ÞYKJÓ
ÞYKJÓ

Sjónarspil með ÞYKJÓ

Hvernig sjá dýr öðruvísi en mannfólk? Hvaða liti greina þau? Hvernig hafa augu dýrategunda þróast í gegnum aldirnar? Er nóg að hafa einn augastein í auganu, eða þurfa sum dýr að hafa tvo augasteina í einu og sama auganu? Standa augun kannski á stilkum?

„Þetta er eitt af því sem börn eru svo mikið að velta fyrir sér, þau spyrja í sífellu og það er svo gjöfult að stíga inn í forvitnina með þeim,“ segir Sigríður Sunna Reynisdóttir, hönnuður hjá þverfaglega hönnunarteyminu ÞYKJÓ og bætir við: „Og þetta er það sem við erum að vinna með í Sjónarspili.“

Sjónarspil er samstarfsverkefni ÞYKJÓ, líffræðinga Náttúrufræðistofu Kópavogs og Vísindasmiðju Háskóla Íslands með þátttöku 5-6 ára barna af leikskólanum Marbakka. Um er að ræða rannsóknarverkefni, listsmiðjur og upplifunarhönnun í forsal Náttúrufræðistofu Kópavogs sem hverfist um sjónskynjun dýra og manna. „Vísindasmiðjan sér um eðlisfræðihlutann og efnafræðina, hvað er sjón, hvernig skynjum við ljósbylgjur sem liti, hvernig virkar augað og svo framvegis, Náttúrufræðistofa leggur til rýmið og gripina og ÞYKJÓ sér um hönnunina,“ segir Sigríður Sunna.

„Þarna er náttúrulega verið að ráðast inn á svið sem er líka nýtt fyrir okkur, ekki það rannsóknasvið sem við stundum dags daglega þannig að við erum eiginlega að læra jafn mikið og ÞYKJÓ,“ segir Finnur Ingimarsson, forstöðumaður Náttúrufræðistofu. „Það er svo margt sem líffræðingar vilja fræða almenning um og því grípum við öll tækifæri fegins hendi til að draga athygli að því hvað náttúran er stórbrotin. Einn af stóru kostum þessa samstarfs menningarhúsanna hér í Kópavogi eru þessi tækifæri, þessi möguleiki á að miðla þekkingu á fjölbreytilegan og nýstárlegan hátt.“

Sérð þú það sem ég sé?

Í Sjónarspili munu börn geta horft í gegnum mismunandi lituð gler og kíkt í gegnum mismunandi göt á forvitnilegum kössum þar sem komið verður fyrir völdum safngripum úr Náttúrufræðistofu. Börn fá þannig tækifæri til að sjá með augum ýmissa dýrategunda og átta sig á ólíkum sjónarhornum. Innsetningin er í augnhæð barna.

Eitt af því sem hefur vakið athygli í starfi ÞYKJÓ í menningarhúsunum er nýstárleg miðlun fjölbreyttra og merkilegra safngripa Náttúrufræðistofu. Hönnuðir stilltu skeljum og kuðungum út líkt og skúlptúrum í samhengi við myndlist í Gerðarsafni. Egg og hreiður voru kynnt í Salnum út frá formfræði. Safngripir hafa verið myndaðir af atvinnuljósmyndurum og miðlað á samfélagsmiðlum sem hefur vakið mikinn áhuga og athygli almennings, bæði barna og fullorðinna. Sjónarspil er leið til að halda áfram að miðla náttúrugripum á nýjan hátt. Hlutirnir sjálfir inni í kössunum eru valdir með rýnihópum barna af leikskólanum Marbakka, úr safni Náttúrufræðistofu Kópavogs.

„Þessir kassar eru hugsaðir þannig að það sé hægt að skipta reglulega út safngripum því safnið á svo mikið af áhugaverðum gripum,“ segir Sigríður Sunna. „Kassarnir verða vonandi eitt tæki í viðbót fyrir Náttúrufræðistofu til að endurnýja sýningarkostinn sem gerir það að verkum að það er hægt að koma aftur og aftur og sjá alltaf eitthvað nýtt. Fyrir yngstu gestina þýðir þetta líka að það er hægt að afmarka sig við að skoða nokkra hluti og missa þá ekki fókus yfir öllu sem er í boði að skoða. Þetta er leið til að staldra við og horfa aðeins lengur á hvern hlut fyrir sig og sjá hann frá fleiri sjónarhornum sem er líka eitt af stóru markmiðunum okkar. Það er svo gaman að fá að skoða safngripi djúpt.“

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

22
des

23
des

08
jan

18
jan

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner