Fiskar

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er dálítið safn uppstoppaðra fiska, auk þess sem skoða má lifandi fiska í sjó- og ferskvatnsbúrum. Þetta eru þrjú ferskvatnsbúr, hið stærsta um 1800 litra, og tvö sjóbúr. Í hverju búri er ákveðið þema í gangi. Í stærsta búrinu er líkt eftir aðstæðum í stöðuvatni með hraunbotni og má þar m.a. sjá bleikjuafbrigði úr Þingvallavatni (murtu og dvergbleikju). Hornsílin fá heilt búr fyrir sig og þar má m.a. fylgjast með óðalsatferli hænganna þar sem þeir verja ákveðin svæði af mikilli hörku.

Í sjóbúrinu má sjá krabba, marhnúta og sprettfiska (skerjasteinbít) hrognkelsaseiði og ýmislegt fleira sem finna má í fjörupollum eða á grunnsævi. Í fjórða búrinu er líkt eftir grunnri tjörn með leðjubotni og tilheyrandi gróðri. Þar er áherslan lögð á smádýr í ferskvatni s.s. vatnatítur, brunnklukkur, vatnabobba o.fl.

 

Fiskabúrin eru sá hluti safnsins sem vekur hvað mesta athygli gesta. Þau eru síbreytileg og er leitast við að hafa sem fjölbreytilegust dýr í þeim á hverjum tíma. Starfsmenn safnsins, ásamt aðstoðarfólki og velunnurum hafa séð um öflun dýranna. 

Hér fyrir neðan er að finna fróðleik um þá fiska sem til sýnis eru á Náttúrufræðistofunni, auk nokkurra annarra úr hinni fjölbreyttu fiskafánu sem lifir á hafsvæðinu umhverfis Íslands. Gefið er ofurlítið yfirlit yfir hvern þann hóp er safngripirnir tilheyra og svo er fjallað um gripinn sjálfan.

Botnfiskar

Hér er slegið saman fjölbreytilegum hópum fiska sem allir eiga það sameginlegt að halda sig mest á eða nálægt botni, eru botnlægir. Þeir geta þó haldið sig á nokkuð mismunandi dýpi, fara þó fæstir mikið niður fyrir 600 metra.
Þessir fiskar halda sig á eða nálægt botninum við fæðuleit og sumir hverjir leggja hrogn sín á botninn eins og steinbítur. Aðrir hrygna sviflægum hrognum sem annað hvort eru í efstu lögum sjávar eins og þorskfiskar eða eru um miðjann sjó eins og hrogn fiska af langhalaætt.

Þorskur (Gadus morhua) Þorskaætt (Gadidae)
Er helsti nytjafiskur íslendinga. Tilheyrir þorskaætt sem ásamt Langhala- Lýsinga- og Móruættum skipa ættbálk þorskfiska.

Þorskur er straumlínulanga og rennilegur fiskur, haus og kjaftstór með skeggþráð á höku. Litur er nokkuð breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast þó gulgrár á baki og hliðum og með dökkum smáblettum. Bakuggar eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og liggja aftan við kviðuggana. Rákin er mjög greinileg.

Þorskurin heldur sig mest nálægt botni en hann finnst á grunnsævi og niður á 600 metra dýpi. Fæða hans er mjög fjölbeytt, í þorskmaga hafa fundist flestir hópar dýra s.s. skeljar, krabbar, skrápdýr (ígulker og krossfiskar), leifar fugla (lundi og svartfuglar) en mikilvæasta fæðan er þó fiskar, einkum loðna og síld ásamt rækju.

Þorskurinn er útbreiddur um allt Norður-Atlantshaf. Hann skiptist í nokkra stofna eftir hafsvæðum og landsvæðum og eru stofnarnir oft mismunandi í vexti, kynþroskaaldri og útliti.

Helstu hrygningarstöðvar þorsks eru milli Dyrhólaeyjar og Reykjaness. Þorskurinn hrygnir á strandgrunni nálægt botni eða miðsævis í hlýsjó (5-7 °C) á tímabilinu mars-apríl.Eftir frjóvgun svífa eggin upp undir sjávarborð og reka með hafstraumi og vindi vestur fyrir land. Eftir 15-20 daga klekst lirfa úr hrogninu og hefur hún poka á kviðnum sem í er forðanæring. Forðanæringin dugar seiðunum skammt, ekki nema um 5 daga, en þá verða seiðin að afla sér ætis sjálf. Til að byrja með lifa seiðin mest á örsmáum þörungum og frumdýrum.

Við 3ja mánaða aldur fara svifseiðin að leita til botns. Fram að því hafa seiðin rekið norður með vesturströndinni og sum hver austur með Norðurlandi. Eftir að seiðin taka upp botnlíf halda þau sennilega að mestu kyrru fyrir og alast upp á staðnum. Samhliða botnlífi og vaxandi stærð skipta seiðin úr þörungaáti yfir í át á krabbadýrum og smáfiski. Þegar þorskurinn er orðinn um 50 cm langur lifir hann að miklu leyti á loðnu.

Þorskur við Ísland verður kynþroska 4–9 ára gamall (50–100 cm langur). Við kynþroska leitar hann frá uppeldisstöðum til hrygningarstöðva. Eftir að kynþroska er náð hrygnir þorskurinn árlega. Elstu þorskar verða um 25 ára gamlir. Frjósemi þorsks er mikil. Eggjafjöldi í 100 cm langri hrygnu er um 4,3 milljónir. Á móti kemur að skakkaföll eru mikil framan af ævi. Talið er að dauðsföll á hrogna- og svifseiðastigi sé 90-95%.

Sprettfiskur (Pholis gunnellus) Sprettfiskaætt (Pholidiae)
Fiskur sem er náskyldur Steinbít. Er allajafn til lifandi á safninu og er staðsettur í sjávarbúrinu. Lifir á grunnsævi einkum innan um þara og þang og finnst oft alveg uppi í fjöruborði. Lifir þar á marflóm og ýmsum öðrum smádýrum en einnig leggur hann hræ annara dýra sér til munns. Sprettfiskurinn eða Skerjasteinbítur ein og hann heitir líka er svo aftur mikilvæg fæða einkum fugla eins og máva og svartfugla einkum Teistu.

Marhnútur (Myoxocephalus scorpius) Marhnútaætt (Cottidae)
Marhnúturinn tilheyrir marhnútaætt (Cottidae) sem aftur tilheyrir ættbálki er kallast Brynvangar (Scleroparei eða Scorpaeniformes). Til Brynvanga teljast auk Marhnúta t.d. Karfar og Hrognkelsi. Fiskar í Marhnútaætt eru frekar smáir og afturmjóir fiskar með stórann haus og kjaft og ferkar stóreygðir. Í ættinni finnast 16 tegundir í 9 ætthvíslum en hér við land finnast 6 tegundir í 6 ætthvíslum. Þessar tegundir eru t.d. Krækill, Fuðriskill, Þrömmungur og Litli marhnútur.

Hornsíli

Litlir fiskar, oftast 4–8 cm langir. Fremri bakuggi og kviðuggar ummyndaðir í gadda. Oft með brynplötur á hliðum. Lifa bæði í sjó og fersku vatni.

Hornsíli (Gasterosteus aculeatus) Hornsílaætt (Gasterosteidae)
Hornsíli lifa í tjörnum og vötnum um allt land, en einnig í strandsjó. Þegar líður að hrygningu verður hængurinn rauðleitur á kverk og kvið. Hann byggir n.k. hreiður sem hrygnurnar hrygna í. Síðan gætir hann bús og barna, þar til seiðin yfirgefa hreiðrið. Útlit hornsíla getur verið mjög mismunandi. Fer það eftir aldri þeirra og aðlögunum að búsvæðum. Fæða hornsíla eru ýmiskonar smádýr, s.s. krabbadýr, skordýralirfur o.fl. Sjálf eru þau mikið étin af fuglum og fiskum

hornsíli_hrygna.JPG

Kjaftgelgjur

Það er sérstaklega tvennt sem einkennir þessa fiska. Þeir eru hausstórir og upp úr hausnum gengur þráður eða armur, oft með ljósfæri á endanum. Er hér á ferðinni bakuggi sem breyst hefur í nokkurskonar tálbeitu eða veiðistöng. Flestir þessara fiska halda sig á töluverðu dýpi eða í kring um 1000 metra. Sextán tegundir, sem tilheyra sjö ættum Kjaftagelgja (Lophiiformes) hafa fundist við Ísland en í heiminum eru um 200 tegundir í 15 ættum þekktar og norð-austur atlandshafi finnast 44 tegundir í 13 ættum. Flestir þeirra lifa á miklu dýpi og eru sumir botnfiskar en aðrir miðsjávar fiskar. Kjaftagelgjur þekkjast frá öðrum fiskum á stönginni sem stendur upp úr hausnum. Stöngin er einstakt líffæri, bakuggi sem hefur breyst í veiðarfæri með ljósbúnaði. Í stönginni og endum þráðanna sem kvíslast úr stönginni búa bakteríur sem gefa frá ljós. Fiskarnir geta sveigt veiðistöngina fram og aftur og nota hana til að lokka til sín bráð, sem einkum eru fiskar og krabbadýr. Svona veiðibúnaður kemur sér vel þar sem kjaftagelgjurnar lifa helst á, á 1.000–3.000 m dýpi í kolsvartamyrkri. 

Á myndinni hér að neðan má sjá stöng og ljósfæri lúsífers, en ljósfærin eru hvít á myndinni.

mynd122.jpg

Hjá lúsífer og flestum öðrum kjaftagelgjum fylgja ýmis vandamál við að lifa í myrkviðum hafdjúpum. Eitt vandamálið er að finna maka en það er ekki hægðarleikur í niðamyrkri. Þetta vandamál hafa margar kjaftagelgjur leyst með góðu móti. 

Lausn kjaftagelgja við makaleit felst í því að hængar verða mjög sérhæfðir og færir um að finna hrygnur. Sérhæfnin byggist á óvenju vel þroskuðum þefkirtlum og mjög þroskuðum kynkirtlum. En þessi sérhæfni kostar sitt því að í staðinn vaxa hængarnir nær ekkert og þeir eru óttaleg kríli. En er hængur hefur fundið hrygnu fer fram „gifting“ er varir ævilangt og ekki er um skilnað að ræða því hængurinn bítur sig fastann við kvið hrygnunnar. Og á skömmum tíma festist hann varanlega við hana, blóðrásarkerfi þeirra verður sameginlegt og næringu fær hængurinn einungis frá hrygnunni.

Hjá lúsífer eru fullvaxnir hængar ekki nema 4–5 cm langir, en fullvaxnar hrygnur eru jafnan 40–50 cm langar og stundum allt að 70 cm. Sædjöfull (Ceratias holboelli) Sædjöflaætt (Ceratiidae).

Sædjöfull er fremur sjaldgæfur við Ísland. Hann lifir á 120 – 1000+ metra dýpi og hefur fundist í í flestum heimsins höfum. Sædjöfull tilheyrir kjaftagelgjum (Lophiiformes) líkt og lúsífer og fleiri djúpsjávarfiskar. Helstu einkenni kjaftagelgja eru veiðistöngin og mikill stærðarmunur á hængum og hrygnum.

Hjá sædjöflum gengur sérhæfni hænga til að makast við hrygnur mjög langt. Hængarnir eru agnarsmá kríli og hafa sjaldan fundist. Þeir eru ekki nema 4-6 cm á lengd, hafa hvorki veiðistöng né tennur og lifa áfastir við gotraufina á hrygnunum. Húð fiskanna er samvaxin, blóðrásin sameiginleg og hrygnan sér alfarið um að afla fæðu. Hlutverk hænganna er því meira eða minna bundið við að frjóvga hrognin. Fullvaxnar sædjöflahrygnur verða 1–1,3 m á lengd.

Lúsífer (Himantolophus groenlandicus) Lúsíferaætt (Himantolophidae)
Þrátt fyrir að finnast í öllum heimsins höfum er Lúsífer fremur sjaldgæfur við Ísland. 
Lúsífer tilheyrir kjaftagelgjum (Peduculati) og hýsir sá ættbálkur afar sérstaka og furðulega djúpsjávarfiska. Þar á meðal eru frenjur (Caulophrynidae), hyrnur (Oneirodidae), sædjöflar (Ceratiidae) og skötuselir (Lophiidae).

Síldfiskar

Síldfiskar (Isospondyli) kallast ættbálkur fiska  sem eru útbreyddir um öll heimsins höf og meðal þeirra eru ýmsir mikilvægir nytjafiskar manna. Þetta eru frumstæðir fiskar, eyruggar oft neðarlega, kviðuggar aftarlega og einn bakuggi auk veiðiugga sem er geislalaus og finnst á sumum tegundanna. Til þessa hóps teljast til dæmis loðna, síld og lax. 

Lax (Salmo salar) Laxaætt (Salmonidae)
Lax klekst í ferskvatni og heldur sig í ám þar til hann verður 2-5 ára. Þá gengur hann til sjávar og dvelur þar 1-3 ár. Í sjónum vex laxinn hratt og verður kynþroska. 
Hrygning fer fram í september–desember. Laxar hrygna í sömu á og þeir fæddust í. Ratvísi laxa er viðbrugðið og þeir hafa afar næmt þefskyn í nösunum, sem þeir styðjast við til að rata í heimaána sína.

Vegna eðli laxa að hrygna í heimaá sinni hafa sérstakir laxastofnar þróast í mörgum ám. Laxastofn í tiltekinni á er sérlega aðlagaður umhverfinu í þeirri á. Ár á Íslandi eru ólíkar að efnasamsetningu, hitastigi, vatnsrennsli og fæðuframleiðslu. Þessir þættir hafa ýmis áhrif á laxinn, til dæmis hve gamall hann er þegar hann gengur til sjávar og hvenær hann verður kynþroska.

Í sumum ám á Íslandi stafar villtum laxi hætta af eldislöxum sem sloppið hafa úr eldisstöðvum. Í sumum tilfellum er erfðaefni eldislaxa öðruvísi en villtra laxa og ef laxarnir blandast getur það rýrt erfðafjölbreytni villtra laxastofna. Eldislaxar sem sloppið hafa úr haldi geta einnig lent í samkeppni við villta laxa um fæðu og hrygningarsvæði í ánum.

Sjaldséðir flækingsfiskar

Blákarpi (Polyprion americanus)
Þessi fiskur er mikill flækingur. Hann hrygnir í Miðjarðarhafi en flækist um mest allt Atlanshaf og finnst frá yfirborði niður á 1000 m dýpi. Þessi fiskur líkist helst karfa, ef ekki væri liturinn sem er grá-brúnleitur með hvítann jaðar á sporðblöðku.

Göltur (Neocyttus helgae)
Sérkennilega vaxinn fiskur sem finnst á um 800 – 1200 metra dýpi. Afar hávaxinn og þunnur með gróft hreistur og með áberandi gadda fremst í bak- og kviðuggum. Hefur fundist á grálúðuslóð hér við land. 

Hveljusogfiskur (Careproctus reinhardti)
Þessi fiskur er líka kallaður „barbapabbi“ vegan litarins og útlitsins. Hveljusogfiskur er bleikur að lit, umlukinn glærri, hlaupkenndri hvelju og afar viðkvæmur. Á þessari síðu eru ýmsar upplýsingar um þennan sérkennilega fisk.

mynd21.jpg

 

Rauðserkur (Beryx decadactylus) Serkjaætt (Berycidae) 
Rauðserkur er mjög sjaldgæfur flækingur við Ísland. Aðalheimkynni hans eru í vestanverðu Miðjarðarhafi og Norðaustur-Atlantshafi. Rauðserkir eru af ættbálki serkja (Berycomorphi) og skyldir búrfiskum (Trachichthyidae), ennisfiskum (Caristiidae), silfrum (Diretmidae) og fleiri fiskiættum.
Þekking á líffræði rauðserkja er almennt lítil. Hér við land hafa þeir veiðst nokkrum sinnum á 200–600 m dýpi á miðunum út af Suðausturlandi og vestur um land, allt að Halamiðum norðvestur af Vestfjörðum.

Svarthveðnir (Centrolopus niger)
Svartur að lit með áberandi stóran sporð og lítinn kjaft. Þessi fiskur hefur fundist í flestum heimshöfum. Lítið er vitað um lífssögu þessa fisks nema það að hann lifir á smágerðri og mjúkri fæðu (smáfiskum, svifi og marglittum). Á þessum vef má finna töluverðar upplýsingar um þennan fisk.

Sæsteinsuga (Petromyzon marinus) Haustið 2003 veiddu skipsverjar á Páli Jónssyni GK-7 undarlega skepnu á Vestfjarðamiðum. Um var að ræða sæsteinsugu, sem fest hafði sig á belg. Meira um þessa skrítnu skepnu.

Helstu heimildir:

Íslenskir fiskar, lýsing og greining allra íslenskra tegunda. Höf: Gunnar Jónsson. Útg. Fjölvi 1992.
Fiskar í ám og vötnum. Höf: Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson. Útg. Landvernd 1996.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner