Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúrufræðistofu Kópavogs og Margrét Hallgrímsdóttir settur forstjóri Náttúruminjasafns Íslands undirrituðu nýlega samstarfssamning um tímabundna varðveislu Náttúrufræðistofunnar á safnkosti Náttúruminjasafnsins.
Málefni Náttúruminjasafns Íslands hafa verið töluvert til umfjöllunar í fjölmiðlum að undanförnu en staða safnsins sem eitt af þremur höfuðsöfnum í landinu, auk Þjóðminjasafns Íslands og Listasafns Íslands, er ekki upp á marga fiska. Náttúruminjasafnið ræður til að mynda hvorki yfir sýningaraðstöðu sem hæfir hlutverki safnsins né er aðstaða til varðveislu og geymslu á safnkosti boðleg. Náttúruminjasafnið hefur haft til bráðabirgða aðsetur í gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu í Reykjavík og nýtt þar rými í kjallara og á fyrstu hæð.
Í samstarfssamningi Náttúrufræðistofunnar og Náttúruminjasafnsins er kveðið á um að Náttúrufræðistofan muni hýsa allan safnkost Náttúruminjasafnsins sem er í Loftskeytastöðinni, þ. á m. votsýni, þurrsýni, berg- og steindasýni og uppstoppaða gripi. Um eftirlit með safnkostinum mun starfsmaður á vegum Náttúruminjasafnsins sjá og veitir Náttúrufræðistofan fullan aðgang og nauðsynlega aðstöðu til eftirlitsins. Þá er Náttúrufræðistofunni heimil afnot af safnkostinum til rannsókna og sýninga á varðveislutímabilinu eftir nánara samkomulagi þar að lútandi.
Undirbúningur á flutningi safnkosts Náttúruminjasafnsins stendur yfir og verður safnið flutt bráðlega til Náttúrufræðistofunnar þar sem geymsluaðstæður eru betri en í Loftskeytastöðinni. Óvíst er hve lengi Náttúrufræðistofan hýsir safnkostinn en um tímabundna ráðstöfun er að ræða á meðan leitað er leiða til að leysa vanda Náttúruminjasafnsins. Unnið er markvisst að framtíðarlausn á málefnum Náttúruminjasafns Íslands á vegum stjórnvalda. Að undanförnu hafa viðræður farið fram milli ríkis, Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur um möguleikann á því að nýta húsnæði Perlunnar í Öskjuhlíðinni undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og virðast þær viðræður miða í rétta átt. Mennta- og menningarmálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, greindi frá því á alþingi fyrir skömmu að Perlan kæmi til greina sem aðsetur fyrir Náttúruminjasafn Íslands og að verið væri að skoða möguleikann betur.