Sæsteinsuga

16. október 2003

st.suga_1.jpgÁ dögunum veiddu skipsverjar á Páli Jónssyni GK-7 undarlega skepnu á Vestfjarðamiðum. Um var að ræða sæsteinsugu, sem fest hafði sig á belg.

Voru nú viðhöfð snör handtök og skepnunni komið með flugi hingað á Náttúrufræðistofuna, þar sem hennar beið fiskabúr með öllum þægindum. Því miður þoldi hún illa ferðalagið og var mjög af henni dregið við komuna og drapst hún áður en hún komst í búrið. Fyrst svo fór, var hún sett i frost og stendur til að stoppa hana upp við fyrsta tækifæri. En hvað er sæsteinsuga eiginlega???

st.suga2.jpgSæsteinsugur teljast til flokks hringmunna (Cyclostomata), en þeir eru frumstæðasti hópur hryggdýra. Þessi dýr minna á langvaxna fiska og hafa stundum verið taldir til þeirra. Hringmunnar greina sig hins vegar frá fiskum í veigamiklum atriðum. Þeir eru kjálkalausir, "hryggurinn" er aðeins brjóskstrengur án hryggjarliða, rifbein og samstæða ugga vantar, hafa eina nös ofan á hausnum, augun eru smá og aftan þeirra eru sjö tálknaop í röð, og svo mætti áfram telja.

st.suga3.jpgÁ sæsteinsugu vekur kjafturinn strax athygli, en þetta er sogmunnur, alsettur hornkenndum tönnum. Sæsteinsugan lifir á að sjúga blóð úr fiskum og hvölum og notar hún þessar tennur til að raspa upp húð og hold, en efni í munni hennar kemur í veg fyrir storknun blóðs.

st.suga5.jpg

Sæsteinsugan er flækingur hér við land. Hún hrygnir í fersku vatni á malarbotni þar sem hiti er milli 10-20°C. að lokinni hrygningu drepast fullorðnu dýrin, en afkvæmin klekjast og lifa í vatninu í 3-5 ár. Þá eru þær orðnar 15-20 cm langar og ganga til sjávar. Eftir 1-2 ár eru þær orðnar 60-80 cm langar og leita þá aftur upp i ferskvatn. Sú sem okkur barst var kynþroska og 77 cm að lengd.

st.suga4.jpg

Meginheimild: Íslenskir fiskar, Höf. Gunnar jónsson. Fjölvaútgáfan Rvk. 1983