavia stellata) Brúsaætt (Gaviidae)
Lómar eru miklar fiskiætur og safnast stundum tugum saman þar sem mikið er um æti. Kjörfæða í stöðuvötnum eru hornsíli og silungur en á sjó lifa þeir einkum á sandsíli. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 1.000–2.000 pör. Vetur, Fjöldi: 100–1.000 fuglar.

Endur

Um 100 andategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa óvenjumargar tegundir, alls 17, og að auki hafa sést 16 tegundir. Karlfuglar, steggir, eru flestir litskrúðugir, en kvenfuglar, kollur, ofast brúnlitar. Buslendur ná í æti í vatnsborði eða standa á haus og teygja sig eftir í æti á botni. Kafendur og fiskiendur kafa eftir æti.

Andfuglar (Anseriformes), andaætt (Anatidae).
Andfuglaættbálkur. Andfuglar eru meðalstórir og stórir votlendisfuglar, jurta- og skordýraætur. Þeir fella allir flugfjaðrir samtímis við fjaðraskipti og eru þá ófleygir. Um 150 tegundir eru til í heiminum og verpa 22 tegundir á Íslandi.

Stokkönd (Anas platyrhynchos
Að æðarfugli undanskildum er stokkönd algengasta og útbreiddasta andategund á Íslandi. Hún er buslönd og étur ýmsan vatna- og landgróður auk smádýra á borð við mýlirfur, brunnklukkur, efjuskeljar og vatnabobba.
Sumar, Fjöldi: 10.000–15.000 pör. Vetur, Fjöldi: 20.000–40.000 fuglar

Rauðhöfðaönd (Anas penelope
Flestar rauðhöfðaendur hafa vetursetu á Bretlandseyjum, en þær hafa einnig sótt til Suður-Evrópu og Norður-Ameríku. Rauðhöfðaönd er buslönd og lifir mest á fræum og öðrum plöntuhlutum.
Sumar, Fjöldi: 4.000–6.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500–2.000 fuglar.

Urtönd (Anas crecca
Urtönd er buslönd sem lifir á ýmsum plöntufræjum og smádýrum, svo sem mýlirfum og vorflugulirfum. Eins og títt er um aðrar endur nærast fullorðnar urtendur einkum á dýrafæðu á meðan þær eru með unga.
Sumar, Fjöldi: 3.000–5.000 pör. Vetur, Fjöldi: 100–500 fuglar.

Skúfönd (Aythia fuligula)
Skúfönd er kafönd og fremur nýr landnemi á Íslandi. Fyrsta skráða heimildin um hana er frá 1895. Langflestar skúfendur halda til á Bretlandseyjum yfir veturinn. Skúfendur eru að mestu dýraætur og lifa á rykmýslirfum, vatnabobbum, botnkröbbum og hornsílum.
Sumar, Fjöldi: 6.000–8.000 pör. Vetur, Fjöldi: 100–200 fuglar.

Duggönd (Aythia marila
Flestar duggendur hafa vetursetu á Bretlandseyjum og í Hollandi. Duggönd er kafönd og lifir mest á ýmsum smádýrum, t.d. á botnkröbbum, vatnabobbum og rykmýslirfum. Egg dugganda og skúfanda hafa verid nytjuð um langan tíma.
Sumar, Fjöldi: 4.000–6.000 pör. Vetur, Fjöldi: 50–150 fuglar.

Húsönd (Bucephala islandica
Húsönd verpur hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Hún verpur í hraungjótum og gjarnan í hlöðum og öðrum útihúsum. Húsönd er kafönd og á sumrin lifir hún mest á bitmýi. Er hún alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 800 pör. Vetur, Fjöldi: 1.700–1.800 fuglar.

Hávella (Clangula hyemalis
Hávella er kafönd og á sumrin lifir hún á skötuormum og fleiri botnkröbbum. Á veturna þegar hávella er á sjó lifir hún á kræklingi, þarastrúti, marflóm og fleiri hryggleysingjum.
Sumar, Fjöldi: 1.000–3.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–100.000 fuglar.

Gulönd (Mergus merganser
Gulönd er eindregin fiskiönd og lifir mest á hornsíli og seiðum laxfiska. Stundum verpur hún í gömul fálka- og hrafnshreiður. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 300 pör. Vetur, Fjöldi: 5.00–1.500 fuglar.

Toppönd (Mergus serrator
Toppönd er fiskiönd og á sumrin lifir hún mest á hornsíli. Á veturna þegar hún er á sjó lifir hún á ýmsum fiskum, t.d. sprettfiski og ufsaseiðum.
Sumar, Fjöldi: Um 2.000–4.000 pör. Vetur, Fjöldi: 5.000–15.000 fuglar.

Straumönd (Histrionicus histrionicus
Straumendur verpa hvergi í Evrópu nema á Íslandi. Á sumrin halda þær sig að mestu við straumharðar ár og læki. Straumönd er kafönd og hún lifir aðallega á lirfum bitmýs og vorflugna. Að vetri halda þær sig gjarnan við brimasamar strendur og gegna því einnig nöfnunum brimdúfur og brimmáfar. Helsta fæðan í sjó eru burstaormar, þanglýs, nákuðungar og fleiri hryggleysingjar. Þurrkaður straumandarhaus var áður fyrr talinn mikill verndargripur. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 2.000–3.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–15.000 fuglar.

Æðarfugl (Somateria mollisima
Æðarfugl er langstærsti andastofn á Íslandi og ólíkt öðrum andfuglum heldur hann sig nær einvörðungu á sjó árið um kring. Fæðan eru ýmis dýr, einkum kræklingur og fleiri lindýr, sem fuglinn kafar eftir á grunnsævi. Miklar nytjar hafa verið af dúni og eggjum æðarfugla um langan tíma. Æðarfugl var fyrstur íslenskra fugla sem var alfriðaður, árið 1847.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör. Vetur, Fjöldi: Um 930.000 fuglar.

Gæsir

Gæsir eru hóphneigðir fuglar, fljúgja oddaflug og skvaldra mikið á flugi. Þær eru að mestu jurtaætur og lifa á villtum jurtum auk þess að nýta sér túnrækt. Um 25 gæsategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa 3 tegundir og að auki hafa sést 6 tegundir.

Andfuglar (Anseriformes), andaætt (Anatidae)
Andfuglaættbálkur. Andfuglar eru meðalstórir og stórir votlendisfuglar, jurta- og skordýraætur. Þeir fella allir flugfjaðrir samtímis við fjaðraskipti og eru þá ófleygir. Um 150 tegundir eru til í heiminum og verpa 22 tegundir á Íslandi.

Mikilvæg búsvæði
Skerjafjarðarsvæðið, Leirvogur og Grunnafjörður eru meðal þeirra staða sem eru afar mikilvægir fyrir íslenska far- og umferðarfugla. Á þessum stöðum staldrar m.a. margæsin við á ferð sinni milli Bretlandseyja þar sem hún dvelur á veturna og Kanada og Grænlands þar sem hún verpur á sumrin. Á Skerjafjarðarsvæðinu er mest um fuglana á Lambhúsatjörn, Bessastaðanesi, Arnarnesvogi og Kópavogsleiru. Um 200 margæsir hafa haldið sig á vorin á Kópavogsleiru undanfarinn áratug. Kópavogsleira ásamt ströndinni frá Bala í Garðabæ og í odda Kársness í Kópavogi er á náttúruminjaskrá. Kópavogsleira nýtur auk þess sérstakrar bæjarverndar.

Marhálmur (Zostera marina)
Marhálmur er eina blómstrandi háplantan sem vex að öllu leyti í sjó við Ísland. Plantan getur orðið allt að 1 m á lengd. Marhálmur er mikilvæg fæða fyrir ýmsa fugla af andaætt, einkum margæs og álft. Hann er einnig þýðingarmikill sem búsvæði fyrir þörunga og hryggleysingja og bindur saman leir- og sandbotn, líkt og melgras gerir á þurru landi. Áður fyrr var búfénaði beitt á marhálm þegar heyfengur var rýr. Þá var hann nýttur sem stopp í sængur og dýnur.

Grágæs (Anser anser
Langflestar grágæsir dvelja á Bretlandseyjum yfir veturinn. Gæsir lifa á ýmsum ræktuðum og villtum gróðri, t.d. kornsúrulaukum, elftingastönglum og berjum. Stofninn hefur minnkað allra síðustu ár og kann það að vera vegna mikillar skotveiði.
Sumar, Fjöldi: 10.000–20.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500 fuglar.

Heiðagæs (Anser brachyrhynchus
Stærsta heiðagæsabyggð í heimi er í Þjórsárverum við Hofsjökul og er Ísland eina Evrópulandið þar sem hún verpir. Þjórsárver eru verndað friðland og mikilvægt votlendissvæði í heiminum fyrir fugla. Á Eyjabökkum við Vatnajökul er langstærsta fjaðrafellistöð heiðagæsarinnar. Heiðagæs lifir á störum, hálmgresi, fífum, elftingu og fleiri jurtum. Fyrr á öldum var stundaður gæsarekstur í Þjórsárverum og fuglinn nytjaður. Hlaðnar voru gæsaréttir og ófleygum fugli smalað í þær.
Sumar, Fjöldi: 20.000–25.000 pör. Vetur, Fjöldi: 220.000 fuglar.

Helsingi (Branta leucopsis

Fargestur, en þó hafa örfá pör orpið hér á landi á sumrin. Lifir mest á kornsúrurótum, störum og túngrösum og sækir í ber á haustin líkt og margar aðrar gæsir. Helsingjaveiðar hafa verið aflagðar allsstaðar í heiminum nema á Íslandi.
Sumar, Fjöldi: 5–10 pör. Vetur, Fjöldi: 35.000 fuglar.

Helsingjanef (Lepas sp.)
Krabbadýr (Crustacea)
Helsingjar og margæsir þóttu fyrr á öldum dularfullir fuglar. Þeir birtust allt í einu á vorin, hurfu eftir skamma viðdvöl og sáust ekki aftur fyrr en um haust er þeir hurfu á nýjan leik. Enginn vissi um uppruna eða dvalarstað fuglana. Því var engin furða að fuglarnir voru í þá daga taldir komnir úr helsingjanefjum, krabbadýrum sem eru náskyld hrúðurkörlum og líkjast nokkuð nefi Helsingja. Helsingjanef lifa ekki við Ísland en rekur stundum hingað á ýmsum hlutum.

Blesgæs (Anser albifrons) A
Fargestur. Blesgæsastofninn er smár. Lifir einkum á votlendisgróðri, túngresi, elftingarótum, kornsúru, bláberjum og fleiri jurtum.
Vor og haust, Fjöldi: 1.500–2.000 pör. Vetur, Fjöldi: 32.000 fuglar.

Akurgæs (Anser fabalis
Flækingur. Verpur í Norður-skandinavíu og austur um Síberíu.

Snjógæs (Anser caerulescens
Flækingur frá N-Ameríku.

Margæs (Branta bernicula
Fargestur. Alfriðuð. Ólíkt öðrum gæsum halda margæsir sig mest á sjó og við sjávarströndina. Kjörsvæði eru grunnir og skjólsamir firðir og vogar þar sem eru lífríkar leirufjörur. Margæs lifir mikið á marhálmi en étur einnig þörunga og smádýr.
Vor og haust, Fjöldi: 1.500–2.000 pör? Vetur, Fjöldi: 15.000–16.000 fuglar.

Hænsnfuglar

Hænsnfuglaættbálkurinn er mjög fjölbreyttur. Hænsnfuglar eru búkmiklir landfuglar, með stutta vængi, hraðfleygir en fljúga stutt í einu. Rúmlega 300 tegundir eru til í heiminum en aðeins 12 tegundir verpa í Evrópu og á Íslandi lifir 1 tegund, rjúpan.

Rjúpa (Lagopus mutus) Orraætt (Tetraonidae)
Rjúpan er staðfugl á Íslandi og lifir hér allt árið um kring. Á sumrin er mest um þær í móum, mýrum og kjarri á láglendi og upp til fjalla. Á haustin og veturna halda þær sig mikið á heiðum og til fjalla. Aðalfæða rjúpu á sumrin eru kornsúrulaukar en á haustin og veturna éta þær mest grasvíði, fjalldrapa og ber. Miklar og allreglulegar sveiflur eru í fjölda rjúpa milli ára og líða um 10 ár milli hámarka. Þessu ræður sennilega flókið samspil nokkurra þátta, svo sem framboð fæðu, afrán rándýra, erfðaþættir og skotveiði.

Rjúpan hefur fjaðraskipti þrisvar á ári og er einstök meðal flestra fugla að því leyti, að hún fellir mikinn hluta bolfiðurs í þrígang, auk þess að fella flugfjaðrir einu sinni. Í fjaðraskiptum breytir rjúpan um lit og klæðist sumar-, haust- og vetrarbúningi, sem fellur vel inn í umhverfi rjúpunnar eftir árstíðum.
Sumar, Fjöldi: 50.000–200.000 pör. Vetur, Fjöldi: Allt að 1 milljón fuglar

Kjóar og skúmar

Kjóar og skúmar tilheyra Kjóaætt (Stercorariidae) af ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og eru aðeins 8 tegundir til í heiminum. Á Íslandi verpa kjói og skúmur, en fjallkjói og ískjói eru fargestir. Þessir fuglar eru þekktir fyrir mikla flugfimi enda lifa þeir töluvert á því að elta aðra fugla uppi og ræna þá ætinu.

Kjói (Stercorarius parasiticus
Farfugl. Á veturna halda kjóarnir sig við Suður-Afríku og hugsanlega einnig við Suður-Ameríku. Fæða kjóa er fjölbreytt. Þeir éta ber, köngulær, fiðrildi og bjöllur, egg, fuglsunga og smáfugla og kunnir eru þeir fyrir að elta sjófugla uppi og neyða þá til að sleppa ætinu úr nefinu eða æla því upp úr maganum.
Sumar, Fjöldi: 5.000–10.000 pör.


Skúmur (Stercorarius skua
Farfugl. Skúmar eru víðförlir og á veturna halda þeir til við Norðvestur-Afríku og Suður-Ameríku. Þeir geta orðið rúmlega 30 ára gamlir. Skúmar ráðast á aðra fugla og neyða þá til að sleppa ætinu, en einnig taka þeir egg, unga og drepa jafnvel stóra fugla eins og gæsir. Um helmingur allra skúma í heiminum lifir á Íslandi. Friðaður.
Sumar, Fjöldi: 5.000–6.000 pör.

Máfar

Máfar eru af máfaætt (Laridae) og sama ættbálki og kjóar og þernur. Þeir teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þessir fuglar lifa einna helst á fiski en éta einnig skordýr, fuglsunga, egg og úrgang. Goggur þeirra er sterklegur með boginn krók á endanum. Karlfuglinn er yfirleitt stærri en kvenfuglinn en að öðru leiti eru bæði kynin eins í útliti.

Fuglarnir verpa í byggðum og er eggjafjöldinn um 2-3 egg. Á Íslandi eru 7 tegundir máfa af máfaætt sem verpa að staðaldri, 2 sem hafa vetursetu og 1 sem kemur árvisst allt árið um kring. Á safninu eru 8 tegundir máffugla til sýnis en tegundir máfa eru um 45.

Hvítmáfur (Larus hyperboreus
Staðbundinn varpfugl sem einkennir helst strandsvæði Vestfjarða og Breiðafjörð. Hann er stór máfur og er eins og nafnið gefur til kynna hvítur og ljósgrár, engan dökkan blett er að finna á fuglinum. Goggur hans er stór og gulur með rauðan blett að neðan og fætur eru bleikir. Félagslyndur fugl. Varpbyggðin er stór sem helst er að finna í klettum við sjó eða bröttum hlíðum. Eggjafjöldi er 2-3 egg og er varptíminn eftir miðjan maí og út júní. Stofnstærð: 10-15 000 pör.

Svartbakur (Larus marinus
Algengur varpfugl og að mestu staðfugl. Er stærstur máfanna og oft nefndur veiðibjalla. Bak og vængir svartir, goggur gulur með rauðum blett og fætur bleikir. Félagslyndur fugl sem heldur sig gjarnan við aðra máfa. Verpur víða, frá sjó að fjalli. Varpið er oft með öðrum máfum eða einstök pör út af fyrir sig. Á veturna heldur fuglinn sig við grunnsævi eða strendur en ungfuglinn hefur vetursetu í Færeyjum og Bretlandi. Eggjafjöldi er 2-3 egg og hefst varptíminn í maí og stendur fram í júní. Stofnstærð: 15-30 000 pör.

Sílamáfur (Larus fuscus
Algengur varpfugl og er alger farfugl sem kemur snemma á vorin. Svipar til svartbaks en er minni og nettari. Hann hefur gulan gogg með rauðum bletti og gula fætur. Félagslyndur og spakur fugl sem sækir í þéttbýli. Eini máfurinn sem sækir meira í skordýr. Varpstaðir víða frá söndum og upp í fjöllum, stundum með svartbak. Eggjafjöldi er 3 egg og er varptíminn helst í júní. Stofnstærð: 25-35 000 pör

Rita (Rissa tridactyla
Staðbundinn varpfugl en að mestu farfugl. Ritan er lítill máfur sem heldur sig að mestu til úti á sjó og sést sjaldan inn til landsins. Hún hefur fínlegan gulan gogg og svarta fætur. Mjög lipur á flugi og steypir sér eftir æti líkt og kría. Mjög félagslyndur fugl sem verpir í stórum byggðum innan um aðra sjófugla. Mjög algengur fugl hér á landi og fer fjölgandi. Eggjafjöldi 1-3 egg og verpir aðallega í júní. Stofnstærð: 630 000 + pör.

Hettumáfur (Larus ridibundus

Silfurmáfur (Larus argentatus
Staðbundinn varpfugl en að nokkru leyti farfugl þar sem ungfuglar fara til Bretlandseyja. Silfurmáfurinn er stærsti máfurinn með grátt bak og svarta vængbrodda. Goggurinn er gulur og með rauðum bletti að neðan en fæturnir eru ljósbleikir. Fuglinn verpir í stórum byggðum í grasbrekkum, klettum, eyjum og söndum nærri sjó, jafnvel innan um aðra máfa.
Eggjafjöldi er 3 egg og er varptíminn frá byrjun maí og fram í júní. Stofnstærð: 15-20 000 pör.

Stormmáfur (Larus canus
Strjáll varpfugl og að mestu farfugl. Líkur silfurmáfi en nokkru minni. Stormmáfur hefur ljósgrátt bak og vængi og svarta vængbrodda. Goggur og fætur hans eru ljósgulir. Byggð varpsins er lítil eða í stökum pörum, stundum í byggð með hettumáfi. Heldur sig nærri strönd en sést einnig inn til landsins. Á veturna fer hluti fuglanna til Bretlands.
Eggjafjöldi er 2-3 egg og er varptíminn frá byrjun júní og fram í júlí. Stofnstærð: 3-400 pör.

Bjartmáfur (Larus glaucoides
Vetrargestur en hefur þó sést að sumri til. Hann líkist hvítmáfi, er stór með gulan gogg og grábleika fætur. Fimur á flugi og sundi og heldur sig mest meðfram ströndum og með öðrum máfum. Hann verpir á Grænlandi, Baffinseyjum og nálægum eyjum og eru varpstöðvarnar stórar.

Pípunefir

Á Íslandi eru tvær ættir af þessum ættbálki, fýlingaætt (Procellariidae) og sæsvölur (Hydrobatidae). Þetta eru meðalstórir og litlir sjófuglar, með nasaholur sem opnast ofan á nefinu og mynda pípu. Þeir spúa lýsi og fæðuleifum til að bægja frá hættu. Af fýlingum og sæsvölum eru til um 120 tegundir í heiminum og verpa 4 þeirra á Íslandi. Að auki eru 2 tegundir (gráskrofa og hettuskrofa) reglulegir sumargestir.

Fýll (Fulmarus glacialis) Fýlingaætt (Procellariidae)
Fýlar, einnig kallaðir múkkar, eru með algengustu fuglum Íslands. Veiðar á fýlsungum voru stundaðar í nokkrum mæli áður fyrr, einkum í Mýrdal og Vestmannaeyjum. Fýlar halda sig mikið á rúmsjó og sækja að skipum í von um æti. Þeir finnast einnig langt inni í landi og verpa sums staðar þar, t.d. vid Þingvallavatn.
Sumar, Fjöldi: 1–2 milljónir para. Vetur, Fjöldi: 1–5 milljónir fugla.

Skrofa (Puffinus puffinus) Fýlingaætt (Procellariidae)
Ísland er nyrsta varpland skrofu í Evrópu. Lítið er vitað um ferðir íslenskra skrofa en talið er að flestar þeirra hafi vetursetu við Suður-Ameríku. Skrofa merkt við Ísland hefur fundist við Brasilíu. Skrofur halda sig að mestu á rúmsjó og lifa líklega mest á sandsíli, síld og smokkfiski. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 7.000–10.000 pör.

Stormsvala (Hydrobates pelagicus) Sæsvöluætt (Hydrobatidae)
Stormsvala er minnsti sjófugl Evrópu. Hún verpur í holur á eyjum í júlí–ágúst, síðastur íslenskra fugla. Lítið er vitað um dvalarstað um vetur, en líklega eru þeir meðfram strönd Vestur- og Suður-Afríku. Stormsvala merkt á Íslandi hefur fundist að vetrarlagi í Alsír. Sennilega lifa stormsvölur mest á smágerðu krabbasvifi. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 50.000–100.000 pör.

Sjósvala (Hydrobatidae) Sæsvöluætt (Hydrobatidae)
Algengust á Íslandi í Evrópu og er mestallur íslenski varpstofninn í Vestmannaeyjum. Þær verpa í eyjum og höfðum og grafa út djúpar holur fyrir hreiðurstæði. Lítið er vitað um vetursetu fuglanna, en ekki er ósennilegt að þær sæki til Suður-Ameríku og Suður-Afríku. Sjósvölur halda sig að mestu á rúmsjó og lifa líklega mest á krabbasvifi. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: 80.000–150.000 pör.

Ránfuglar

Helstu einkenni ránfugla eru hvasst og krókbogið nef, sterkar og hvassar klær og mjög skörp sjón. Til eru hátt í 300 tegundir af 5 ættum. Á íslandi verpa 3 tegundir af 2 ættum.

Haförn (Haliaeetus albicilla) Haukaætt (Accipitridae)
Ernir eru stórir ránfuglar með sterklegt, krókbogið nef og stórar bognar klær. Um 250 tegundir eru til í heiminum og verpir 1 tegund á Íslandi.
Hafernir eru rándýr og hræætur sem lifa langmest á fugli, einkum fýl og æðarfugli, og fiski. Um tíma var haförnum fundið flest til foráttu, þeir ofsóttir og hart gengið að íslenska stofninum. Haförninn hefur líka verið dáður og oft er hann kallaður konungur íslenskra fugla. Örn kemur fyrir í mörgum örnefnum og fjöldi manna ber nafn hans. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 35–40 pör. Vetur, Fjöldi: 120–150 fuglar.

Fálki (Falco rusticolus) Fálkaætt (Falconidae)
Meðalstórir ránfuglar með bogið nef og klær. Um 65 tegundir eru til í heiminum og verpa 2 tegundir á Íslandi.
Fálkinn er mjög staðbundinn fugl og trygglyndur í parsambandi líkt og örn. Sama parið verpur oft ár eftir ár á sama óðali, svæði sem fálkinn helgar sér og ver. Oftast eru óðul í klettabeltum og árgljúfrum. Rjúpan er aðalfæða fálkans, en að auki veiðir hann endur og gæsir, vaðfugla, spörfugla og hagamýs. Varpárangur og afkoma fálkaunga virðist ráðast að miklu leyti af stofnstærð rjúpu að vori. Alfriðaður.

Fálkinn var alfriðaðar árið 1940 eftir að gengið hafði verið nærri stofninum um alllangt skeið. Undir lok 19. aldar og fram á 20. öld varð fálkinn fyrir barðinu á skipulegri herferð gegn gegn svokölluðum „vargfuglum“, sem beindist einnig að haförnum. Meðal annars var stofnun og starfsemi Æðarræktarfélagsins við Breiðafjörð helguð þessari herferð seint á 19. öld (1885-1892). Fálkar og hafernir voru skotnir þar sem náðist til þeirra og greiddar 20 krónur fyrir fuglinn, sem þótti mikið fé þá. Um svipað leyti hófst herferð gegn refum og eitruð hræ borin út á víðavang. Hafernir og fálkar sóttu einnig í hræin og drápust.

Fyrr á öldum og allt fram á 20. öld voru skörð höggvin í raðir fálka vegna eggja- og ungatöku. Þegar á 16. öld var fálkatekja ein af tekjulindum Danakonungs og um aldamótin 1700 var árleg fálkatekja liðlega 100 fálkar. Mestur útflutningur á lifandi fálkum frá Íslandi var á árunum 1740-1765, en þá voru sum árin fluttir út milli 150 og 200 fálkar.

Tamdir fálkar hafa frá alda öðli verið álitnir konungsgersemi og eftisóttir til veiða og annarrar skemmtunar við aðalshirðir víða um heim. Á Íslandi hefur fálki einnig verið hafður í hávegum. Fálki var áður í skjaldarmerki Íslands og eitt æðsta heiðursmerki landsins um langan tíma, fálkaorðan, er kennd við hann.

Sumar, Fjöldi: 250–350 pör. Vetur, Fjöldi: 1.000–2.000 fuglar.

Smyrill (Falco columbarius) Fálkaætt (Falconidae)
Smyrillinn er minnstur íslensku ránfuglanna. Smyrlar eru ólíkt fálkum að mestu farfuglar og eru Bretlandseyjar helstu vetrarstöðvar þeirra. Litlir spörfuglar og vaðfuglar eru helsta fæða smyrla. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 1.000–1.200 pör. Vetur, Fjöldi: 10–100 fuglar

Súlur og skarfar

Pelíkanaættbálkur. Af þessum ættbálki eru 3 tegundir á Íslandi og tilheyra þær súluætt (Sulidae) og skarfaætt (Phalacrocoraacidae). Í Evrópu hefur sést til alls 14 tegunda af þessum tveimur ættum. Þetta eru stórir sjófuglar, með sundfit milli allra fjögurra táa, fiskiætur og verpa á skerjum og klettum.

Súla (Morus bassanus) Súluætt (Sulidae)
Eitt af stærstu súluvörpum heims er í Eldey. Á veturna eru flestar súlur á Spáni og við Norðvestur-Afríku.

Súlan er eindreginn sjófugl og fiskiæta. Súlukast er tilkomumikil sjón. Súlan steypir sér á kaf lóðrétt hátt úr lofti, stundum úr 30 m hæð eða meira, og liggja vængirnir aftur með búknum til að draga úr loftmótstöðu og höggi þegar fuglinn klýfur vatnsflötinn. Bráðin er ýmsir fiskar, m.a. síld og sandsíli.

Súluungar hafa verið nýttir til matar hér á landi um langan tíma. Á framanverðri 20. öld var stunduð umtalsverð súlutekja í Eldey, en árið 1940 var eyjan friðlýst.

Fjöldi: Um 25.000 pör að sumri en 100–1.000 fuglar að vetri.

Dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) Skarfaætt (Phalacrocoraacidae)
Dílaskarfar urpu fyrrum umhverfis allt Ísland en nú eru byggðir þeirra aðeins við Breiðafjörð og Faxaflóa. Þeir hafa verið nytjaðir frá ómunatíð. Fæða dílaskrafa eru ýmsir fiskar, t.d. sprettfiskur, marhnútur, þorskur og loðna.

Fjöldi: Um 2.500 pör að sumri en 10.000–20.000 fuglar að vetri.

Vaðfuglar

Vaðfuglar tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes). Á Íslandi verpa 11–13 tegundir vaðfugla reglulega og tilheyra þeir þremur ættum, tjaldaætt, lóuætt og snípuætt. Vaðfuglar eru yfirleitt langnefjaðir, háfættir og annað hvort með vaðfætur eða sundblöðkur. Ofast eru eggin fjögur og ungar klekjast vel þroskaðir úr þeim.

Ísland er mjög mikilvæg varpstöð fyrir vaðfugla í Evrópu. Talið er að allt að 20% evrópskra vaðfugla hafi búsetu á Íslandi á sumrin. Ísland er einnig mikilvægur viðkomustaður á vorin og haustin fyrir farfugla sem eiga leið milli Evrópu og Norður-Ameríku og Grænlands.

Tjaldur (Haematopus ostralegus) Tjaldaætt (Haematopodidae)
Hluti íslenskra tjalda er allt árið um kring á Íslandi, en flestir hafa vetursetu á Bretlandseyjum. Tjaldar lifa mikið burstaormum, smáum krabbadýrum og kræklingi og fleiri lindýrum sem þeir tína upp á leirum. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 10.000 pör. Vetur, Fjöldi: 2.000–3.000 fuglar.

Spói (Numenius phaeopus) Snípuætt (Scolopacidae)
Spóinn er farfugl og hefur vetursetu helst við strendur Norðvestur-Afríku, einkum í Senegal og Gíneu-Bissá. Hann heldur mest til í margs konar mýrlendi og lifir á bjöllum, tvívængjum, fiðrildum og köngulóm. Þá sækir hann mikið í ber síðsumars. Hann er vorboði og vellir graut. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 200.000 pör.

Jaðrakan (Limosa limosa) Snípuætt (Scolopacidae)
Farfugl sem hefur vetrarútbreiðlsu á Bretlandseyjum og austan Ermarsunds. Slæðist suður til Marokkó. Íslenskir jaðrakanar eru taldir vera sérstök deilitegund. Á sl. öld breiddist varpsvæði þeirra út frá S-SV. landi og verpa þeir nú í öllum landshlutum.
Sumar, Fjöldi: 30.000 fuglar. Þar af 7-10.000 pör.

Stelkur (Tringa totanus) Snípuætt (Scolopacidae)
Varpstofn stelka á Íslandi er líklega sá stærsti í Evrópu. Á veturna halda langflestir íslenskir stelkar sig á Bretlandseyjum og á strandsvæðum frá Suður-Noregi til Frakklands. Stelkar halda til í margs konar búsvæði, fjörum, mýrlendi og graslendi, og fæðan er að sama skapi fjölbreytt. Við sjó tína þeir þang- og klettadoppur, krækling og marflær. Inn til lands éta þeir meira af ýmsum skordýrum, t.d. bjöllur, púpur hrossaflugna og mýlirfur. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: 50.000– 100.000 pör. Vetur, Fjöldi: 500–1.000 fuglar.

Sanderla (Calidris alba) Snípuætt (Scolopacidae)
Sanderlur eru fargestir á Íslandi. Þær koma á vorin frá Bretlandseyjum og alla leið frá Ghana í Norðvestur-Afríku. Hér dvelja fuglarnir í 2-3 vikur, einkum í sendnum fjörum Suðvestanlands, og nærast á kræklingi, þangflugum og fleiri dýrum. Að lokinni dvöl hér halda fuglarnir til Grænlands og Norður-Kanada þar sem þeir verpa. Um haust fljúgja sanderlurnar líklega sömu leið til baka til vetrarstöðvanna. Talið er að 8.000–10.000 sanderlur fljúgi um Ísland. Alfriðuð.

Tildra (Arenaria interpres) Snípuætt (Scolopacidae)
Tildrur eru bæði far- og vetrargestir á Íslandi. Þær koma hingað í kringum mánaðamótin apríl-maí frá Bretlandseyjum og alla leið frá Máritaníu í Norðvestur-Afríku. Hér dvelja tildrurnar á fjörusvæðum í 3-4 vikur og halda þá áfram til varpstöðva á Grænlandi og Norður-Kanada. Til baka fljúga sumir fuglar þegar síðla í júlí. Aðalfæða tildra eru ýmis lindýr, gljásilfri, þangdoppa og þarastrútur. Til að ná í æti velta tildrur oft við steinum. Um 40.000 tildrur fljúga um Ísland. Alfriðuð.
Vetur. Fjöldi: 2.000–5.000 fuglar.

Rauðbrystingur (Calidris canutus) Snípuætt (Scolopacidae)
Rauðbrystingur er fargestur á Íslandi. Á vorin hafa 250.000–300.000 fuglar viðkomu hér á landi, en á haustin eru þeir mun færri. Aðal viðkomustaðir eru á Vestur- og Suðvesturlandi og eru leirufjörur kjörlendi rauðbrystinga. Kjörfæða eru margs konar lindýr, t.d. kræklingur, sandskel, klettadoppa og þarastrútur. Ýmis skordýr eru einnig töluvert étin. Alfriðaður.
Vetur, Fjöldi: 10–50 fuglar.

Sendlingur (Calidris maritima) Snípuætt (Scolopacidae)
Farhættir íslenskra sendlinga eru ólíkir farháttum annarra vaðfugla og hefur hluti íslenska stofnsins hér bæði varpstöðvar og vetursetu. Helstu varpsvæðin eru á hálendinu og er fjallafæla gamalt heiti á sendlingi. Á veturna eru sendlingar í stórgrýttum sjávarfjörum og þá éta þeir mest lindýr, svo sem mærudoppur, þangdoppur og klettadoppur, auk burstaorma og krabbadýra. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 10.000 pör. Vetur, Fjöldi: 10.000–100.000 fuglar.

Lóuþræll (Calidris alpina) Snípuætt (Scolopacidae)
Lóuþrælar eru farfuglar á Íslandi. Vetursetu hafa þeir á Spáni og suður með strönd Norðvestur-Afríku til Máritaníu. Þeir verpa í mýrlendi og deigu landi og lifa mest á vatnaskordýrum, t.d. lirfum rykmýs, vatnsköttum og hrossaflugulirfum. Í sjávarfjöru tína þeir aðallega lindýr, s.s. baugasnotru, gljásilfra og krækling. Alfriðaður.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör.

Vepja (Vanellus vanellus) Lóuætt (Charadriidae)
Vepjur eru flækingar á Íslandi og koma hingað ár hvert. Þær eru mjög algengar um alla Evrópu og austur eftir Asíu. Varp vepja hefur verið staðfest í 15 skipti á landinu, en líklega er hér fullkalt fyrir þær. Vetrarhörkur þóttu vísar ef sást til vepja og hafa fuglarnir einnig gegnt heitinu ísakrákur. Alfriðuð.

Sandlóa (Charadrius hiaticula) Lóuætt (Charadriidae)
Farfugl. Kjörlendi sandlóa eru sendnar fjörur, grandar, melar, eyrar og ásar og þar verpa þær. Þær lifa á ýmsum smáum lindýrum og skordýrum, m.a. lirfum þangflugna sem verpa í rotnandi þanglaupa. Vetrarstöðvar sandlóa eru ekki vel þekktar, en líklega halda þær sig á Bretlandseyjum og allt niður til strandar Norðvestur-Afríku. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 50.000 pör.

Heiðlóa (Pluvialisn apricaria) Lóuætt (Charadriidae)
Farfugl. Óvíða ef nokkur staðar er jafn mikið af heiðlóu og á Íslandi. Helstu búsvæði heiðlóa eru lyng- og mosamóar á láglendi og lágum heiðum. Vetrarstöðvar heiðlóu eru frá Bretlandseyjum, Niðurlöndum og suður til Spánar. Þær lifa á fjöbreyttri fæðu, bæði jurtum og dýrum, m.a. ánamöðkum, lindýrum, skordýrum og krabbadýrum. Alfriðuð.
Sumar, Fjöldi: Um 300.000 pör.

Íslenskar vefsíður með fuglaefni:
Fuglar.is
The Icelandic Birding Pages

 

Helstu heimildir:
The encyclopaedia of birds. Ritstj. Christopher M. Perris og Alex L. A. Middleton. Útg. George Allen & Unwin, London 1985.
Fuglar í náttúru Íslands. Höf: Guðmundur Páll Ólafsson. Útg. Mál og menning 1987
Íslenskir fuglar. Höf: Ævar Petersen og Jón Baldur Hlíðberg. Útg. Vaka-Helgafell hf. 1998.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner