Fiskar

hornsili.jpgÁ Náttúrufræðistofu Kópavogs er dálítið safn uppstoppaðra fiska, auk þess sem skoða má lifandi fiska í sjó- og ferskvatnsbúrum. Þetta eru þrjú ferskvatnsbúr, hið stærsta um 1800 litra, og tvö sjóbúr. Í hverju búri er ákveðið þema í gangi. Í stærsta búrinu er líkt eftir aðstæðum í stöðuvatni með hraunbotni og má þar m.a. sjá bleikjuafbrigði úr Þingvallavatni (murtu og dvergbleikju). Hornsílin fá heilt búr fyrir sig og þar má m.a. fylgjast með óðalsatferli hænganna þar sem þeir verja ákveðin svæði af mikilli hörku.

Í sjóbúrinu má sjá krabba, marhnúta og sprettfiska (skerjasteinbít) hrognkelsaseiði og ýmislegt fleira sem finna má í fjörupollum eða á grunnsævi. Í fjórða búrinu er líkt eftir grunnri tjörn með leðjubotni og tilheyrandi gróðri. Þar er áherslan lögð á smádýr í ferskvatni s.s. vatnatítur, brunnklukkur, vatnabobba o.fl.

hornsíli_hrygna.JPG

Fiskabúrin eru sá hluti safnsins sem vekur hvað mesta athygli gesta. Þau eru síbreytileg og er leitast við að hafa sem fjölbreytilegust dýr í þeim á hverjum tíma. Starfsmenn safnsins, ásamt aðstoðarfólki og velunnurum hafa séð um öflun dýranna. 

Hér fyrir neðan er að finna fróðleik um þá fiska sem til sýnis eru á Náttúrufræðistofunni, auk nokkurra annarra úr hinni fjölbreyttu fiskafánu sem lifir á hafsvæðinu umhverfis Íslands. Gefið er ofurlítið yfirlit yfir hvern þann hóp er safngripirnir tilheyra og svo er fjallað um gripinn sjálfan.

Botnfiskar
Hér er slegið saman fjölbreytilegum hópum fiska sem allir eiga það sameginlegt að halda sig mest á eða nálægt botni, eru botnlægir. Þeir geta þó haldið sig á nokkuð mismunandi dýpi, fara þó fæstir mikið niður fyrir 600 metra.

Hornsíli
Litlir fiskar, oftast 4 - 8 cm langir. Fremri bakuggi og kviðuggar ummyndaðir í gadda. Oft með brynplötur á hliðum. Lifa bæði í sjó og fersku vatni.

Kjaftagelgjur
Það er sérstaklega tvennt sem einkennir þessa fiska. Þeir eru hausstórir og upp úr hausnum gengur þráður eða armur, oft með ljósfæri á endanum. Er hér á ferðinni bakuggi sem breyst hefur í nokkurskonar tálbeitu eða veiðistöng. Flestir þessara fiska halda sig á töluverðu dýpi eða í kring um 1000 metra

Síldfiskar
Síldfiskar (Isospondyli) kallast einn ættbálkur fiska, þetta eru frumstæðir fiskar, eyruggar oft neðarlega, kviðuggar aftarlega og einn bakuggi auk veiðiugga hjá sumum tegundum. Til þessa hóps teljast til dæmis loðna, síld og lax ásamt um 50 öðrum tegundum í 15 ættum.

Sjaldséðir flækingsfiskar
Hér verður gerð grein fyrir fáséðum fiskum sem þó hefur rekið á fjörur okkar.

Helstu heimildir:
Íslenskir fiskar, lýsing og greining allra íslenskra tegunda. Höf: Gunnar Jónsson. Útg. Fjölvi 1992.
Fiskar í ám og vötnum. Höf: Guðni Guðbergsson og Þórólfur Antonsson. Útg. Landvernd 1996.