Menningarhúsin í Kópavogi hafa skipst á að standa fyrir fjölskyldustundum á laugardögum í vetur. Laugardaginn 7. maí er komið að Náttúrufræðistofunni og er ætlunin að beina sjónum að farfuglunum, hinum afar margbreytilegu vorboðum. Klukkan 13:15 verður haldið stutt erindi um fuglana í Safnahússkórnum að Hamraborg 6a en síðan verður farið niður í Kópavog þar sem gestum gefst kostur á að skoða fuglana.
Gera má ráð fyrir að mæting þar sé um kl. 14:00. Sjónaukar verða á staðnum sem gestir geta fengið að nota en einnig er gott að koma með eigin græjur, sjónauka og fuglabækur. Starfsmenn Náttúrufræðistofu verða við voginn til kl. 16:00, neðan við Kópavogshælið.
Nú streyma farfuglarnir til landsins og lífga mikið upp á náttúruna þar sem þeir eru mjög áberandi hvert sem litið er. Eftir vetrardvöl í Evrópu halda þeir norður á bóginn til að nýta sér hið mikla fæðuframboð sem sumarið býður upp á. Skordýr og ormar af fjöldamörgum tegundum auk allra plantnanna, kvikna af vetardvala sem verður sumarfæða fuglanna.