Eins og allir vita stendur nú yfir átakið „Hjólað í vinnuna“ sem hófst þann 9. maí sl. og stendur til 29. maí. Náttúrufræðistofan lætur sitt að sjálfsögðu ekki eftir liggja og tekur þátt í flokki fyrirtækja með 3 – 9 starfsmenn og teflir fram harðsnúnu fjögurra manna liði, HJÓLDÝRUNUM.
Nú þegar átakið er u.þ.b. hálfnað er ljóst að HJÓLDÝRIN þurfa að herða sig í dagakeppninni, dúsandi í 27 sæti (af 107) þegar þessar línur eru skrifaðar. Hins vegar er staðan í kílómetrakeppninni ásættanlegri þar sem HJÓLDÝRIN verma hið notalega 13. sæti og höfum þar m.a. all gott forskot á nágranna okkar TÓNTRÖLLIN í Salnum.
Glöggir taka eflaust eftir að á myndinni eru aðeins þrjú hjól en svo illa vildi til að þegar fréttin var unnin lá liðsstjórinn óvígur heima – en samkvæmt nýustu fréttum stendur það til bóta. Hennar er sárt saknað og vonumst við til að geta sett inn heila liðsmynd bráðlega.