Þríhnúkagígur

05. maí 2004

Kynning á hugmyndum Árna B. Stefánssonar um verndun og aðgengi Þríhnúkagígs í Náttúrufræðistofu Kópavogs, Hamraborg 6 A. Sýningin opnaði 2. maí og stendur til 2. september 2004.

Þrír litlir hnúkar standa á hálendisbrúninni um 15 km suðaustur af höfuðborgarsvæðinu. Lítt þekktir en sjást greinilega við sjóndeildarhringinn. Þetta eru Þríhnúkar. Norðaustasti hnúkurinn er gjall- og kleprakeila. Gaus hann litlu hrauni rétt eftir landnám. Gosrásirnar tæmdust að gosi loknu og ná þær nú niður á rúmlega 200 m dýpi.

Gíghvelfingin stendur vegna styrks jarðmyndana í þaki og hinum miklu klettaveggjum gígpottsins. Opið í toppi hnúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur, sem mælist 48 x 60 m á botni. Fyrst var sigið í gíginn 1974. Gosrásirnar voru fullkannaðar og mældar 1991.

Kynning á hugmyndum Árna B. Stefánssonar um verndun og aðgengi Þríhnúkagígs í Náttúrufræðistofu Kópavogs, Hamraborg 6 A. Sýningn stendur yfir frá 2. maí – 2. september 2004

Þríhnúkar

Þrír litlir hnúkar standa á hálendisbrúninni um 15 km suðaustur af höfuðborgarsvæðinu. Lítt þekktir en sjást greinilega við sjóndeildarhringinn. Þetta eru Þríhnúkar. Norðaustasti hnúkurinn er gjall- og kleprakeila. Gaus hann litlu hrauni rétt eftir landnám. Gosrásirnar tæmdust að gosi loknu og ná þær nú niður á rúmlega 200 m dýpi.

Gíghvelfingin stendur vegna styrks jarðmyndana í þaki og hinum miklu klettaveggjum gígpottsins. Opið í toppi hnúksins er um 4 x 4 m að stærð. Neðan þess er 120 m djúpur flöskulaga gígur, sem mælist 48 x 60 m á botni. Fyrst var sigið í gíginn 1974. Gosrásirnar voru fullkannaðar og mældar 1991.

Þríhnúkar tilheyra Bláfjallafólkvangi, en til hans var stofnað með friðlýsingu árið 1973. Bláfjallanefnd fer með stjórn fólkvangsins. Alls 13 sveitarfélög á suðvesturhorni landsins eiga aðild að rekstri fólkvangsins. Sjálfur Þríhnúkagígur er í lögsögu Kópavogs.

Verndun og aðgengi

Hraunhellar og jarðmyndanir þeim tengdum njóta sérstakrar verndar á Íslandi og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er (Lög um náttúruvernd nr. 44/1999, 37. gr.). Gott aðgengi og fræðsla almennings er mikilvægur þáttur í skynsamlegri umgengni og verndun hraunhella. Liður í þeirri fræðslu er að gera valda hraunhella aðgengilega og koma upplýsingum þar vel og skilmerkilega á framfæri.

Hraunhellar eru eins mismunandi og þeir eru margir. Fjölmargir hraunhellar þola umferð án skaða. Myndunarferli kalkhella og hraunhella ásamt innviðum þeirra, eru mjög ólík. Hraunhellar eru yfirleitt aðgengilegri en kalkhellar. Ekki þarf að síga, nema afar takmarkað, og oft eru á þeim fjöldi opa.

Í mörgum aðgengilegum hellum eru viðkvæmar jarðmyndanir, sem hætt er við að hverfi ýmist óvart eða af ásetningi. Viðkvæmar jarðmyndanir höfðu ýmist mjög látið á sjá, eða voru að mestu horfnar úr þekktum hraunhellum hérlendis upp úr 1980. Tveim ríkulega skreyttum smáhellum, Jörundi og Árnahelli, sem fundist hafa síðan, hefur verið lokað fyrir almennri umferð vegna verndunarsjónarmiða.

Vinna að verndun og aðgengi Þríhnúkagígs er nú hafin. Þessi sýning er liður í þeirri vinnu. Verkefnið er krefjandi, en nauðsynlegur liður í þeirri þróun sem á sér stað í íslensku samfélagi á sviði náttúruverndar, útivistar og ferðamennsku. Ætlunin með sýningunni er að kynna náttúrundrið Þríhnúkagíg, fá fram viðbrögð fólks við hugmyndum um nýtingu hans og bregðast við þeim.

Um höfundinn

Árni B. Stefánsson er starfandi augnlæknir í Reykjavík. Hann tók ljósmyndirnar sem hér sjást á sýningunni á árunum 1983–1997. Árni smíðaði einnig líkanið af Þríhnúkagíg eftir gögnum sem hann safnaði og vann ásamt félögum sínum 1991.

Árni er fæddur í Stokkhómi 1949 og ólst upp í Reykjavík þar sem hann hefur búið mestalla tíð. Hann er stúdent frá MR, lauk prófi í læknisfræði við Háskóla Íslands 1976 og lauk framhaldsnámi í augnlækningum í Freiburg í Þýskalandi 1982. Árni dvaldist sumarmánuðina 1954–1963 í Kalmanstungu í Borgarfirði. Þar kynntist hann stóru hellunum í Hallmundarhrauni, Surtshelli, Stefánshelli og Víðgelmi. Hann drakk í sig fund nýrra hella Kalmanshellis árið 1955 og Hallmundarhellis 1956 með móðurmjólkinni.

Miklar og vaxandi skemmdir hraunhellanna, hvarf jarðmyndana og eyðilegging var að verða fólki stöðugt ljósari á uppeldisárum Árna. Jarðmyndanir bókstaflega hurfu fyrir framan augu þeirra sem til þekktu, án þess þeir fengju rönd við reist. Árni hefur frá 1982 leitað kerfisbundið að hraunhellum, með hjálp loftljósmynda og í fjölmörgum vetvangsferðum. Hann hefur rannsakað hella, ljósmyndað og birt um þá greinar.

Aðaláhugamál Árna er leit að ósnortnum hellum og einnig hefur hann beitt sér af megni fyrir varðveislu hraunhella. Árni hefur verið virkur í Hellarannsóknafélagi Íslands frá stofnun þess 1989 og hafa verndunarmál verið meginviðfangsefni hans innan félagsins.

Bætt aðgengi í Þríhnúkagíg

Ýmsar tillögur hafa komið fram um aðgang að þessum mikla gíghelli. Fyrsta raunhæfa tilllagan kom fram í grein í Morgunblaðinu 4. janúar 2004. Þar er lagt til að aðgengi verði um 200 m löng göng á svalir í hellinum. Svalirnar standa út í rýmið í miðjum gígnum á 64 m dýpi og í 56 m hæð frá botni. Upprunalegar jarðmyndanir þekja veggina í þessari hæð. Yfir svölunum er lokuð gosrás, eða strompur upp á við. Svalirnar eru í vari fyrir hugsanlegu hruni að ofan, varðar undir slútandi bergi. Útsýn niður í gígpottinn er mikilfengleg. Tvö 20 hæða hús myndu komast fyrir neðan svalanna, ef þau mjókkuðu lítillega upp.

Undirbúningsvinna er hafin, en hvort þetta er framkvæmanlegt á eftir að koma í ljós. Verkefnið er að varðveita þessa merku náttúrusmíð sem best og gera hana um leið aðgengilega öllum, til að sjá og upplifa. Markmiðið er að fólk skynji þar betur eigin smæð og forgengileik ásamt því að öðlast dýpri tilfinningu fyrir stórfengleik náttúrunnar og sköpunarverkinu sjálfu.