Springum út á Barnamenningarhátíð í Kópavogi

Barnamenningarhátíð í Kópvogi er haldin vikuna 18. – 22. apríl í Kópavogi með fjölbreyttum sýningum, smiðjum og uppákomum og mun dagskráin ná hápunkti með hátíðardagskrá sem fram fer laugardaginn 22. apríl í menningarhúsunum og í Smáralind.

Barnamenningarhátíð í Kópvogi er haldin vikuna 18. – 22. apríl í Kópavogi með fjölbreyttum sýningum, smiðjum og uppákomum og mun dagskráin ná hápunkti með hátíðardagskrá sem fram fer laugardaginn 22. apríl í menningarhúsunum og í Smáralind.

Hátíðin mun opna við hátíðlega athöfn á Bókasafni Kópavogs kl. 10:00 þriðjudaginn 18. apríl þar sem 120 leikskólabörn munu mæta og opna sýningu sína Þar sem sögur gerast og ævintýr. Margrét Eir söngkona og Davíð Sigurgeirsson gítarleikari munu taka á móti börnunum og öðrum gestum opnunarinnar með ljúfum tónum.

Textaverk, bróderí og ljóðasýningar eftir hundruð unga Kópavogsbúa

Á neðri hæð Gerðarsafns verður á að líta sýning á textaverkum eftir unglinga úr Kársnesskóla, unnin undir leiðsögn myndlistarkvennanna Melanie Ubaldo og Dýrfinnu Benitu Basalan en verk krakkanna eru innblásin af sýningunni Að rekja brot sem þar stendur nú yfir.

Á Bókasafni Kópavogs má sjá litríkar sýningar á skapandi starfi leikskóla í Kópavogi, skemmtilegum útsaumsverkum eftir unglinga úr Snælandsskóla og alls konar ljóð sem samin voru af börnum víðs vegar um Kópavog fyrir Ljóðasamkeppni grunnskóla Kópavogs.

Splunkunýtt barnamenningarverkefni ÞYKJÓ um sjónskynjun

Á Lindasafni má svo sjá á annað hundrað vatnslitaverk sem hverfast um augu. Augu og sjónskynjun eru líka í forgrunni Náttúrufræðistofu en þar verður glænýtt barnamenningarverkefni eftir hönnunarteymið ÞYKJÓ kynnt til sögunnar. Verkefnið er í formi fallegs heftis með fróðleik og skapandi leikjum sem tengist sjónskynjun.  Börn úr grunnskólum Kópavogs heimsækja Náttúrufræðistofu í Barnamenningarviku, fá leiðsögn um sýninguna út frá sjónskynjun og skilja eftir sig listaverk í formi augna sem hægt verður að njóta í uppskeruveislu.

Náttúran sem sögupersóna í Smáralind

Í Smáralind verður sýning á verkum sem innblásin eru af norrænum barnabókahöfundum og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og verður boðið upp á skemmtilegar klippimyndasmiðjur í anda H. C. Andersen í tilefni sýningarinnar sem er unnin undir merkjum Vatnsdropans sem er stórt alþjóðlegt samstarverkefni Kópavogsbæjar.

Trúðavinkonur og ný sýning frá Sirkus Ananas

Laugardaginn 22.apríl verður glæsileg og fjörug dagskrá í menningarhúsunum. Tónlistin mun duna í flutningi Skólahljómsveitar Kópavogs, barna- og skólakóra úr Smáraskóla og Kársnesskóla og marimbasveitar Smáraskóla og dansdúettinn Friðrik Agni og Anna Claessen leiða diskódans fyrir alla fjölskyklduna. Trúðavinkonurnar Silly Suzie og Momo verða á vappi um svæðið og bjóða klukkan 13 upp á fallega sýningu í Gerðarsafni sem snýst um samskipti og tungumál.

Vinátta og tengsl eru líka yrkisefnið í nýrri sýningu Sirkus Ananas sem heitir Springum út og verður sýnd í Salnum á laugardegi klukkan 14. Þar verður boðið upp á hrífandi loftfimleika, trúðalæti og töfra en Sirkus Ananas skipa þau Daníel, Urður Ýrr og Kristinn Karlsson.

Friðartjald, friðardúfur, klippismiðja og krakkaleiðsögn

Á laugardegi verður auk þess boðið upp á fallegar sköpunarsmiðjur í menningarhúsunum. Þar verður hægt að búa til friðardúfu og skapa friðartjald, gera klippimyndir í anda verka á sýningunni Að rekja brot og Örn Alexander Ámundason myndlistarmaður verður með krakkaleiðsögn um sýninguna klukkan 15.

Það verður svo sannarlega eitthvað fyrir alla á Barnamenningarhátíð í Kópavogi 2023 og er ítarleg dagskrá hátíðarinnar aðgengileg á meko.is.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

22
jan

19
feb

19
mar

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner