Jarðfræði

Á safninu eru til sýnis fulltrúar þriggja íslenskra landspendýrategunda, þ.e. refa minka og hagamúsa. Alls finnast sex tegundir spendýra villtar á Íslandi, en það eru auk framataldra tegunda, hreindýr, húsamýs og brúnrottur. Einungis refurinn er upprunalegur, aðrar hafa flust hingað með manninum.

Uppstoppaður útselsbrimill og beinagrind úr háhyrningi eru fulltrúar íslenskra sjávarspendýra, en auk þess á stofan nokkuð af hvalabeinum sem alla jafna eru ekki til sýnis. Talsvert sýningarefni er að auki um hvali og lifnaðarhætti þeirra.

Hér að neðan er fjallað sérstaklega um hvern hóp þeirra spendýra sem finnast villt á Íslandi og umhverfis það.

Í jarðfræðihluta safnsins er gerð grein jarðfræði Íslands í máli og myndum. Þar er einnig fjölbreytt steinasafn, þar sem sjá má sýnishorn af algengustu berggerðum landsins, ásamt margs konar holufyllingum, útfellingum og steingervingum. Hér að neðan er fjallað um ákveðin atriði og fyrirbæri í jarðfræði Íslands og áhersla lögð á það sem finna má hér á safninu.

Landrek – Flekaskil

Gosbelti og virk eldstöðvakerfi

Jarðmyndanir

Bergtegundir og steindir

Andesit

Basalt

Djúpberg

Holufyllingar

Molaberg

Rhyolit

Landrek - Flekaskil

Ysti hluti jarðar er samsettur úr nokkrum geysistórum bergflekum sem ná djúpt niður í seigan möttul jarðar. Flekarnir eru 100–200 km þykkir og „fljóta“ ofan á möttlinum. Efsti hluti flekanna kallast jarðskorpa og er hún 5-70 km þykk. 

Við flekamót rekur fleka saman en við flekaskil rekur þá í sundur.

Við flekaskil valda iðustraumar í möttulbráðinni því að flekar færast í sundur. Þar þrýstist bráðin hraunkvika upp og bætist á jaðra flekanna. Eldgos verða þar sem hraunkvikan brýst alla leið upp á yfirborð. 

Flekaskil eru að langmestu leyti á botni úthafanna og mynda þau geysilangt net af neðansjávarhryggjum, alls um 60 þúsund km að lengd. Aðeins um 1% af úthafshryggjum jarðar eru ofansjávar. 

Ísland er á flekaskilum og eru flekarnir tveir, Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn. Úthafshryggurinn sem liggur um Ísland og sker það í tvennt kallast einu nafni Norður-Atlantshafshryggur og er hann hluti af jöðrum flekanna tveggja. 

Svæði þar sem flekana tvo rekur hraðast í sundur eru kölluð gliðnunarbelti eða rekbelti. Utan rekbeltanna eru tvö hliðarbelti og liggja þau í eldri jarðskorpu en rekbeltin. Tvö þverbrotabelti tengja saman hliðrun sem er á Norður-Atlantshafshryggnum um mitt Ísland. 

Hliðrun úthafshryggjarins stafar líklega af miklum möttulstrók, svokölluðum heitum reit með sérstaklega heitu, léttu og miklu kvikuuppstreymi, sem er undir Íslandi. Miðja möttulstróksins er undir Vatnajökli og togar strókurinn hrygginn eða gliðnunarbeltin til sín.

Ameríkuflekann og Evrasíuflekann rekur um 1 cm á ári frá hvor öðrum í vestur og austur. Ísland gliðnar því um 2 cm á ári, eða um 2 m á 100 árum. Óvíst er hvort Ísland stækki við þetta vegna þess að samtímis nýmyndun jarðefna á sér stað landeyðing vegna ýmissra rofafla.

Gosbelti og virk eldstöðvakerfi

Berglagastaflar Íslands hafa að mestu leyti orðið til á eldvirkum svæðum í gliðnunarbeltum og hliðarbeltum landsins. 

Eldvirkni og brotahreyfingar tengjast afmörkuðum eldstöðvakerfum. Sérhvert eldstöðvakerfi er samsett af eldstöðvum, oftast með einni megineldstöð, og sprungusveimum. 

Dæmi um eldstöðvakerfi er Hengilskerfið. Þar er Hengil megineldstöð ásamt fjölmörgum eldgígum og sprunguþyrpingum, sem samtals eru meira en 100 km að lengd. 

Landsvæði með nokkrum eldstöðvakerfum kallast gosbelti. 
Dæmi um gosbelti er Suðvesturlandsgosbeltið með fjórum eldstöðvakerfum:
Hengilskerfi (Hengill-Selvogur)
Brennisteinsfjallakerfi (Brennisteinsfjöll-Bláfjöll)
Trölladyngjukerfi (Trölladyngja-Krísuvík)
Reykjaneskerfi (Reykjanes-Grindavík-Vogar)

Jarðmyndanir

Á Íslandi er fjórar megingerðir af jarðmyndunum eða berggrunni og eru þær allar úr basalti.

BLÁGRÝTI 
Blágrýti er elsta jarðmyndun Íslands og varð til á tertíertímabilinu. Elst er blágrýtið um 20 milljón ára en yngst um 3 milljón ára. Blágrýti er líklega að finna undir öllu Íslandi, einnig neðanjarðar um miðbik landsins, en þar er það sennilega hulið yngri jarðmyndunum. 

GRÁGRÝTI
Grágrýti er næstelsta jarðmyndun Íslands og varð til á ísöld. Ísöld tekur til tímabilsins frá lokum tertíer fyrir um 3 milljón árum síðan og fram að upphafi nútíma fyrir um 10 þúsund árum síðan. Á ísöld skiptust á jökulskeið og hlýskeið og er grágrýtið runnið einkum á hlýskeiðum. Stundum er greint á milli eldri grágrýtismyndunar, sem gaus á árkvartertímabilinu (fyrir 3,1-0,7 milljón árum) og yngri grágrýtismyndunar sem gaus á síðkvartertímabilinu (fyrir 700-10 þúsund árum).

MÓBERG
Móberg tilheyrir seinnihluta ísaldar og gaus einkum á jökulskeiðum þegar jöklar huldu landið meira eða minna. Aðalgostímabilið stóð yfir frá því fyrir um 700 þúsund árum og fram að lokum ísaldar fyrir um 10 þúsund árum. Móbergið er því hluti eða deild innan yngri grágrýtismyndunarinnar, en gosið undir jökli. 

NÚTÍMAHRAUN
Nútímahraun eru jarðmyndanir sem gosið hafa frá lokum ísaldar fyrir um 10 þúsund árum síðan og fram á okkar daga. 

Auk jarðmyndana úr basalti eru LJÓSGRÝTI og DJÚPBERG í berggrunni Íslands, en útbreiðsla þessara tveggja jarðmyndana er mjög takmörkuð miðað við basaltjarðmyndanirnar.

HOLUFYLLINGAR
Þegar heitt vatn leikur um holrými í berggrunni jarðar leysast upp ýmis steinefni úr berginu. Þegar vatnið kólnar falla steinefnin úr upplausn og mynda kristalla. Ef holur og glufur eru í berginu vaxa kristallarnir og klæða eða fylla holrýmið að innan og mynda holufyllingar.
Tegund holufyllingar ræðst af myndunardýpi, hitastigi og efnasamsetningu bergs. Í sömu holu má finna fleiri en eina tegund af steind.
Helstu flokkar holufyllinga á Íslandi eru:

GEISLASTEINAR 
KVARSSTEINAR 
KARBÓNATSTEINAR 
MÁLMSTEINAR
HÁHITASTEINAR
LEIRSTEINAR

Í gosbeltunum, þar sem grágrýti, móberg og nútímahraun eru allsráðandi, er almennt mjög lítið um holufyllingar. Undantekningar eru við háhitasvæði. 
Í blágrýtismynduninni, sérstaklega í tengslum við megineldstöðvar og djúpbergsinnskot, er mikið af holufyllingum. Holufyllingar eru jafnan aðgengilegastar við sjávarströndina, þar sem mest hefur rofnað úr berglagastaflanum.

Bergtegundir og steindir

Jarðskorpan er samsett úr bergtegundum. Algengasta bergtegundin er storkuberg sem verður til við storknun bergkviku misdjúpt í jörðu.

Djúpberg er storkuberg sem storknar djúpt í jörðu.
Gangberg er storkuberg sem storknar í sprungum og göngum.
Gosberg er storkuberg sem storknar á yfirborði jarðar.

Storkuberg er frumberg jarðar sem aðrar bergtegundir verða til úr. Molaberg (setberg) er til dæmis bergmylsna úr verðruðu storkubergi sem safnast hefur saman og harðnað í fast setlag. Um 90% af föstu bergi á Íslandi er storkuberg.

Bergtegund er oftast samsett úr mismunandi steindum (steintegundum). Steindir eru ólífræn kristölluð efni eða efnasambönd þar sem frumefnin raðast í kristalgrind. 

Stærð, gerð og lögun steinda ræðst að mestu af hitastigi, efnasamsetningu bergs og holrými í berginu. Steindir (kristalar) skiptast í frumsteindir og síðsteindir.

Frumsteindir verða til við hraða storknun bergkviku og á það jafnan við 
um gosberg. Margar steindir vaxa þá oft samtímis og kristalarnir verða yfirleitt smávaxnir. 

Síðsteindir verða til síðar við ummyndun bergs og frumsteinda vegna hita og þrýstings eða vegna útfellingu efna úr upplausn. Síðsteindir sem vaxa óaðþrengdar og við hæga kólnun bergs verða oft að stórum og fagursköpuðum holufyllingum (kristölum). Nokkrar frumsteindir finnast einnig sem stórvaxnir kristalar.

FRUMSTEINDIR Í STORKUBERGI
Frumsteindir í storkubergi eru einkum síliköt (innihalda flestar kísilsýru, SiO2). 
Á Íslandi er eftirtaldar frumsteindir algengar í storkubergi:

Plagíóklas Blanda af natríumfeldspati (NaAlSi3O8) og kalsíumfeldspati 
(CaAl2Si2O8). Glært eða hvítt. Harka: 6-6,5

Ortóklas Kalífeldspat (KAlSi3O8). 
Glært, gráhvítt eða ljósrauðleitt. Harka: 6

Kvars Kísilsýra (SiO2). Glært eða gráleitt. Harka: 7

Pýroxen Fjölbreyttur flokkur af magnesíum-járn-kalsíum-ál-silikötum.
Yfirleitt dökkt. Harka: 5-6.

Ólívín Magnesíum-járn-sílikat ((Mg,Fe)2SiO4)
Glergljáandi og gulgrænt. Harka: 6-7

Magnetít Seguljárnsteinn (járnoxíð, Fe3O4). Brúnn, svartur. Harka: 5,5.

Feldspat er samheiti yfir plagíóklas og ortóklas. Meira en helmingur jarðskorpunnar er myndaður úr feldspati.

Andesit

Andesít er ísúrt gosberg (52-65% SiO2) sem stendur á milli basalts og líparíts að samsetningu. Það er bundið við megineldstöðvar.

Basalt

Basalt er basískt gosberg (<52% SiO2). Helstu frumsteindir í basalti: Plagíóklas, pýroxen, ólívín og seguljárnsteinn. Af basalti eru til ýmis afbrigði. Milli 80 – 90% af öllu storkubergi hér á landi er úr basalti.

Blágrýti
Blágrýti er dulkornótt, þétt og dökkleitt basalt. Það er elsta og langalgengasta basaltafbrigðið á Íslandi og storknar sem hraun á yfirborði jarðar.

Stuðlað berg myndast við nokkuð hraða kólnun hraunkviku þegar hún rennur yfir yfirborð jarðar. Við kólnunina dregst bergið saman og klofnar í skipulegt sprungunet, oftast í sexstrendinga en stundum í fimm- eða sjöstrendinga. Lárétt för (meitlaför) í stuðlum stafa af samdrætti í stuðlasúlunni vegna kólnunaráhrifa. Stuðlar standa ávallt hornrétt á aðalkólnunarfletina, til enda á stuðlunum. Fundarstaður: Hrepphólar. Suðurland.

Grágrýti
Grágrýti er smákornótt, miðlungsþétt og ljósgrátt basalt. Grágrýtishraun runnu einkum á hlýskeiðum ísaldar og storknuðu sem hraun á yfirborði jaðrar. Náttúrufræðistofa Kópavogs stendur á grágrýtisklöpp og umhverfis Kópavogskirkju á Borgarholti er hnullungadreif úr grágrýti. Grágrýtið í Kópavogi er líklega hluti af víðáttumiklum berggrunni á höfuðborgarsvæðinu sem kallað er Reykjavíkurgrágrýti.

Reykjavíkurgrágrýtið er að mestu dyngjuhraun sem runnu á hlýskeiðum seinni hluta ísaldar fyrir um 700.000-100.000 árum. Upptök Reykjavíkurgrágrýtisins í Kópavogi eru ekki þekkt með vissu, en gætu verið á Mosfellsheiði, og aldurinn er líklega 300.000 – 400.000 ár. Síðan Reykjavíkurgrágrýtið rann hafa ýmis roföfl unnið á berginu. Síðustu merkin um mikil átök eru eftir jökulinn sem lá yfir Kópavogi fyrir um tíu þúsund árum. Þetta má ráða af hvalbökum og jökulrákum á hvalbökunum.

Hugtökin blá- og grágrýti vísa fyrst og fremst til litar bergsins en ekki aldurs þess. Þessi hugtök eru nú óðum á undanhaldi og í þeirra stað er notast við aldur bergsins við jarðfræðilega flokkun basaltmyndunarinnar. Þannig eru blágrýtissvæðin nú flokkuð gróflega sem bergmyndanir sem eru eldri en 3,3 milljón ára og grágrýtissvæðin sem bergmyndanir yngri en 3,3 milljónir ára. 

Móberg
Móberg er brúnleitt glerkennt basaltafbrigði og myndast við gos undir jökli eða í sjó. Þegar vatn kemst í snertingu við hraunbráð í gíg splundrast hraunkvikan og storknar sem samlímd, glerkennd gosaska og mylsna. Móbergsfjöll og móbergsstapar setja mjög mark sitt á íslenskt landslag.

Móberg er mismunandi að gerð og ræður vatnsdýpi þar mestu um. 

Bólstraberg myndast í djúpu vatni eða sjó eða undir þykkum jökli.
Móbergstúff er nær hrein, fíngerð glermylsna. 
Þursaberg er steinótt móberg.

Djúpberg

Djúpberg storknar sem misstórir berghleifar eða eitlar í kvikuhólfum á um eða yfir 1 km dýpi í jarðskorpunni. Við landris og veðrun löngu síðar koma djúpbergslögin í ljós.

Granófýr
Granófýr er smá- eða grófkornótt djúberg, oftast ljósgráleitt. Það er skylt graníti en er smákornóttara. Fundarstaður: Hornafjörður.

Gabbró
Gabbró er stórkornótt djúpberg, oftast dökkleitt eða grænleitt. 
Fundarstaður: Hornafjörður.

Díórít
Díórít er stórkornótt djúpberg. Fundarstaður: Lýsuskarð. Snæfellsnes.

Holufyllingar

Þegar heitt vatn leikur um holrými í berggrunni jarðar leysast ýmis steinefni upp úr berginu. Þegar vatnið kólnar falla steinefnin úr upplausn og mynda kristalla. Ef holur og glufur eru í berginu vaxa kristallarnir og klæða eða fylla holrýmið að innan og myndast þá holufyllingar.
Hér að neðan verður getið helstu gerða holufyllinga sem finnast hér á landi.

Geislasteinar (Zeólítar)
Geislasteinar eru með algengustu holufyllingum hér á landi og er Ísland frægt fyrir þá. Geislasteinar eru gerðir úr natríum-, kalíum- og eða kalsíum-álsílikötum auk vatns. Steindirnar myndast við fremur lágt hitastig. 
Þekktar eru um 20–30 tegundir geislasteina og er kristalgrindin margbreytileg. Þeir eru venjulega hvítir eða glærir og með gler- eða skelplötugljáa. Harkan er á bilinu 4–5,5. 
Nafnið zeolit er komið úr grísku og þýðir suðusteinn, en við glæðingu bólgna geislasteinar upp og „sjóða“.
Hér að neðan verður getið nokkura geislasteina sem sjá má í steinasafni okkar.

Skólesít Einn algengasti geislasteinninn. Við upphitun vindur steinnin upp á sig líkt og ormur (skólex: ormur). Algeng lengd 1–3 cm. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si3O10*H2O

Mesólít Smágerðir geislabrúskar, með stökkum bortgjörnum nálum (<3 cm). Algengt með skólesíti í ólívínbasalti frá tertíertíma. Kristalgerð: mónóklín. Na2Ca2Al6Si9O30*8H2O

Mordenít Myndar brúsk af hárfínum og mjúkum þráðum. Nafnið er dregið af staðnum Morden á Nova Scotia í Kanada. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: rombísk. (Na,K2Ca)Al2Si10O24*H2O

Thomsonít Algengur og myndar þéttar, hvítleitar hálfkúlur. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: rombísk. NaCa2|(Al,Si)5O10|2*6H2O

Laumontít Sá geislasteinn sem myndast við hæstan hita. Algeng lengd 0,5 cm. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si4O12*H2O

Phillipsít Nokkuð alengur. Finnst bæði sem sem smágerðar kúluþyrpingar og strendingar. Algeng lengd innan við 0,5 cm. Kristalgerð: mónóklín. (1/2Ca,Na, K)3Al3Si5O16*6H2O

Stilbít Algengur. Plötulaga kristallar, vaxnir í horn til endanna. Minnir á knippi þegar þeir vaxa margir saman. Oft 1–2 cm á lengd. Kristalgerð: mónóklín. 
(Ca, Na2, K2)Al2Si7O18*7H2O

Heulandít Plötulaga kristallar, jafnan í búntum. Finnst oft með stilbíti. Heulandít var fyrst greint sem sérstök steind í sýnum frá Teigarhorni í Berufirði. Kristalgerð: mónóklín. 
(Ca, Na2, K2)Al2Si7O18*7H2O

Epistilbít Líkist stilbíti, en hefur þrístrenda kristalenda. Fremur fágætt og finnst óvíða nema á Íslandi. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si6O16*5H2O

Yugawaralít Glærir eða hvítir, þunnir kristalar (<1 cm). Fágætt. Finnst með stilbíti og heulandíti. Kristalgerð: mónóklín. CaAl2Si6O16*4 H2O

Kabasít Teningslaga kristallar, oft með tígulflötum. Samvaxnir kristallar, tvíburar, finnast alloft. Einn allra algengasti geislasteinn hér á landi. Algeng lengd nokkrir mm. Kristalgerð: trígónal. CaAl2Si4O12*6H2O

Analsím Glergljáandi margflötungar. Algeng. Nafnið er úr grísku (analkis = kraftlaus) og vísar til rafleiðnieiginleika. Algeng lengd 2–5 mm. Kristalgerð: kúbísk. NaAlSi2O6*H2O

Apófyllít Ferstrendir kristalar, stakir eða í þyrpingum. Kristalgerð: tetragónal. KFCa4Si8O20*8H2O

Gýrólít Blaðlaga, sextrendir kristalar, oftast í knippum. Sjaldgæft. Kristalgerð: mónóklín. NaCa16(Si23Al)O60(OH)5*15H2O

Háhitasteinar
Háhitasteindir myndast við ummyndun bergs nokkuð djúpt í jörðu, yfirleitt við meiri hita en 250˚C.
Hér að neðan er getið nokkura háhitasteinda sem sjá má í steinasafni okkar.

Epidótít Oftast smákristallað, græn- eða gulgræn slikja innan á holu- eða sprunguveggjum. Finnst einkum í útkulnuðum meigineldstöðvum. Kristalgerð: mónóklín. Ca2(Fe,Al)Al2Si3O12(OH)

Prehnít Smáar, hnöttóttar kristalþyrpingar. Oftast fölgrænt, en stundum hvítt eða gráleitt. Finnst í rótum megineldstöðva og á háhitasvæðum. Kristalgerð: rombísk. Ca2A12Si3O10(OH)2

Granat Flokkur steinda með breytilega efnasamsetningu. Á Íslandi finnst einkum járnríkt granat (andradít) og kalsíumríkt granat (grossular). Jafnan rauðbrúnt eða brúnt. Kristalgerð: kúbísk. Ca3Al2[SiO4]3

Aktínólít Mjög fíngerðir, þráðlaga kristalar. Oftast grænleitt, hvítt eða gráleitt. Finnst einkum í gabbrói. Kristalgerð: mónóklín. (Ca2Mg,Fe)5Si8O22(OH,F)2

Hveraútfellingar
Við hveri og laugar myndast oft fjölbreytar steindir þegar berg ummyndast, leysist upp og nýjar steindir falla út.

Kalkhrúður (lindakalk) myndast við útfellingu kalks úr kalkríku vatni (hörðu vatni) sem kolsúrt vatn hefur leyst úr bergi jarðar. Kalkhrúður er einkum algengt á ölkeldusvæðum. Oft finnast för eftir plöntur í kalkhrúðri. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Kísilhrúður finnst aðallega við vatnshveri á háhitasvæðum (> 100˚C). Hrúðrið myndast þegar kísilsýra fellur úr kólnandi yfirborðsvatni. Stundum fellur kísilhrúður á gróður og klæðir hann kísilkápu. Með tímanum rennur kísilhrúður saman og myndar þéttan ópal. Kristalgerð: myndlaus. SiO2*H2O.

Brennisteinn fellur út á gufu- og leirhverasvæðum. Hann var numinn Íslandi áður fyrr, t.d. í Krýsuvík og Mývatnssveit, og fluttur út til framleiðslu á sprengiefnum. Kristalgerð: rombísk. S

Gifs myndar hvítar, tærar eða gráleitar kirstalflögur og stundum þykkar hellur með smávöxnum kristölum. Finnst í námunda við hveri og gufuauga. Kristalgerð: mónókín. CaSO4*H2O

Hverasalt (Halókritít) Hvít eða gulleit, gljáandi skorpa og ráðlaga brúskar. Hverasalt þéttist úr hveragufu á háhitasvæðum. Mjög vatnsleysanlegt. Kristalgerð: mónóklín. FeAl2(SO4)4*22H2O

Karbónatsteinar og aðrar saltsteindir
Kalsít og aragónít er í skeljum margra lífvera, einkum meðal götunga (Foraminiferida), kóraldýra (Scleractinia) og lindýra (samlokur og sniglar). Við myndun skelja binda dýrin koltvíildi (CO2) úr hafinu en við það getur hafið dregið meira af koltvíildi til sín úr andrúmsloftinu. Karbónatsteindir eru því mjög mikilvægar fyrir lífríki hafsins og hafa áhrif á magn gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Kalsít er að formi til ein fjölbreyttasta steindin sem fyrirfinnst á jörðinni og til eru mörg þúsund afbrigði. Kristalgerð og litur eru afar mismunandi í kalsíti.
Hér að neðan eru talin upp nokkur íslensk kalsítafbrigði og má sjá þau flest í safni okkar.

Silfurberg er vatnstært og eitt frægasta íslenska kalsítafbrigðið. Í ensku máli er silfurberg kennt við Ísland (Iceland spar). Vegna ljósbrotseiginleika (tvískautun ljósgeisla) var silfurberg mikið notað áður fyrr í smásjár og fleiri tæki. Um áratugaskeið var silfurberg úr námum við Helgustaði í Reyðarfirði og Hoffellsdal í Hornafirði flutt út til framleiðslu ljóstækja. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Sykurberg Gulbrúnt kalsítafbrigði og finnst einkum í skeljum í setlögum á Tjörnesi í Norður-Þingeyjarsýslu. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Kalsít Kalsítafbrigði með þunna plötulaga kristalla sem standa óreglulega á rönd í holunni. Þetta afbrigði er algengt í fornum megineldstöðvum. Kristalgerð: trígónal. CaCO3

Aragónít þekkist á geislóttum kristölum sem kalsít hefur ekki. Geislar aragóníts eru mun grófari en hjá geislasteinum. Aragónítkristalar geta orðið meira en 10 cm á lengd. Kristalgerð: rombísk. CaCO3

Járnblóm Afbrigði af aragóníti sem líkist kórali. Smitað járni (Fe). Kristalgerð: rombísk. CaCO3

Dólómít Kalsíum–magnesíum–karbónatsteind. Yfirleitt gulleitt, skáteningslaga og hálfgegnsætt. Fágætt á Íslandi. Kristalgerð: trígónal. CaMg(CO3)2

Síderít Járnkarbónat (járnspat) með gul- eða brúnlitar smákúlur með geislóttri innri gerð. Erlendis er það þýðingarmikið járngrýti, en sjaldgæft hér á landi. Kristalgerð: trígónal. FeCO3

Flúorít (grænleitt) er fágæt steind á Íslandi. Það getur gefið frá sér ljós, flúrljómun. Kristlagerð: kúbísk. CaF2

Þungspat (Barýt) Baríumsúlfat, er afar fágætt og finnst helst í grennd við djúpbergsinnskot. Nafnið er úr grísku (barus: þungur) og er þyngdin eitt aðaleinkenni steindarinnar. Kristalgerð: rombísk. BaSO4

Steinsalt (Halít) Steind úr natríumklóríði og finnst víða þar sem sjór eða saltvatn gufar upp. Steinsalt er mikið notað í matargerð og iðnaði. Kristalgerð: kúbísk. NaCl

Kvarssteinar
Kvarssteinar eru úr hreinu kísildíoxíði (SiO2), en sum afbrigði eru blönduð aðkomuefnum sem ljá steinunum ýmsa liti. Kvars er ýmist stórkristallað, smákristallað (dulkristallað) eða ókristallað (myndlaust). Kristalgerðin er sexstrend (hexagónal) og harkan á bilinu 5,5–7. 
Hér að neðan verður getið helstu tegunda íslenskra kvartssteina og má sjá þá flesta í steinasafni okkar.

Bergkristall Stórkristallað, tært kvarsafbrigði. Oft er aðeins oddurinn tær, en kristallinn að öðru leyti hvítur eða hálfgegnsær. Kristalgerð: Hexagónal. SiO2

Ametýst Stórkristallað, fjólublátt kvarsafbrigði. Nafnið ameþystos (gríska: allsgáður) tengist notkun steinsins sem vernd gegn ofdrykkju. Ametýst er fágætur á Íslandi og mun daufari á lit en t.d. ametýstar í Brasilíu þar sem þeir eru algengir. Kristalgerð: hexagónal. SiO2

Reykkvars Stórkristallað, gulbrúnt kvarsafbrigði. Nokkuð algengt. Kristalgerð: hexagónal. SiO2

Kalsedón Algeng holufylling í basalti og rhýólíti (líparíti). Einnig kallaður draugasteinn og glerhallur. Kalsedónar eru oft litaðir aðkomuefnum og skipatst gjarnan á mislitar rendur. Nafnið er dregið af bænum Khalkedon í Grikklandi. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Ónýx Afbrigði af kalsedón með mislitum, beinum og samsíða rákum. Ónýx með gráum og hvítum rákum er nokkuð algengur á Íslandi. Nafnið er úr grísku og þýðir nögl, en rákirnar minna á þverbönd í fingurnöglum. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Agat Afbrigði af kalsedón með mislitum rákum sem fylgja oftast útlínum holuveggja. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Mosaagat Grænleitt afbrigði af agati með innlyksum af berggrænu (seladóníti) eða klóríti. Seladónít og klórít eru mjög fíngerðar leirsteindir með litla hörku (1-2,5). 

Jaspis Smákristallað kvarsfbrigði, ávallt litað aðkomuefnum, einkum járnsamböndum. Algeng holufylling í basalti og ljósgrýti. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2

Ópall Vatnsblandað kvarsafbrigði. Nafnið ópall (upala) er úr sanskrít og þýðir steinn. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2*nH2O

Á botni flestra stöðuvatna er að finna kísilgúr (barnamold) í mismunandi mæli. Kísilgúrinn er myndaður úr skeljaleifum örsmárra kísilþörunga. Í skeljunum er kísildíoxíð (SiO2) sem í rás tímans getur umbreyst í ópal.

Leirsteinar
Leir er notað bæði um hóp steinda og fínkornótta bergmylsnu. Efnasemsetning er breytileg en allar leirsteindir innihalda vatn. Leirsteindir hafa hörku á bilinu 1–3 og flestar má skafa upp með nögl. Á Íslandi myndast leir aðallega við ummyndun bergs á jarðhitasvæðum.

Klórít Græn- eða brúnleit skán og hrúður, stundum flögótt. Algengt á Íslandi. Myndast á nokkru dýpi við háan hita (> 200 ˚C). Nanfið grænjörð mun eiga við klórít, en klórít er komið úr grísku (chloros: grænn). Kristalgerð: mónóklín. 
(Fe, Mg, Al)6(Si,Al)4O10(OH)8

Seladónít (Illít) Blágrænt að lit, yfirleitt þunn skán utan á holufyllingum. Nafnið berggræna mun líklega eiga við seladónít. Algengt á Íslandi. Kristalgerð: mónóklín. K(Mg,Fe)(Al,Fe)Si4O10(OH)2)

Smektít (Montmorillonít) Ofast brún- eða grænleitt. Algengasta ummyndunarsteind á Íslandi. Verður til úr ólivíni, pýroxeni, kalsíumríku feldspati, basaltgleri og súrri ösku. Smektít er þýðingarmikil steind í jarðvegi vegna vatnsdrægni. Kristalgerð: mónóklín. 
(Na, Ca)(Al, Mg)6(Si4O10)3(OH)6*nH2O

Málmsteinar
Ísland er fátækt af málmsteindum. Hér finnast helst steindir sem eru sambönd málms og súrefnis (oxíð) og sambönd málms og brennisteins (súlfíð). Járnsteindir eru algengastar hér á landi.
Hér að neðan eru nokkur dæmi um innlendar málmsteindir. Nokkrar þeirra eru til sýnis í steinasafni okkar.

Brúnjárnsteinn (Límonít)  Járnoxíð með vatni. Brúnjárnsteinn finnst sem rauðbrún þunn lög í blágrýtismyndunum á Íslandi. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O

Mýrarauði (Límonít) Afbrigði af brúnjárnsteini. Mýrarauði finnst sem rauðleitar útfellingar í mýrum, oft á gróðri, þar sem uppleyst járnsambönd úr bergi leikur um. Mýrarauði var áður fyrr nýttur hér á landi til járnvinnslu. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O

Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Smákristallað hematít kallast rauðjárnsteinn og er afar útbreitt sem fyllefni í rauðum millilögum í blágrýtismyndun Íslands. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3

Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Stórkristallað hematít er stálgrátt eða svart og stundum með málmgljá. Hematít er helsta málmgrýtið sem notað er erlendis í járnframleiðslu. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3

Magnetít Svartir, teningslaga kristalar eða áttflötungar. Magnetít hefur sterka segulmögnun. Kristalgerð: kúbísk. Fe3O4

Brennisteinskís (Pýrít) Algengt á Íslandi, einkum í hitasoðnu bergi í fornum megineldstöðvum. Glópagull er annað nafn á brennisteinskís. Kristalgerð: kúbísk. FeS2

Koparkís (kalkóýrit) (eirkís) myndar gulleita, ferhyrnda litla köggla. Finnst jafnan saman með málmsteindunum blýglansi og zinkblendi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: tetragónal. CuFeS2
Við veðrun á koparkís gengur koparinn í samband við kolsýru lofts og myndar fagurgrænt malakít (Cu2(OH2)CO3

Blýglans (Galena) er silfurgrátt og myndar teningslaga kristalla. Ein þyngsta steindin á Íslandi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. PbS

Zinkblendi (Sphalerít) myndar brúnar, hálfgegnsæjar teningslaga flögur. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. ZnS

Molaberg

Molaberg (setberg) er samþjöppuð bergmylsna úr storkubergi. Bergmylsnan myndast vegna veðrunar og rofs þar sem áhrif hitastigs, vatns og vinda spila saman.

Molaberg
Molaberg er til í margskonar mynd og með mismunandi kornastærð. Molaberg myndar setlög og í þeim má stundum finna steingerfinga.

Fast molaberg (setberg) er oft flokkað eftir kornastærð:
Leirsteinn < 0,002 mm
Sandsteinn 0,002-2 mm
Völuberg 2-200 mm
Hnullungaberg > 200 mm 

Laust molaberg er oft flokkað eftir kornastærð:
Leir < 0,002 mm
Méla (silt) 0,002-0,02 mm
Sandur 0,02-2 mm 
Möl 2-20 mm
Hnullungamöl 2-20 cm
Hnullungar > 20 cm

Jökulruðningur, þar með talin grettistök, telst til molabergs. Í jökulruðningi ægir yfirleitt saman öllum kornastærðum. 
Jökulberg er harðnaður jökulruðingur. 
Þursaberg finnst einkum í skriðum og er bergið með hvössum eggjum.
Rauðaberg finnst sem rauð millilög í blágrýtismynduninni. Það er að mestu úr glerkenndri, samlímdri gosösku og fornum jarðvegi. Liturinn stafar af útfellingu járns í súrum jarðvegi þegar hraun lagðist yfir hann. 


Steingerfingar
Í fíngerðu molabergi finnast stundum steingervingar. Þeir eru leifar gróðurs eða dýra sem varðveist hafa í jarðlögum. Þegar lífverur steingerast á sér stað efnafræðileg umbreyting og ólífræn efni koma í stað lífrænna efna.

Surtarbrandur eru steingerðar (kolaðar), samanpressaðar gróðurleifar með talsvert miklu magni af kolefni (um 70% C). Þunn surtarbrandslög, blönduð ösku, finnast víða í elsta hluta blágrýtismyndunar Íslands. Rannsóknir benda til að surtarbrandurinn sé elstur um 20 milljón ára, eða álíka gamall og elsta berg á Íslandi. Aldurinn á hvoru tveggja gæti þó verið eitthvað meiri, en erfitt er að aldursgreina íslenskt berg. 

Viðarbrandur er afbrigði surtarbrands úr koluðum, útflöttum trjábol. Í viðarbrandi má vel greina árhringi.

Viðarsteinn er steinrunninn viður þar sem kísildíoxíð (kísilsýra, SiO2), hefur komið í stað lífræns efnis. Árhringir eru oft auðgreinanlegir.

Af dýrasteingervingum er lítið á Íslandi, sér í lagi af landdýrum. Helst er að finna steingerð sjávardýr, langmest skeljar lindýra, en eins og víðast hvar annarsstaðar hafa þær varðveist best meðal dýra.

Af gróðurleifum í surtarbrandi má ráða að flóra Íslands í árdaga á tertíertímabilinu var ekki ólík því sem nú er í laufskógabelti í austanverðum Bandaríkjunum.
Helstu trjáplöntur sem bæði er að finna í íslenskum surtarbrandslögum og í austanverðum Bandaríkjunum:

LAUFTRÉ 
Elrir 
Beyki 
Hlynur 
Eik 
Álmur 
Kastaníutré
Platantré
Heslirunnar
Kristsþyrnir
Valhnota 
Túlípanatré
Magnolía
Lárviður
Hickory

BARRTRÉ
Fenjatré
Risafura
Fura
Þinur
Lerki

Rhyolít

Rhyolit er dulkornótt eða glerkennt súrt gosberg (>65% SiO2), oft ljóst að lit. Það er oft straumflögótt með mislitum röndum. Það finnst um allt land en minnst þó á vestfjörðum. Helstu frumsteindir í ljósgrýti: Kvars, ortóklas, plagíóklas og glimmer (vatnsblönduð kalí-ál-siliköt). Af ljósgrýti eru til nokkur afbrigði.

Ljósgrýti
„Hefðbundið“ líparít, sem myndar áberandi ljósar skellur í fjöllum. Er oft gult, grátt eða rauðleitt. Líparítkvika er seig og hleðst upp yfir gosopinu.

Hrafntinna
Hrafntinna mydast við snögga kælingu líparítkviku. Hun er glerkennd, kolsvört og klofnar gjarna í flísar með hvössum eggjum. Þekktustu hrafntinnusvæðin eru við Torfajökul og austan Mývatns.

Biksteinn
Biksteinn myndast við snögga kælingu líparítkviku eins og hrafntinna, en er frábrugðin henni að því leiti að hann er fitugljáandi, vatnsríkari og líkist frekar kolamolum. Hann er yfirleitt svartur, en stundum græn- eða móleitur. Hann er algengur í líparíthraunum.

 

Perlusteinn
Þetta er vatnsríkt afbrigði af líparíti. Það hefur myndast við gos í vatni eða undir jökli. Nafnið er til komið af því að við veðrum brotnar hann niður í perlulaga kúlur. Þegar perlusteinn er hitaður þenst hann út og hefur þannig verið notaður til einangrunar. Mikið er af perlusteini í Loðmundarfirði og í Prestahnúk við Kaldadal.

Baggalútar
Litlar kúlur sem stundum eru samvaxnar, oft 0,5-2 cm. Þeir eru oftast rauðbrúnir eða gráleitir. Baggalútar myndast þegar nálar af kvartsi og feldspati vaxa inn í gasbólur sem orðið hafa innligsa í kvikunni. Séu þeir brotnir sjást oft sammiðja hringir. Þeir eru harðari en bergið umhverfis og verða þvi eftir þegar það veðrast. Þeir finnast helst í skriðum og á áreyrum, t.d. í Hvalfirði og Borgarfirði eystra.

Ljós vikur
Þessi vikur er mjög frauðkenndur og léttur í sér og getur flotið lengi á vatni. Hann myndast við hraðstorknun líparítkviku í öflugum þeytigosum. Ljós vikur hefur m.a. komið frá Heklu, Snæfellsjökli, Öræfajökli og Öskju.

Flikruberg
Flikruberg myndast þegar svokölluð eldský eða freyðigos, setjast til. Þessi eldský eru samsett af brennheitu gasi, kvikuögnum, vikri og bergmylsnu og mynda n.k. öskuflóð, sem renna niður fjallshlíðarnar. Þegar þau stöðvast þrýstist gasið úr þeim og fasta efnið pressast saman. Flikrurnar sem bergið er kennt við eru útflattar vikurklessur. Flikruberg getur verið misjafnt að útliti og einnig misfast í sér.

Helstu heimildir:

Jarðfræði. Höf: Þorleifur Einarsson. Útg. Mál og menning 1985.
Íslenska steinabókin. Höf: Kristján Sæmundsson, Einar Gunnlaugsson og Grétar Eríksson. Útg. Mál og menning 1999.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner