Liðdýr

Á safninu eru til sýnis fulltrúar þriggja íslenskra landspendýrategunda, þ.e. refa minka og hagamúsa. Alls finnast sex tegundir spendýra villtar á Íslandi, en það eru auk framataldra tegunda, hreindýr, húsamýs og brúnrottur. Einungis refurinn er upprunalegur, aðrar hafa flust hingað með manninum.

Uppstoppaður útselsbrimill og beinagrind úr háhyrningi eru fulltrúar íslenskra sjávarspendýra, en auk þess á stofan nokkuð af hvalabeinum sem alla jafna eru ekki til sýnis. Talsvert sýningarefni er að auki um hvali og lifnaðarhætti þeirra.

Hér að neðan er fjallað sérstaklega um hvern hóp þeirra spendýra sem finnast villt á Íslandi og umhverfis það.

Fiðrildi

Ættbálkur fiðrilda (Lepidoptera) telur um 165 þús. tegundir í 127 ættum. Lirfurnar eru yfirleitt plöntuætur en fullorðnu dýrin hafa sograna og lifa á blómasafa. Hérlendis lifa um 60 tegundir en að flækingum meðtöldum hafa fundist hér um 100 tegundir. Meirihluti íslenskra fiðrilda tilheyrir þremur ættum, en það eru fetaætt (Geometridae), ygluætt (Noctuidae) og vefaraætt (Tortricidae).

Fetar (Geometridae)
Auðveldast er að þekkja feta á því að þeir hvílast gjarna með útbreidda vængi. Hér á landi eru 16 tegundir feta (Geometridae) og má nefna birkifeta, túnfeta og haustfeta sem dæmi. Haustfeti er oft áberandi í okóber.

Yglur (Noctuidae)
Fremur stór og búkmikil fiðrildi, mun þungbyggðari en fetarnir og miklir mathákar. Þær geta því valdið skemmdum á gróðri og er grasmaðkurinn, sem er lirfa grasyglunnar etv. þekktasta dæmið. Sumar tegundir yglulirfa sækja mest í vissar plöntutegundir og nafn ertuyglunnar (melanchra pisi) gefur gefur til kynna sérstakt dálæti á baunagrasi þótt margt annað sé á matseðlinum.

Vefarar (Tortricidae)
Þessi fiðrildi þekkjast á því að þau leggja vængina að bol í hvíldarstöðu þannig að vængirnir hjúpa bolinn. Hér á landi lifa átta tegundir vefara (Tortricidae). Þessum fiðrildum er stundum ruglað saman við vorflugur (Trichoptera) sem eru alls óskildar.
Á þessar síðu má m.a. sjá nokkrar mismunandi tegundir af vefurum (á ensku).

Flækingar
Flækingsfiðrildum má skipta í tvo hópa eftir því hvort þau berast hingað fyrir eigin afli eða með varningi. Sum þeirra fiðrilda sem fljúga hingað af sjálfsdáðun eru árlegir gestir.
Nokkuð er um árlega flækinga sem berast hingað fyrir eigin vængjakrafti, s.s. gammayglu (Autographa gamma), skrautyglu (Phlogophora meticulosa) og undanfarin tvö ár hefur borið nokkuð á kóngasvarma (Agrius convolvuli) og aðmírálsfiðrildum(Vanessa atalanta).

Bjöllur

Bjöllur (Coleoptera) er fjölskipaður ættbálkur sem inniheldur 166 ættir og um 370 þús. tegundir. Hér á landi hafa fundist um 160 tegundir auk flækinga. Helsta einkenni þeirra er að fremra vængjaparið er ummyndað í skildi, en undir þeim eru flugvængirnir. Þær eru margvíslegar að stærð, lit og lögun og geta verið mjög skrautlegar. Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna umfjöllun og ljósmyndir af fjölmörgum íslenskum bjöllutegundum, auk annars fróðleiks er varða bjöllur.

Smiðir (Carabidae): Í hópi smiða eru járnsmiðirnir sem flestir þekkja. Hér á landi hafa fundist um 30 tegundir smiða en talið er að alls finnist um 20 þús. tegundir í heiminum. Þeir eru rándýr.

Jötunuxar (Staphylinitae) eru langvaxnar bjöllur með stutta skjaldarvængi þannig að afturbolurinn stendur nakinn undan. Flugvængirnir eru brotnir saman undir skjaldarvængjunum og sjást því ekki. Af þeim hafa um 70 tegundir fundist en talið er að um 20 þús. tegundir finnist í heiminum. Þeir eru rándýr.

Ranabjöllur (Curculionidae): Eins og nafnið bendir til, þá er höfuðlag ranabjalla (Curculionidae) sérstakt. Munnur dýrsins er fremst á rana eða totu sem gengur fram úr höfði þess. Skjaldarvængir eru samgrónir og dýrin ófleyg. Talið er að um 20 teg. lifi hér á landi en nokkur fjöldi slæðinga hefur einnig fundist. Talið er að til séu um 40 þús. tegundir í heiminum og þar með er þetta stærsta bjölluættin. Ranabjöllur eru plöntuætur, bæði á lirfu- og fullorðinsstigi.

Maríubjöllur (Coccinellidae) eru næsta hálfkúlulaga, oftast með skærlita skjaldarvængi með svörtum blettum. Af þeim eru þekktar um 3400 tegundir, en aðeins tvær lifa hér á landi. Þær eru rándýr og taldar sérlega gagnlegar í baráttunni við blaðlýs.

Brunnklukkur (Dytiscidae): Af brunnklukkuætt (Dytiscidae) eru þekktar um 4000 tegundir en af þeim lifa 4 hér á landi. Brunnklukkur lifa í tjörnum og geima loft til öndunar undir skjaldarvængjunum. Þær eru vel fleygar og flytja sig þannig milli tjarna. Þær eru rándýr sem og lirfur þeirra, sem kallast vatnskettir.

Krabbadýr

Krabbadýr (Crustacea) er hópur liðdýra sem telur alls um 67 þús. tegundir. Undir þennan flokk falla hinir alþekktu krabbar s.s. trjónukrabbi, bogkrabbi og einbúakrabbi (kuðungskrabbi) en einnig humrar, hrúðurkarlar og rækjur. Þá falla mörg hinna smávöxnu dýra sem lifa í svifi í sjó og vötnum í þennan hóp, og einstöku tegundir sem lifa á landi.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna umfjöllun og ljósmyndir af fjölmörgum íslenskum skordýrum og öðrum pöddum, auk margvíslegs fróðleiks. Náttúrufræðistofa Kópavogs á nokkurt safn skordýra þótt þau séu alla jafna ekki til sýnis. Hér að neðan má finna almennar upplýsingar um helstu hópa skordýra.

Tvívængjur

Tvívængjur (Diptera) er einn af meginættbálkum skordýra og samanstendur af 130 ættum sem i eru um 120 þús. tegundir. Hér á landi lifa um 300 tegundir þeirra. Þessi skordýr greina sig frá öðrum að því leiti að þau hafa aðeins eitt vængjapar. Til þessa hóps teljast margar af þeim flugum sem eru áberandi hér á landi s.s. mýflugur, fiskiflugur og húsflugur.

Æðvængjur

Ættbálkur æðvængja (Hymenoptera) samanstendur af 91 ætt, en innan þeirra eru um 200 þús. tegundir. Æðvængjur skiptast í tvo undirættbálka, sagvespur annarsvegar en snýkjuvespur, geitunga, maura, bý- og hunangsflugur hinsvegar. Hér á landi hafa fundist um 260 tegundir æðvængja.

Geitungar
Á íslandi eru þekktar fjórar tegundir geitunga, en það eru holugeitungar, húsageitungar, trjágeitungar og roðageitungur. Óhætt er að segja að geitungar séu með óvinsælustu pöddum á landinu. Þetta stafar af því að þeir hafa stungubrott sér til varnar, sem tengdur er eiturkirtli. Eitrið er ætlað til varnar en ekki veiða og þannig samsett að það veldur verulegum óþægindum, en er ekki hættulegt nema í undantekningar tilfellum. Þetta á við hafi fólk ofnæmi fyrir því eða, stungan komi á slæman stað s.s. nærri öndunarfærum. Talið er að um 3% fólks geti haft ofnæmi fyrir geitungastungum. Rétt er að benda á að mikilvægt er að ganga vel frá flugnaneti á barnavögnum. Þá er gott að venja sig á að drekka bjór eða sæta drykki úr glösum utanhúss, þar sem geitungar vilja stundum lenda ofan í drykkjarílátum. 

Allar tegundir geitunga sem finnast á landinu gera sér bú og fer staðsetning þeirra fer nokkuð eftir tegundum. Þannig eru holugeitungabú oftast neðanjarðar, t.d. í hleslum eða undir grjóthellum, meðan trjágeitungabú eru í trjám eða undir þakskeggjum. 

Ef leggja á til atlögu við geitungabú er best að hafa samband við einhvarn sem kann til verka. Ætli menn að gera þetta sjálfir er góður og þéttur klæðnaður nauðsynlegur, þannig að varnarliðið nái ekki að komast niður um hálsmál eða upp í ermar. Innanhúss er gott að nota hárlakk til veiða, en það klessir saman vængi og stíflar öndunarfæri þeirra. Þá má útbúa eða kaupa geitungagildrur þar sem egnt er fyrir þá með sætum vökva. Þannig gildrur má nota bæði innan- og utanhúss.

Hunangsflugur
Bústnar og loðnar flugur, svartar og gular að lit. Þær eru stórar á mælikvarða íslenskra skordýra. Fimm tegundir hafa fundist hér á landi og eru tvær þeirra algengar. Mörgum stendur stuggur af hunangsflugum, en það er næsta ástæðulaust. Þótt þær séu búnar eiturbroddi til varnar eins og geitungarnir, eru þær ekki árásargjarnar og stinga ekki nema viðkomandi hafi til þess unnið.

Snýkjuvespur

Margbreitilegur hópur (10 þús. teg.) sem á það sameiginlegt verpa eggjum sínum í lirfur annarra skordýra. Sumar hafa langa varppípu og geta jafnvel leitað uppi bjöllulirfur í trjástofnum. Margar tegundir snýkjuverpa eru bundnar við ákveðna hýsla, þ.e. lirfur ákveðinna skordýrategunda. Þegar vespan hefur fundið hýsil við hæfi borar hún varppípu sinni í hana og verpir einu eggi. Lirfan sem úr því skríður hefst þegar handa við að éta hýsilinn, en þó á svo varfærinn hátt að hýsillinn heldur lífi uns lirfan er fullþroskuð.

Sagvespur
Einkennandi fyrir þessar vespur er að varppípa þeirra er ummynduð í n.k. sagarblað sem nýtist vel til að gera raufar í plöntustöngla fyrir egg vespunnar.

Trjávespur
Þessar vespur hafa langa varppípu sem þær nota til að bora holur í tré. Eggi er síðan orpið í holuna og lirfan nærist á viðnum. Enn sem komið er hafa þessar vespur aðeins fundist sem flækingar hér á landi.

Húsamaur
Húsamaur (Hypoponera punctatissima) er 2-4 mm langur og fremur auðþekktur á n.k. aukalið milli frambols og afturbols. Hér á landi heldur hann sig aðallega undir gólfplötum húsa, þar sem jarðvegur hefur sigið. Oft finnst hann í grennd við lélegar lagnir sem skapa kjöraðstæður fyrir þá, þ.e. hita, raka og líflegt smádýralíf.

Alla jafna verður ekki vart við húsamaur nema þegar drottningar yfirgefa búin til að stofna ný. Drottningarnar eru vængjaðar, en allir aðrir meðlimir búsins eru vængjalausir. Húsamaur er oft talinn til meindýra hér á landi, en vegna staðsetningar búanna getur verið erfitt að eyða honum. Sé grunur um lélegar lagnir er besta ráðið að koma þeim í lag og ætti þá að vera hægt að komast fyrir maurinn í leiðinni.

Helstu heimildir:

Stóra skordýrabók Fjölva. Höf: V.J. Stanek (Þorsteinn Torarensen þýddi og staðfærði). Útg. Fjölvi 1974.
Rit Landverndar nr. 9 – Pöddur. Ritstj: Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Útg. Landvernd 1989.
Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 17 – Íslenskt skordýratal. Höf: Erling Ólafsson. Útg. Náttúrufræðistofnun Íslands 1991.
Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 32 – Fiðrildi á Íslandi 1995. Höf: Erling Erling Ólafsson og Hálfdán Björnsson. Útg. Náttúrufræðistofnun Íslands 1997.
Insects, spiders and other terrestrial arthropods (Dorling Kindersley Handbooks). Höf: George C. McGavin. Útg. Dorling Kindersley limited, London 2000.
Dulin veröld, smádýr á íslandi. Höf: Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson. Útg. Mál og mynd ehf. 2002

Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands www.ni.is

Consent Management Platform by Real Cookie Banner