Á safninu eru til sýnis fulltrúar þriggja íslenskra landspendýrategunda, þ.e. refa minka og hagamúsa. Alls finnast sex tegundir spendýra villtar á Íslandi, en það eru auk framataldra tegunda, hreindýr, húsamýs og brúnrottur. Einungis refurinn er upprunalegur, aðrar hafa flust hingað með manninum.
Uppstoppaður útselsbrimill og beinagrind úr háhyrningi eru fulltrúar íslenskra sjávarspendýra, en auk þess á stofan nokkuð af hvalabeinum sem alla jafna eru ekki til sýnis. Talsvert sýningarefni er að auki um hvali og lifnaðarhætti þeirra.
Hér að neðan er fjallað sérstaklega um hvern hóp þeirra spendýra sem finnast villt á Íslandi og umhverfis það.
Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er til sýnis fjölbreytt safn lindýra. Meginuppistaða safnsins er lindýrasafn Jóns Bogasonar, en það er eitt fullkomnasta skelja- og lindýrasafn landsins.
Í skeldýrasafni Jóns Bogasonar eru skráðar um 200 íslenskar tegundir og rúmlega 1300 erlendar tegundir. Að auki hafa safninu borist smærri einkasöfn að gjöf. Heildarskráning skeldýrasafnsins stendur yfir og er langt komin. Gert er ráð fyrir að tegundalistar verði aðgengilegir á PDF formi, áður en langt um líður.
Lindýr eða skeldýr (Mollusca) kallast nokkuð stór hópur dýra sem öll eiga það sameiginlegt að lifa í húsi sem þau byggja utan um sig úr kalki og mynda þau eina af fylkingum dýraríkisins. Kalk þetta mynda frumur í húðlagi, (Möttli) sem liggur undir skelinni. Er dýrin vaxa þá stækka þau húsakinnin í leiðinni og oft má aldursgreina sumar tegurnir á árhringjum í skelinni þar sem sumarvöxtur er mun meiri en vetrarvöxtur. Um 50.000 tegundir eru taldar núlifandi og er hér um næst stærstu fylkingu dýraríkisins að ræða á eftir Liðfætlum (Arthropoda). Lindýrafylkingin samanstendur svo af sjö flokkum en þeir eru: Berskjöldungar, Hyrnur, Sniglar, Nökkvar, Skeljungar, Samlokur og Smokkdýr.
Þegar skrár yfir skeldýr eru yfirfarnar, að ekki sé talað um skrár eins og þær sem finnast á Náttúrufræðistofunni yfir þau skeldýr sem þar eru til kemur margt forvitnilegt í ljós. Samkvæmt þeim finnast um 365 tegundir sem eru skráðar þar af 108 samlokutegundir, 241 tegund kuðunga, 4 tegundir nökkva og 12 tegundir hyrna. Auk þessara tegunda eru nokkrar tegundir sem ekki er viss greining á. Aðrir hópar lindýra eru ekki til á skrá hjá Náttúrufræðistofunni. Í tímamótariti Ingimars Óskarssonar er ber heitið Skeldýrafána Íslands eru settar fram lýsingar á þeim tegundum sem þá voru þekktar úr sjó við Ísland og eru þar skráðar 287 tegundir þar af 171 sæsnigiltegundir og 116 samlokutegundir. Þá eru þar ótaldar þær tegundir nökkva, hyrna og smokkfiska er finnast hér við land. Ekki vitum við til þess sð skeljungar hafi fundist hér við land þegar þetta er ritað. Í riti Ingimars er einnig miðað við Íslandsmið niður að 400 m dýpi en söfnun Jóns Bogasonar nær mun neðar, m.a. eru til eintök af 1200 m dýpi.
Vinna við að yfirfara þær skrár sem til eru hjá Náttúrufræðistofunni yfir íslensk skeldýr hefur staðið yfir um nokkurt skeið. Þannig er að vinna við flokkun og flokkunarfræði ýmissa lífveruhópa er ávalt í endurskoðun og þannig geta ætthvíslir og tegundir skipt um stað í flokkunarkerfinu og þar með breytast nöfn viðkomandi ætthvíslar eða tegundar. Þetta skapar þörf á endurskoðun á þeim skrám sem til eru ekki síst þegar flokkunarfræði þeirra hefur ekki verið uppfærð í nokkuð langan tíma.
Sniglar eða kuðungar (Gastropoda), skipa stærsta flokk lindýra (35.000 tegundir). Hafa þessi dýr eina skel sem oftast er undin upp og myndar spíral. Getur dýrið dregið sig inn í skelina og sumir geta lokað á eftir sér með þar til gerðri loku. Dýrin sitja á svo kölluðum fæti sem þau nota til að festa sig við undirlagið og hreyfa sig úr stað með. Fram undan skelinni teygir dýrið nokkuð afmarkað höfuð sem oft ber bæði augu og þreifara.
Dýr þessi nærast einkum á tvennan hátt, annars vegar skrapa þau þörunga af því undirlagi sem þau sitja á með tenntri tungu sem kölluð er radula. Önnur mynda munnrana sem þau geta teygt út frá sér. Eru þau einkum hræætur eða rándýr og nota þá ranann til að sjúga upp innvols úr öðrum dýrum m.a. skeljum.
Samlokur eða skeljar (Bivalvia), mynda um sig hús úr tveimur skeljum sem eru spegilmynd hvor annarar. Þær eru tengdar saman á svokölluðu nefi með liðbandi sem gert er úr próteini. Þar sem skeljarnar mætast á nefinu er kallað hjör og er hún tennt þannig að tennurnar á hvorri skel falla saman og hindra að skeljarnar renni í sundur. Dýrin hafa svo einn eða tvo vöðva sem notaðir eru til að fella skeljarnar saman og loka húsinu. Eins og kuðungar hafa margar skeljar einnig fót sem þær geta teygt út úr skelinni til að færa sig úr stað. Eins eru margir sem þekkja skeggþræðina sem sumar tegundir mynda (t.d. kræklingur) og þær nota til að festa sig við eitthvert undirlag eins og t.d. steina.
Eins og hjá kuðungum eru til tvær megin aðferðir við fæðuöflun annars vegar er um síun á ýmsum ögnum sem borist geta úr sjávarstraumi sem dýrin mynda í gegn um skelina eða síaðar eru agnir úr leðjubotni sem dýrin grafa sig í. Eru það alla jafna bifhár á tálknum dýranna sem mynda þennan straum vatns í gegn um skelina. Þær agnir sem inn í skelina berast loða svo við slímlag á yfirborði tálknanna og berast svo með bifhárahreyfingunum að munninum. Hins vegar eru ýmsar tegundir með sograna sem þær geta notað til að ná til annarra dýra sem þær nærast á.
Tveir hópar lindýra eru nokkuð keimlíkir í útliti en fremur tegundafáir en það eru Nökkvar (Polyplacophora) og Skeljungar (Monoplacophora). Eru þeir um margt líkir kuðungum s.s að hafa undir sér nokkuð breiðan fót sem þeir nota til að festa sig við undirlagið. Hin tennta tunga, radula finnst hjá báðum þessum hópum og nærast þeir á því að skrapa þörunga og bakteríur af undirlagi því sem þeir skríða á. Skeljungar hafa eina skel svipað eins og kuðungar en aldrei myndast spírall eins og hjá þeim, eins er fyrirkomulag innri líffæra nokkuð frábrugðið því sem finnst hjá kuðungum. Hjá nökkvunum er skelinni aftur á móti skipt upp í 7 plötur sem liggja yfir dýrinu. Eru þessi dýr öll frekar smá skeljungarnir í kring um 3 cm en nökkvarnir fara allt uppí 40 cm að lengd.
Berskjöldungar (Aplacophora) er afar smár hópur dýra sem taldir eru til lindýra. Þeir hafa fundist víða um sjó allt niður á 9000 metra dýpi. Þeir eru annars mjög frumstæðir í útliti minna helst á orma og helstu einkenni lindýra er ekki að sjá á þessum dýrum, þó eru önnur einkenni sem svara til einkenna sem finnast á öðrum lindýrum s.s. radula sem finnst í sumum tegundum berskjöldunga. Helsta fæða þeirra virðist vera holdýr eins og kórallar og sæfíflar.
Hyrnur (Scaphopoda) er sjötti flokkurinn sem hér verður minnst á. Þetta eru dýr sem lifa í mjög einfaldri skel sem er pípa sem mjókkar aftur í annan endann líkt og kramarhús. Stærstar verða þessar skeljar um 15 cm (Dentalíum vernedei, tegund er finnst við Japan) og minnstar um 4 cm. Um 350 tegundir eru þekktar sem allar finnast í sjó. Er líkami þessara dýra hlutfallslega mjög ílangur og hafa þau fót sem þau nota til að bora sér niður í sand eða leirbotn hvar þau liggja með hausinn niður. Hann er frekar kúlulaga og hefur ranar er ber munninn. Þreifarar með kúlu á endanum eru einnig í kring um munninn og eru þeir nokkurs konar veiðarfæri þar sem ýmsar agnir loða við slímlag á yfirborði þeirra. Dýrin geta svo dregið þreifarana að munninum og næst á þeim ögnum sem loða við þá. Hyrnur hafa ekki tálkn líkt og stærstu hóparnir lindýra hafa til öndunar en fer hún fram í gegn um frumur möttulsins.
Þá stendur eftir einn hópur lindýra en það eru smokkdýr (Cephalopoda) en það eru smokkfiskar og kolkrabbar. Mörgum vekur það undrun að þessi dýr teljist skyld kuðungum og skeljum. Með fornustu smokkdýrum eru s.k. kuggar, Nautilus, en þeir búa í undinni skel sem minnir nokkuð á kuðung. Er skel þessi skipt niður í mörg hólf en dýrið lifir aðeins í ysta og stærsta hólfinu, hin eru loftfyllt og auðvelda dýrinu að synda. Þeir hafa 38 arma sem raðaðir eru í tvöfaldri röð í kring um munninn, hafa armar þessir ekki sogskálar líkt og armar smokkfiska og kolkrabba.
Smokkfiskar hafa tíu slíka arma sem allir hafa sogskálar á innri hlið armanna og geta þeir þannig náð taki á þeirri bráð sem smokkfiskurinn er að veiða í hvert sinn. Tveir þessara arma liggja innan við hina átta og eru þeir nokkru lengri en hinir og getur dýrið teygt þá frá sér og gripið bráð í nokkru færi frá sér. Smokkfiskar og kolkrabbar hafa enga ytri skel. Í sumum tegundum finnst skel innan likama dýrsins og hafa skeljarnar smækkað mikið eða umbreyst og eru orðnar meira eða minna flatar eða plötulaga. Hjá öðrum tegundum hefur skelin horfið alveg. Hin tennta tunga, radula finnst hjá smokkdýrum að auki er kjálki innan við munninn sem getur bitið bráð í sundur. Við kjálka þessa eru op paraðra munnvatnskyrtla og hjá kolkröbbum og einni ættkvísl smokkfiska eru eitruð prótein í munnvatninu sem geta komist inn í bráðina í gegn um sár sem myndast eftir kjálkana og lama hana eða drepa. Hjá kolkröbbum eru einnig niðurbrotsprótein, ensím, í munnvatninu.
Kuggar og smokkfiskar eru mikið á sundi og geta margir smokkfiskar verið afar fimir á því sviði. Þessi dýr synda með því að draga vatn inn í s.k. möttulhol og þrýsta því svo út með nokkru afli í gegn um þar til gerð göng. Kolkrabbar hafa lagt af sund en skríða þess í stað yfir botninn. Þeir hafa heldur ekki þessa tvo lengri arma sem smokkfiskarnir hafa.
Margir þekkja þann eiginleika margra smokkdýra (annarra en kugga) að geta skipt mjög fljótt um lit, en það gerist þegar ákveðnar frumur dragast saman þannig að litfrumur í húð þeirra verða sýnilegri. Einnig hafa þessi dýr kyrtla sem framleiða vökva sem inniheldur mikið af litarefninu melaníni en það finnst víða í dýraríkinu. Þennan litavökva geta dýrin losað út í umhverfi sitt og er þá eins og þau sprauti bleki. Bæði þessi litaeinkenni eru notuð til að villa um fyrir afræningjum sem gjarnan vilja gæða sér á smokkfiskum.
Helstu heimildir:
Verdenshavens konkylier, handbog for skalsamlere. Höf: S. Peter Dance. Útg. Lademann Forlagsaktieselskab 1978.
The Hamlin Guide to shells of the world. Höf: A. P. H. Oliver og James Nicholls. Útg. The Hamlyn Publishing Group Limited 1980.
Skeldýrafána Íslands: l. Samlokur í sjó, II. Sæsniglar með skel. Höf: Ingimar Óskarsson. Útg. Prentsmiðjan Leiftur hf. 1982.
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig til að fá fréttabréf um viðburði, fréttir og menningu í Kópavogi.
OPNUNARTÍMI
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17