Miðvikudaginn 15. febrúar s.l. flutti Haraldur R. Ingvason líffræðingur á Náttúrufræðistofu Kópavogs, erindið „Vöktun Þingvallavatns“ á Hrafnaþingi Náttúrufræðistofnunar Íslands að Urriðaholtsstræti 6-8, Garðabæ.
Reglubundin vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns hófst árið 2007 þegar Umhverfisstofnun, Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum gerðu með sér samkomulag þar að lútandi. Markmið vöktunarinnar er að kortleggja ástand og breytingar sem kunna að verða á lífríki, efna- og eðlisþáttum vegna hugsanlegra álagsþátta. Samkvæmt samkomulaginu hefur Náttúrufræðistofa Kópavogs sinnt vöktun á umhverfisþáttum, s.s. vatnshita, sýrustigi (pH) og rafleiðni, sem og lífverum í svifvist með áherslu á svifþörunga og svifkrabbadýr. Náttúrufræðistofan sinnir einnig rannsóknum á murtu í samvinnu við Veiðimálastofnun.
Í erindinu var fjallað um verkefnið og helstu niðurstöður þess kynntar. Sérstöku ljósi var beint að svifþörungum, þar sem niðurstöður benda til að aukning hafi orðið í magni þeirra frá því sem var á árabilinu 1970-1980. Þá var fjallað um árstíðasveiflur í vatnshita, hitalagskiptingu vatnsins og áhrif ytri þátta á hana.
Hér er hægt að hlusta á erindið á Youtube og hér má finna dagskrá Hrafnaþings.
Starfsmenn Náttúrufræðistofu Kópavogs, þeir Finnur Ingimarsson og Stefán Már Stefánsson, gera sig klára til að taka upp síritandi hitamæla sem legið höfðu á 10 – 100 metra dýpi í um fjóra mánuði.