Ævintýrastuð á Haustkarnivali

Fíflakast, þykjustuleikir, fjöltyngdar smiðjur og fjör slá upptaktinn að menningarvetrinum í Kópavogi.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði á haustkarnivali í Kópavogi þar sem listafólk úr ólíkum áttum býður upp á nærandi viðburði fyrir alla fjölskylduna en karnivalið fer fram laugardaginn 2. september frá 12 – 16.

Á dagskrá er meðal annars splunkuný sýning, Ævintýrastuð, með leikurunum Þresti Leó og Góa þar sem ímyndunaraflið er nýtt til hins ýtrasta hjá bæði leikurum og áhorfendum. Þar munu þeir félagar opna stóru ævintýrabókina og hver veit nema allt verði vitlaust…eða rétt. Það kemur í ljós!

Fíflast með fíflum og Þykjó-blóm

Myndlistarhópur Hlutverkaseturs er listhópur listahátíðarinnar Listar án landamæra en hópurinn mun opna sýninguna Fíflast með fíflum í menningarhúsunum 16. september. Á haustkarnivali býður hópurinn upp á skemmtilega viðburði og þátttökuverkefni sem hverfast um fífilinn og sköpunargleðina; fíflakast, fíflakrítar og fjöruga trönumálun.

Á jarðhæð Gerðarsafns verður hægt að skapa sitt eigið haustblóm með hönnunarteyminu ÞYKJÓ en þar stendur nú yfir sýning á fjölbreyttum sköpunarverkum ÞYKJÓ – allt frá búningum til upplifunarhönnunar og húsgagna.

Örn Alexander Ámundason, myndlistarmaður, býður upp á fjölskylduleiðsögn um sýningu Rósu Gísladóttur, FORA, sem stendur yfir á efri hæð Gerðarsafns en sýningin hefur hlotið frábærar viðtökur.

Arabísk sveifla og gómsætt kruðerí

Á Náttúrufræðistofu Kópavogs verður boðið upp á fjöltyngda, arabíska smiðju með myndlistarkonunum Ingunni Fjólu Ingþórsdóttur og Yöru Zein en þar geta þátttakendur mótað sitt eigið listaverk úr arabískum leturtáknum. Boðið verður upp á henna-tattú, te og arabískt kruðerí og tónlistarfólkið Tabit Lakh og Sigrún Kristbjörg Jónsdóttir leiða seiðandi arabíska sveiflu.

Öll hjartanlega velkomin á Haustkarnivalið í Kópavogi. Við hlökkum til að sjá ykkur.

Haustkarnival í Kópavogi

Náttúrufræðistofa Kópavogs frá 12 – 14
Together. Fjöltyngd, arabísk listsmiðja með Ingunni Fjólu og Yöru Zein

Boðið verður upp á henna-tattú, te og arabískt kruðerí.

Bókasafn Kópavogs / Á útisvæði frá 13 – 15

Hlutverkasetur býður upp á fíflakast, fíflakrítar og trönumálun.

Salurinn kl. 14
Ævintýrastuð með Þresti Leó og Góa

Leikararnir Þröstur Leó og Gói opna stóru ævintýrabókina og hver veit nema allt verði vitlaust…eða rétt. Það kemur í ljós. 

Sýningin tekur rúman hálftíma í flutningi og lofum við miklu stuði og fjöri. Tónlist, leikur og dans.

Gerðarsafn frá 14:30 – 16:30
ÞYKJÓ-blóm

Komdu í Gerðarsafn og prófaðu að rækta þín eigin haustblóm úr ullardúskum með vinum okkar í hönnunarteyminu ÞYKJÓ.

Gerðarsafn kl. 15
Krakkaleiðsögn um sýninguna FORA

FORA er einkasýning Rósu Gísladóttur og hefur fengið frábærar viðtökur. Hér verður boðið upp á skemmtilega leiðsögn sem er sérstaklega ætluð krökkum og fjölskyldum þeirra.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

22
jan

19
feb

19
mar

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner