Sverðnykra – ný háplöntutegund í flóru Íslands

Ný háplöntutegund, sverðnykra, bættist við flóru landsins síðastliðið sumar þegar starfsmenn Náttúrufræðistofu Kópavogs voru við rannsóknir í Berufjarðarvatni nærri Bjarkalundi í Reykhólahreppi. Staðfesting á tegundagreiningunni fékkst nú á dögunum.
20130308110712825767.jpg
Sverðnykran ber fræðiheitið Potamogeton compressus og tilheyrir hópi rúmlega 40 vatnaplantna sem lifa hér á landi, en alls eru þekktar um 490 háplöntutegundir í landinu. Sverðnykran vex á kafi í vatni og líkist helst grasi. Hún er hávaxin, verður allt að 2 m á hæð, og ber mjó, aflöng blöð sem eru um 0,5 cm breið og allt að 20 cm á lengd.
Sverðnykran í Berufjarðarvatni óx í þéttum breiðum á um 1,7 m dýpi, en mesta dýpi vatnsins mældist 2 m. Berufjarðarvatn liggur í 49 m h.y.s. og telst fremur lítið vatn, eða um 0,15 km2. Vatnið var mjög gróskumikið og í því uxu einnig síkjamari, grasnykra, fjallnykra, smánykra, þráðnykra, lónasóley, flagasóley, lófótur og gulstör.
Sverðnykran var ekki í blóma í ágústlok 2012 þegar gróðurkönnunin fór fram. Samkvæmt heimildum blómgast tegundin sjaldan og myndar því sjaldan fræ. Þetta gæti hugsanlega útskýrt takmarkaða útbreiðslu hennar hérlendis, en Berufjarðarvatn er eini fundarstaðurinn enn sem komið er.
Óvíst er hvenær og hvernig sverðnykran hefur borist til landsins. Líklega hafa fræ plöntunnar borist með fuglum, en slíkur flutingsmáti plöntufræja er vel þekktur. Þess má geta að fræ sverðnykru spíra frekar eftir að hafa farið í gegnum meltingarveg fugla en ella. Ekki er heldur útilokað að plantan hafi borist til landsins fyrir atbeina mannsins, viljandi eða óviljandi. Reyndar kemur fundur tegundarinnar ekki svo mjög á óvart í ljósi þess að háplöntur í ferskvatni hafa lítið verið kannaðar með skipulegum hætti á Íslandi hingað til.
Myndin hér að neðan er tekin neðanvatns af sverðnykrubreiðu. Blöðin eru á bilinu 10 – 20 cm að lengd.
20130308110713811864.jpg
Sverðnykran er evrópsk tegund og því markar þessi fundur hennar hér á landi ný vesturmörk á útbreiðslu tegundarinnar. Tegundin hefur átt undir högg að sækja víða í Evrópu vegna mengunar og röskunar á búsvæðum og því er hún á válista margra landa, þar á meðal í Bretlandi, Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi. Tegundin er einnig á válista Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) sem tekur til flóru allra Evrópulanda.
Rannsókn Náttúrufræðistofunnar á Berufjarðarvatni er hluti af umfangsmiklu verkefni sem gengur undir heitinu Natura Ísland og er á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á vistgerðum landsins í því skyni að stuðla að skynsamlegri umgengni og notkun á gæðum náttúrunnar. Í verkefninu eru verndargildi og verndarþörf vistgerða og tegunda metin og lagðar fram tillögur um verndarsvæði. Verkhluti Náttúrufræðistofu Kópavogs snýr að vistgerðum í ferskvatni og hófust rannsóknir á síðasta ári með athugunum á gróðri í 40 vötnum á sunnan- og vestanverðu landinu. Um er að ræða fyrstu skipulegu rannsóknina á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu.
Sjá nánar um verkefnið í eldri frétt á heimasíðunni. Einnig má lesa um verkefnið Natura Ísland í heild sinni á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
20130308110711707058.jpg

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

12
okt

23
okt

09
nóv

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner