Kalsít Kalsítafbrigði með þunna plötulaga kristalla sem standa óreglulega á rönd í holunni. Þetta afbrigði er algengt í fornum megineldstöðvum. Kristalgerð: trígónal. CaCO3
Aragónít þekkist á geislóttum kristölum sem kalsít hefur ekki. Geislar aragóníts eru mun grófari en hjá geislasteinum. Aragónítkristalar geta orðið meira en 10 cm á lengd. Kristalgerð: rombísk. CaCO3
Járnblóm Afbrigði af aragóníti sem líkist kórali. Smitað járni (Fe). Kristalgerð: rombísk. CaCO3
Dólómít Kalsíum–magnesíum–karbónatsteind. Yfirleitt gulleitt, skáteningslaga og hálfgegnsætt. Fágætt á Íslandi. Kristalgerð: trígónal. CaMg(CO3)2
Síderít Járnkarbónat (járnspat) með gul- eða brúnlitar smákúlur með geislóttri innri gerð. Erlendis er það þýðingarmikið járngrýti, en sjaldgæft hér á landi. Kristalgerð: trígónal. FeCO3
Flúorít (grænleitt) er fágæt steind á Íslandi. Það getur gefið frá sér ljós, flúrljómun. Kristlagerð: kúbísk. CaF2
Þungspat (Barýt) Baríumsúlfat, er afar fágætt og finnst helst í grennd við djúpbergsinnskot. Nafnið er úr grísku (barus: þungur) og er þyngdin eitt aðaleinkenni steindarinnar. Kristalgerð: rombísk. BaSO4
Steinsalt (Halít) Steind úr natríumklóríði og finnst víða þar sem sjór eða saltvatn gufar upp. Steinsalt er mikið notað í matargerð og iðnaði. Kristalgerð: kúbísk. NaCl
Kvarssteinar
Kvarssteinar eru úr hreinu kísildíoxíði (SiO2), en sum afbrigði eru blönduð aðkomuefnum sem ljá steinunum ýmsa liti. Kvars er ýmist stórkristallað, smákristallað (dulkristallað) eða ókristallað (myndlaust). Kristalgerðin er sexstrend (hexagónal) og harkan á bilinu 5,5–7.
Hér að neðan verður getið helstu tegunda íslenskra kvartssteina og má sjá þá flesta í steinasafni okkar.
Bergkristall Stórkristallað, tært kvarsafbrigði. Oft er aðeins oddurinn tær, en kristallinn að öðru leyti hvítur eða hálfgegnsær. Kristalgerð: Hexagónal. SiO2
Ametýst Stórkristallað, fjólublátt kvarsafbrigði. Nafnið ameþystos (gríska: allsgáður) tengist notkun steinsins sem vernd gegn ofdrykkju. Ametýst er fágætur á Íslandi og mun daufari á lit en t.d. ametýstar í Brasilíu þar sem þeir eru algengir. Kristalgerð: hexagónal. SiO2
Reykkvars Stórkristallað, gulbrúnt kvarsafbrigði. Nokkuð algengt. Kristalgerð: hexagónal. SiO2
Kalsedón Algeng holufylling í basalti og rhýólíti (líparíti). Einnig kallaður draugasteinn og glerhallur. Kalsedónar eru oft litaðir aðkomuefnum og skipatst gjarnan á mislitar rendur. Nafnið er dregið af bænum Khalkedon í Grikklandi. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2
Ónýx Afbrigði af kalsedón með mislitum, beinum og samsíða rákum. Ónýx með gráum og hvítum rákum er nokkuð algengur á Íslandi. Nafnið er úr grísku og þýðir nögl, en rákirnar minna á þverbönd í fingurnöglum. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2
Agat Afbrigði af kalsedón með mislitum rákum sem fylgja oftast útlínum holuveggja. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2
Mosaagat Grænleitt afbrigði af agati með innlyksum af berggrænu (seladóníti) eða klóríti. Seladónít og klórít eru mjög fíngerðar leirsteindir með litla hörku (1-2,5).
Jaspis Smákristallað kvarsfbrigði, ávallt litað aðkomuefnum, einkum járnsamböndum. Algeng holufylling í basalti og ljósgrýti. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2
Ópall Vatnsblandað kvarsafbrigði. Nafnið ópall (upala) er úr sanskrít og þýðir steinn. Kristalgerð: nær myndlaus. SiO2*nH2O
Á botni flestra stöðuvatna er að finna kísilgúr (barnamold) í mismunandi mæli. Kísilgúrinn er myndaður úr skeljaleifum örsmárra kísilþörunga. Í skeljunum er kísildíoxíð (SiO2) sem í rás tímans getur umbreyst í ópal.
Leirsteinar
Leir er notað bæði um hóp steinda og fínkornótta bergmylsnu. Efnasemsetning er breytileg en allar leirsteindir innihalda vatn. Leirsteindir hafa hörku á bilinu 1–3 og flestar má skafa upp með nögl. Á Íslandi myndast leir aðallega við ummyndun bergs á jarðhitasvæðum.
Klórít Græn- eða brúnleit skán og hrúður, stundum flögótt. Algengt á Íslandi. Myndast á nokkru dýpi við háan hita (> 200 ˚C). Nanfið grænjörð mun eiga við klórít, en klórít er komið úr grísku (chloros: grænn). Kristalgerð: mónóklín.
(Fe, Mg, Al)6(Si,Al)4O10(OH)8
Seladónít (Illít) Blágrænt að lit, yfirleitt þunn skán utan á holufyllingum. Nafnið berggræna mun líklega eiga við seladónít. Algengt á Íslandi. Kristalgerð: mónóklín. K(Mg,Fe)(Al,Fe)Si4O10(OH)2)
Smektít (Montmorillonít) Ofast brún- eða grænleitt. Algengasta ummyndunarsteind á Íslandi. Verður til úr ólivíni, pýroxeni, kalsíumríku feldspati, basaltgleri og súrri ösku. Smektít er þýðingarmikil steind í jarðvegi vegna vatnsdrægni. Kristalgerð: mónóklín.
(Na, Ca)(Al, Mg)6(Si4O10)3(OH)6*nH2O
Málmsteinar
Ísland er fátækt af málmsteindum. Hér finnast helst steindir sem eru sambönd málms og súrefnis (oxíð) og sambönd málms og brennisteins (súlfíð). Járnsteindir eru algengastar hér á landi.
Hér að neðan eru nokkur dæmi um innlendar málmsteindir. Nokkrar þeirra eru til sýnis í steinasafni okkar.
Brúnjárnsteinn (Límonít) Járnoxíð með vatni. Brúnjárnsteinn finnst sem rauðbrún þunn lög í blágrýtismyndunum á Íslandi. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O
Mýrarauði (Límonít) Afbrigði af brúnjárnsteini. Mýrarauði finnst sem rauðleitar útfellingar í mýrum, oft á gróðri, þar sem uppleyst járnsambönd úr bergi leikur um. Mýrarauði var áður fyrr nýttur hér á landi til járnvinnslu. Kristalgerð: nær myndlaus. FeO(OH)*nH2O
Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Smákristallað hematít kallast rauðjárnsteinn og er afar útbreitt sem fyllefni í rauðum millilögum í blágrýtismyndun Íslands. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3
Járnglans (Hematít) Járnoxíð án vatns. Stórkristallað hematít er stálgrátt eða svart og stundum með málmgljá. Hematít er helsta málmgrýtið sem notað er erlendis í járnframleiðslu. Kristalgerð: trígónal. Fe2O3
Magnetít Svartir, teningslaga kristalar eða áttflötungar. Magnetít hefur sterka segulmögnun. Kristalgerð: kúbísk. Fe3O4
Brennisteinskís (Pýrít) Algengt á Íslandi, einkum í hitasoðnu bergi í fornum megineldstöðvum. Glópagull er annað nafn á brennisteinskís. Kristalgerð: kúbísk. FeS2
Koparkís (kalkóýrit) (eirkís) myndar gulleita, ferhyrnda litla köggla. Finnst jafnan saman með málmsteindunum blýglansi og zinkblendi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: tetragónal. CuFeS2
Við veðrun á koparkís gengur koparinn í samband við kolsýru lofts og myndar fagurgrænt malakít (Cu2(OH2)CO3)
Blýglans (Galena) er silfurgrátt og myndar teningslaga kristalla. Ein þyngsta steindin á Íslandi. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. PbS
Zinkblendi (Sphalerít) myndar brúnar, hálfgegnsæjar teningslaga flögur. Myndast úr kvikuvessum. Kristalgerð: kúbísk. ZnS