Liðdýr

dægra.jpgTil flokks liðdýra teljast dýr sem eru með liðskiptan líkama og ytri stoðgrind úr kítíni. Þar á meðal eru krabbadýr, skordýr og áttfætlur, eða það sem margir kalla í daglegu tali "pöddur". Liðdýr eru stærsti flokkur dýraríkisins og telja um 1.000.000 tegundir eða 3/4  núlifandi dýrategunda.

Krabbadýr (Crustacea) er hópur liðdýra sem telur alls um 67 þús. tegundir. Undir þennan flokk falla hinir alþekktu krabbar s.s. trjónukrabbi, bogkrabbi og einbúakrabbi (kuðungskrabbi) en einnig humrar, hrúðurkarlar og rækjur. Þá falla mörg hinna smávöxnu dýra sem lifa í svifi í sjó og vötnum í þennan hóp, og einstöku tegundir sem lifa á landi.

Á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands má finna umfjöllun og ljósmyndir af fjölmörgum íslenskum skordýrum og öðrum pöddum, auk margvíslegs fróðleiks. Náttúrufræðistofa Kópavogs á nokkurt safn skordýra þótt þau séu alla jafna ekki til sýnis. Hér að neðan má finna almennar upplýsingar um helstu hópa skordýra.

Bjöllur (Coleoptera) er fjölskipaður ættbálkur sem inniheldur 166 ættir og um 370 þús. tegundir. Hér á landi hafa fundist um 160 tegundir auk flækinga. Helsta einkenni þeirra er að fremra vængjaparið er ummyndað í skildi, en undir þeim eru flugvængirnir. Þær eru margvíslegar að stærð, lit og lögun og geta verið mjög skrautlegar.

Fiðrildi: Ættbálkur fiðrilda (Lepidoptera) telur um 165 þús. tegundir í 127 ættum. Lirfurnar eru yfirleitt plöntuætur en fullorðnu dýrin hafa sograna og lifa á blómasafa. Hérlendis lifa um 60 tegundir en að flækingum meðtöldum hafa fundist hér um 100 tegundir. Meirihluti íslenskra fiðrilda tilheyrir þremur ættum, en það eru fetaætt (Geometridae), ygluætt (Noctuidae) og vefaraætt (Tortricidae).

Tvívængjur (Diptera) er einn af meginættbálkum skordýra og samanstendur af 130 ættum sem i eru um 120 þús. tegundir. Hér á landi lifa um 300 tegundir þeirra. Þessi skordýr greina sig frá öðrum að því leiti að þau hafa aðeins eitt vængjapar. Til þessa hóps teljast margar af þeim flugum sem eru áberandi hér á landi s.s. mýflugur, fiskiflugur og húsflugur.

Æðvængjur: Ættbálkur æðvængja (Hymenoptera) samanstendur af 91 ætt, en innan þeirra eru um 200 þús. tegundir. Æðvængjur skiptast í tvo undirættbálka, sagvespur annarsvegar en snýkjuvespur, geitunga, maura, bý- og hunangsflugur hinsvegar. Hér á landi hafa fundist um 260 tegundir æðvængja.

Helstu heimildir: 
Stóra skordýrabók Fjölva. Höf: V.J. Stanek (Þorsteinn Torarensen þýddi og staðfærði). Útg. Fjölvi 1974.
Rit Landverndar nr. 9 - Pöddur. Ritstj: Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson. Útg. Landvernd 1989.
Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 17 - Íslenskt skordýratal. Höf: Erling Ólafsson. Útg. Náttúrufræðistofnun Íslands 1991.
Fjölrit Náttúrufræðistofnunar nr. 32 - Fiðrildi á Íslandi 1995. Höf: Erling Erling Ólafsson og Hálfdán Björnsson. Útg. Náttúrufræðistofnun Íslands 1997.
Insects, spiders and other terrestrial arthropods (Dorling Kindersley Handbooks). Höf: George C. McGavin. Útg. Dorling Kindersley limited, London 2000.
Dulin veröld, smádýr á íslandi. Höf: Guðmundur Halldórsson, Oddur Sigurðsson og Erling Ólafsson. Útg. Mál og mynd ehf. 2002

Vefur Náttúrufræðistofnunar Íslands www.ni.is