Kúluskítur er nafn á einu af sérstæðustu fyrirbærum sem finnast í náttúru landsins. Um er að ræða fágætt, stórvaxið, kúlulaga vaxtarafbrigði af grænþörungategundinni Aegagropila linnaei, sem aðeins er þekkt í örfáum stöðuvötnum á jörðinni. Þekktust þeirra eru Mývatn og í Akanvatn á Hokkaido eyju í Japan.
Til eru önnur vaxtarform tegundarinnar en kúluform og eru þau mun algengari og finnast allvíða í vötnum. Oftast vex tegundin sem skófir á steinum eða sem sundurlaust teppi smávaxinna hnoðra á leðjubotni.
Kúluskíturinn í Mývatni liggur á leðjubotniog myndar allstórar breiður eða fláka, stundum í tveimur eða þremur lögum þar sem kúlur liggja ofan á hver annarri. Athygli vekur að allar kúlurnar eru álíka að stærð, eða um 10-15 cm í þvermál. Hvorki er vitað hvernig kúlurnar verða til né hve gamlar þær eru.
Ekki er síður athyglisvert að kúlurnar eru grænar heilt í gegn. Græni liturinn stafar af grænukornum sem nauðsynleg eru í starfsemi allra plantna við ljóstillífun, sem á sér stað á yfirborði flestra plantna þar sem birtu nýtur við, en ekki inni í þeim. Yfirleitt sölna grænir plöntuhlutar sem ekki njóta birtu, en það á greinilega ekki við um kúluskítinn.
Margt fleira er á huldu um líffræði kúluskíts. Kúlulögunin gerir það að verkum að yfirborð til ljóstillífunar er í lágmarki miðað við massa, en að jafnaði reyna plöntur að hafa þetta yfirborð sem stærst. Kúlulögunin hefur hins vegar í för með sér að ölduhreifing getur velt þeim þannig að birta kemst að allri plöntunni. Þá er mögulegt að ölduhreifing nái að losa aftur um kúlur sem grafist hafa í botnset sem ella væru dauðadæmdar.
Hér er stutt myndskeið sem sýnir kúluskít á botni Mývatns. Takið eftir að þar sjást hvítar kúlur – nokkuð sem þarna sást í fyrsta skipti. Einnig sjást kúlur sem grafnar eru í set.
Uppbygging kúlanna er einstök. Í þeim er enginn kjarni s.s. steinn eða því um líkt, heldur eru þær byggðar upp af þráðum sem vaxa út frá miðju. Þræðirnir greinast í sífellu og leggja þannig grunn að kúlulöguninni. Smáar kúlur oft óreglulegar í lögun, eru þekktar úr fleiri vötnum en Mývatni.Þar virðist hinsvegar ekki vera um raunverulegan kúluvöxt að ræða, heldur virðist sem að ölduhreyfingar hafi vöðlað þörungnum saman í þessi form.
Nafnið kúluskítur vekur eftirtekt. Í gegn um tíðina hefur gróður sem festist í netum veiðibænda við Mývatn verið kallaður einu nafni skítur. Kúlurnar hafa hins vegar þótt það eftirtektarverðar að þær verðskulduðu nafn og þá hefur legið beint við að kalla þær kúluskít. Þetta sýnir að kúlurnar hafa vakið sérstaka athygli þeirra sem nýttu vatnið til veiða, sem og flestra annarra sem berja kúlurnar augum.
Á síðustu árum hefur hallað mjög undan fæti hjá kúluskít í Mývatni og er óttast að hann sé nú horfinn að mestu eða jafnvel öllu leyti. Þó vekja smávaxnar kúlur, sem fundist hafa reknar á land, vonir um að hann þrauki enn. Vonandi snýr þetta merka vaxtarform aftur þegar aðstæður í Mývatni verða kúluskítnum hagfelldar á ný.
Heimildir:
Árni Einarsson og Marianne Jensdóttir.
2002. Kúluskítur. Náttúrufræðingurinn 71: 34-39.
Helgi Hallgrímsson
2002. Vatnaskúfur, vatnadúnn og vatnabolti Cladophora aegagrophyla.
Náttúrufræðingurinn 70: 179-184.
Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn
http://en.wikipedia.org/wiki/Marimo