Á Náttúrufræðistofu Kópavogs er til sýnis fjölbreytt safn lindýra. Meginuppistaða safnsins er lindýrasafn Jóns Bogasonar, en það er eitt fullkomnasta skelja- og lindýrasafn landsins.
Í skeldýrasafni Jóns Bogasonar eru skráðar um 200 íslenskar tegundir og rúmlega 1300 erlendar tegundir. Að auki hafa safninu borist smærri einkasöfn að gjöf. Heildarskráning skeldýrasafnsins stendur yfir og er langt komin. Gert er ráð fyrir að tegundalistar verði aðgengilegir á PDF formi, áður en langt um líður.
Lindýr eða skeldýr (Mollusca) kallast nokkuð stór hópur dýra sem öll eiga það sameiginlegt að lifa í húsi sem þau byggja utan um sig úr kalki og mynda þau eina af fylkingum dýraríkisins. Kalk þetta mynda frumur í húðlagi, (Möttli) sem liggur undir skelinni. Er dýrin vaxa þá stækka þau húsakinnin í leiðinni og oft má aldursgreina sumar tegurnir á árhringjum í skelinni þar sem sumarvöxtur er mun meiri en vetrarvöxtur. Um 50.000 tegundir eru taldar núlifandi og er hér um næst stærstu fylkingu dýraríkisins að ræða á eftir Liðfætlum (Arthropoda). Lindýrafylkingin samanstendur svo af sjö flokkum en þeir eru: Berskjöldungar, Hyrnur, Sniglar, Nökkvar, Skeljungar, Samlokur og Smokkdýr.
Fróðleikur um lindýr
Berskjöldungar (Aplacophora) eru afar smár hópur dýra sem talin er til lindýra. Þeir hafa fundist víða um sjó og allt niður á 9000 m dýpi. Þeir eru annars mjög frumstæðir í útliti, minna helst á orma og erfitt er að greina helstu einkenni lindýra á þeim.
Hyrnur (Scaphopoda) Hyrnurnar búa í einfaldri skel, sem er pípa sem mjókkar aftur í annan endann líkt og kramarhús.
Sniglar eða kuðungar (Gastropoda), skipa stærsta flokk lindýra (35.000 tegundir). Oftast hafa þessi dýr eina skel sem er undin upp og myndar spíral.
Nökkvar og Skeljungar. Tveir hópar lindýra eru nokkuð keimlíkir í útliti en fremur tegundafáir en það eru Nökkvar (Polyplacophora) og Skeljungar (Monoplacophora). Eru þeir um margt líkir kuðungum s.s að hafa undir sér nokkuð breiðan fót sem þeir nota til að festa sig við undirlagið.
Samlokur eða skeljar (Bivalvia), mynda um sig hús úr tveimur skeljum sem eru spegilmynd hvor annarar.
Smokkdýr (Cephalopoda) Þessi hópuri samanstendur af smokkfiskum og kolkröbbum. Mörgum vekur það undrun að þessi dýr teljist skyld kuðungum og skeljum.
Helstu heimildir:
Verdenshavens konkylier, handbog for skalsamlere. Höf: S. Peter Dance. Útg. Lademann Forlagsaktieselskab 1978.
The Hamlin Guide to shells of the world. Höf: A. P. H. Oliver og James Nicholls. Útg. The Hamlyn Publishing Group Limited 1980.
Skeldýrafána Íslands: l. Samlokur í sjó, II. Sæsniglar með skel. Höf: Ingimar Óskarsson. Útg. Prentsmiðjan Leiftur hf. 1982.