Spendýr

Á safninu eru til sýnis fulltrúar þriggja íslenskra landspendýrategunda, þ.e. refa minka og hagamúsa. Alls finnast sex tegundir spendýra villtar á Íslandi, en það eru auk framataldra tegunda, hreindýr, húsamýs og brúnrottur. Einungis refurinn er upprunalegur, aðrar hafa flust hingað með manninum.

Uppstoppaður útselsbrimill og beinagrind úr háhyrningi eru fulltrúar íslenskra sjávarspendýra, en auk þess á stofan nokkuð af hvalabeinum sem alla jafna eru ekki til sýnis. Talsvert sýningarefni er að auki um hvali og lifnaðarhætti þeirra.

Hér að neðan er fjallað sérstaklega um hvern hóp þeirra spendýra sem finnast villt á Íslandi og umhverfis það.

Rándýr

Refur (Vulpes lagopus) Hundaætt (Canidae)
Refurinn er eina villta landspendýrið sem var á Íslandi þegar það var numið fyrir um 1.000 árum af norrænum mönnum. Líklega hefur rebbi lifað hér frá lokum síðustu ísaldar, fyrir um 11.000 árum síðan. 

Tvö meginlitarafbrigði eru til af refinum, hvítt og mórautt. Hvíta afbriðgðið er skjannahvítt að vetri til en grábrúnt að sumri. Mórauða afbrigðið er brúnt allt árið, en er þó heldur ljósara að vetri til. Mórauða afbrigðið er um tvisvar sinnum algengara en það hvíta. Hvítir refir eru fágætari en mórauðir refir á landsvæðum þar sem stór hluti fæðunnar er sóttur að sjó. Mórauðir refir dyljast betur í fjöru en hvítir refir. Bleikt litarafbrigði af íslenska refinum er sjaldgæft, en það finnst einkum á Vestfjörðum. Öll litarafbrigðin þrjú blandast óhindrað saman. 

Refir lifa langmest á fuglum. Þeir veiða einkum fýl, langvíu, lunda, æðarfugl, rjúpu, gæsir og vaðfugla. Gæsir og vaðfuglar ásamt eggjum og ungum þeirra eru mest étin á sumrin. Að auki éta refir ýmis önnur hryggdýr, t.d. hrognkelsi, hagamýs, selshræ og stundum sauðfé. Þá éta þeir hryggleysingja í einhverjum mæli, t.d. lirfur og púpur þangflugunnar og marflær, og auk þess þrífst rebbi á berjum og sveppum. 

Refir eru mest á ferli í ljósaskiptum kvölds og morgna. Þeir hafa mjög næmt þefskyn og þurfa ekki að treysta sjóninni í sama mæli og fuglar, helsta bráð refa, gera.

Blárefir sem sloppið hafa af refabúum geta æxlast við íslenska refi. Blendingsafkvæmið lítur allt öðru vísi út en íslenski refurinn. Blöndun blárefa og íslenskra refa getur stefnt íslenska refinum í hættu vegna þess að blárefir eru innfluttir og ekki aðlagaður íslenskri náttúru í sama mæli og íslenski refurinn.

Refurinn ber mörg nöfn, eins og algengt er um dýr og annað í umhverfinu sem skiptir manninn miklu máli. Hér eru þau þekktustu: Djanki, Dratthali, Gráfóta, Holtaþór, Lágfóta, Melrakki, Refur, Skaufhali, Skolli, Tófa, Tæfa, Vargur, Vembla.

Minkur (Neovison vison)
Minkar eru ekki upprunaleg landspendýr á Íslandi. Þeir eru innfluttir og komu fyrst til landsins árið 1931 og sluppu fljótlega úr haldi eftir það. Síðan hafa þeir náð fótfestu í náttúrunni og breiðst út um all land. 

Kjörlendi minka er yfirleitt annað hvort við sjávarsíðuna eða við ár og vötn inn til landsins. Minkar synda og kafa vel og fiskar eru langmikilvægasta fæða þeirra. Við sjávarsíðuna éta þeir einkum marhnút, sprettfisk og keilubróðir. Við ferskvatn lifa þeir mest á silungstittum og hornsílum. Að auki veiða minkar einnig svartfugla, máffugla, andarunga og andaregg, hagamýs, skordýr og krabbadýr og fleiri dýr.

Nagdýr

Hagamús (Apodemus sylvaticus) Músaætt (Muridae)
Hagamýs bárust líklega til Íslands med landnámsmönnum. Þær lifa í gróðurlendi um allt land og búa í holum og göngum sem þær grafa í jarðveginn, en einnig nýta þær sér glufur og holrymi milli steina. 

Músargöng eru oft kvíslótt og enda í hreiðurholu eða forðabúri. Hagamýs klæða músarhreiðrið gjarnan að innan með sinu og visnuðu laufi. Þær leggjast ekki í vetrardvala og áður en vetur gengur í garð safna þær matarbirgðum sem þær geyma í forðabúrinu. Hagamýs lifa einkum á fræjum grasa og blóma og berjum. 

Sortulyngsber, einnig kölluð lúsamulningur, eru mikið étin af hagamúsum og þeim safna mýsnar fyrir veturinn í forðabúrin.
Hagamýs lifa oft í nábýli við menn og oftast halda þær til í útihúsum. Stundum komast þær inn í mannabústaði. Þær eru duglegar ad klifra, geta vel synt og stökkva býsna langt, allt að einum metra. Hagamýs lifa sjaldan lengur en einn vetur.

Hvalir

Hvalir skiptast í þrjá undirættbálka og eru skíðishvalir og tannhvalir núlifandi, en fornhvalir dóu alfarið út fyrir um 7 milljón árum síðan.

Skíðishvalir eru tannlausir en hafa í staðinn svokölluð skíði sem ganga niður úr efri gómi. Skíðin eru stinnar, þétt samliggjandi plötur úr hornkenndu húðefni. Þær klofna í trefjar og virka sem sía.

Skíðishvalir lifa mest á smáum krabbadýrum, svo sem ljósátu og rauðátu. Þeir lifa einnig töluvert á torfufiski, einkum á ýmsum sílistegundum og loðnu. Fæðuna sía skíðishvalir úr sjónum með því að synda með opið ginið þar til það er orðið fullt, en þá þrýsta þeir tungunni upp í góm og loka gininu. Við þetta þrýstist sjór út á milli skíðistrefjanna en bráðin situr eftir á skíðunum og er kyngt.

Skíðishvalir (undirættbálkur, Mysticeti)
Gráhvalaætt (Eschrichtiidae) – 1 tegund, sandlægja (Útdauð í Atlandshafi)
Reyðarhvalaætt (Balaenopteridae) – 5 tegundir við Ísland, hnúfubakur, steypireyður, langreyður, sandreyður og hrefna (hrafnreyður)
Sléttbakaætt (Balaenidae) – 2 tegundir við Ísland, norðhvalur (í útrýmingarhættu) og sléttbakur (í útrýmingarhættu).

Tannhvalir hafa tennur og eru þær mismargar og ólíkar að gerð eftir hvalategundum. Langflestir tannhvalir éta einkum fisk og smokkdýr, en nokkrar tegundir tannhvala eru kjötætur.

Tannhvalir (undirættbálkur, Odontoceti)
Búrhvalaætt (Physeteridae) – 1 tegund við Ísland, búrhvalur
Svínhvalaætt (Ziphiidae) – 4 tegundir við Ísland, andarnefja, gáshnallur, króksnjáldri og norðsnjáldri
Náhvalaætt (Monodontidae) – 2 tegundir við Ísland, mjaldur og náhvalur
Hnísuætt (Phocoenidae) – 1 tegund við Ísland, selhnísa
Höfrungaætt (Delphinidae) – 7 tegundir við Ísland, blettahnýðir, leifturhnýðir, léttir, stökkull, rákaskoppari, háhyrningur og grindhvalur

Fróðleikur um hvali

Alls eru þekktar 75-80 núlifandi tegundir af hvölum í heimshöfunum. Í hafinu við Ísland eru þekktar um 23 tegundir hvala og teljast 15 þeirra algengar. 

Flestar stóru hvalategundirnar dvelja við Ísland yfir sumarið við fæðuöflun en á veturna halda þeir sig á suðlægari hafsvæðum, allt undir miðbaug, þar sem þeir eignast afkvæmi sín. 

Hvalir eru spendýr sem aðlagast hafa lífi í sjó. Þeir þróuðust frá landspendýrum fyrir um 60 milljón árum síðan. Talið er að landforveri hvala hafi tilheyrt frumstæðum meiði hófdýra og að dýrið hafi líkst stórvöxnum úlfi og lifað ránlífi við vötn og sjávarstrendur. Af núlifandi hófdýrum eru flóðhestar taldir einna skildastir hvölum.

Elstu steingervingar af fornhvölum eru liðlega 50 milljón ára gamlir. Þeir hafa fundist í jarðlögum í Egyptalandi og Pakistan. Fornhvalir voru tenntir og sumir mjög stórir, allt að 22 m langir. Blómaskeið fornhvala stóð yfir í 15 milljón ár og því lauk fyrir um 25 milljón árum síðan, eða um svipað leyti og Ísland tók að myndast. 

Tannhvalir og skíðishvalir eru taldir afkomendur fornhvala og voru þegar komnir fram í sviðsljósið fyrir 40-45 milljón árum síðan. 

Flestir hvalir eru langlífar skepnur eins og jafnan á við önnur stór dýr og viðkoman er hæg. Hvalkýr ganga með eitt fóstur í 9-12 mánuði og fæða kálf sem er háður kúamjólk næstu 1-2 árin. Flestir skíðishvalir tímgast á liðlega tveggja ára fresti en tannhvalir eiga afkvæmi á 2-4 ára fresti. Kynþroska verða flestir hvalir 5-15 ára og fullum vexti er jafnan náð við 15-30 ára aldur. Vöxtur og kynþroskaaldur er mjög breytilegur milli hvalategunda, tegundastofna, hafsvæða og því hvernig árar í hafinu. 

Hvalir þurfa ekki á eins sterkum beinum að halda og landspendýr vegna þess hve eðlisléttir þeir eru í sjó. Hlutverk beina í hvölum er aðallega vöðvafesting, en ekki burður. Bein hvala eru því létt og frauðkennd og ólík beinum annarra spendýra. Hvalir hafa heldur ekki afturlimi eins og önnur spendýr og í nær alla hvali vantar mjaðmabein.

 

Selir

Hér er getið þeirra selategunda sem lifa hér við land, en einnig flökkutegunda sem hingað koma. Við Ísland hafa fundist 7 tegundir hreifadýra, þ.e. sela og rostunga:

Landselur (Phoca vitulina)
Útselur (Halichoerus grypus)
Hringanóri (Phoca hispida)
Vöðuselur (Phoca groenlandicus)
Kampselur (Erignathus barbatus)
Blöðruselur (Crystophora cristata)
Rostungur (Odobenus rosmarus)

Einungis landselur og útselur kæpa við Ísland í dag. Hinar tegundirnar fimm flækjast til landsins norðan úr höfum. Auk sela og rostunga tilheyra sæljón hreifadýrum.

Útselur (Halichoerus grypus)
Brimill, fullvaxinn um 2.5 m og 250 kg. Getur orðið stærri og náð allt að 40 ára aldri. Lifir mest á ýmsum fisktegundum og krabbadýrum.

Útselskópar þroskast í móðurlífi í nær 9 mánuði. Eftir kæpingu nærist kópurinn á móðurmjólk úr spena urtunnar. Um mánuði eftir kæpingu hættir kópurinn á spena og verður að bjarga sér sjálfur eftir það.

Helstu heimildir:

Villt Íslensk spendýr. Ritstj: Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson. Útg. Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd 1993.
Íslenskir hvalir fyrr og nú. Höf: Sigurður Ægisson, Jón Ásgeir í Aðaldal og Jón Baldur Hlíðberg. Útg. Forlagið 1997.

Hvalasafnið á HúsavíkMelrakkasetur ÍslandsVísindavefurinn

Consent Management Platform by Real Cookie Banner