Enn finnast nýjar vatnaplöntur á Íslandi

Áður hefur verið sagt frá fundi sverðnykru (Potamogeton compressus) sem er ný háplöntutegund í flóru Íslands. Nú hafa tvær tegundir til viðbótar bæst við flóru íslenskra vatnaplantna og að auki bíða þrjár eftir að tegundagreining verði staðfest. Allar fundust tegundirnar við rannsóknir Náttúrufræðistofu Kópavogs í stöðuvötnum víða um land, en þær hafa staðið yfir undanfarin tvö sumur í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands og eru styrktar af Evrópusambandinu. 
Nýju tegundirnar tvær eru kransþörungar sem bera fræðiheitið Tolypella canadensins og Chara aspera, en þær hafa ekki hlotið íslensk heiti enn sem komið er. Alls eru nú þekktar sex tegundir kransþörunga hér á landi. Til samanburðar eru þekktar níu tegundir á Grænlandi og 30–40 tegundir í Noregi og Svíþjóð.
20140318143237490703.jpg
Kransþörungurinn Chara aspera líkist tegundinni Chara virgata sem hér er sýnd. Eintakið er allt að 8 cm að hæð. 
Kransþörungar eru í hópi grænþörunga og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stórvaxnastir allra þörunga í ferskvatni; sumar tegundir geta orðið allt að metri að lengd á meðan aðrar eru mun smávaxnari. Nafn sitt draga kransþörungar af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stönglinum. Kransþörungar eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður eða flækjur á botninum. Nokkrar tegundir lifa í ísöltu vatni.
20140318143237177955.jpg
Kransþörungurinn Tolypella canadensis svipar til tegundarinnar Nitella opaca sem hér sést. Tegundirnar mynda oft stórar breiður á botni stöðuvatna. Stikan á myndinni er 1,5 m að lengd.
Tegundin Tolypella canadensins hefur norðlæga útbreiðslu og lifir í köldum og næringarsnauðum vötnum. Hér á landi virðist tegundin bundin við hálendisvötn, en hún fannst í sjö vötnum á heiðum norðan-, vestan- og sunnanlands.
Tegundin Chara aspera er útbreidd um allt norðurhvelið, bæði í ferskvatni og ísöltu vatni. Til þessa hefur tegundin aðeins fundist í Skúmsstaðavatni í V-Landeyjum sem er ekki fjarri sjó.
Rannsókn Náttúrufræðistofunnar er hluti af umfangsmiklu verkefni sem gengur undir heitinu Natura Ísland og er á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þekkingu á vistgerðum landsins í því skyni að stuðla að skynsamlegri umgengni og notkun á gæðum náttúrunnar. Í verkefninu er verndargildi og verndarþörf vistgerða og tegunda metin og lagðar fram tillögur um verndarsvæði. Verkhluti Náttúrufræðistofu Kópavogs snýr að vistgerðum í ferskvatni og hófst rannsóknin vorið 2012. Nú hefur gróður verið kannaður í samtals 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu. Um er að ræða fyrstu skipulegu rannsóknina á útbreiðslu og tegundasamsetningu vatnagróðurs í landinu. Síðastliðin tvö sumur hefur gagna og sýna verið aflað og úrvinnsla stendur nú yfir.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

22
des

23
des

08
jan

18
jan

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner