Fuglar

ungi með húfu.JPGFuglar eru áberandi í safnkosti Náttúrufræðistofunnar og eru til sýnis yfir 60 tegundir fugla, þar af 11 andartegundir af báðum kynjum, ásamt helstu upplýsingum um fuglana, s.s. stofnstærðir og farleiðir. Hér að neðan er listi yfir helstu fuglahópa sem sjá má í sýningarsal okkar. Undir hverjum hóp má svo finna upplýsingar um helstu tegundir.

Brúsar
Stórir vatnafuglar, með stutta vængi og djúpsyndir. Fara afar sjaldan á land nema til að verpa. Eru fiski- og skordýraætur.
Af brúsum eru til 5 tegundir í heiminum og verpa 2 tegundir á Íslandi.

Endur
Um 100 andategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa óvenjumargar tegundir, alls 17, og ad auki hafa sést 16 tegundir. Karlfuglar, steggir, eru flestir litskrúdugir, en kvenfuglar, kollur, ofast brúnlitar. Buslendur ná í æti á vatnsbordi eda standa á haus og teygja sig eftir í æti á botni. Kafendur og fiskiendur kafa eftir æti.

Gæsir
Gæsir eru hóphneigðir fuglar, fljúgja oddaflug og skvaldra mikið á flugi. Þær eru að mestu jurtaætur og lifa á villtum jurtum auk þess að nýta sér túnrækt. Um 25 gæsategundir eru til í heiminum. Á Íslandi verpa 3 tegundir og að auki hafa sést 6 tegundir.

Hænsnfuglar
Hænsnfuglaættbálkurinn er mjög fjölbreyttur. Hænsnfuglar eru búkmiklir landfuglar, með stutta vængi, hraðfleygir en fljúga stutt í einu. Rúmlega 300 tegundir eru til í heiminum en aðeins 12 tegundir verpa í Evrópu og á Íslandi lifir 1 tegund, rjúpan.

Kjóar og skúmar
Kjóar og skúmar tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og eru aðeins 8 tegundir til í heiminum. Á Íslandi verpa kjói og skúmur, en fjallkjói og ískjói eru fargestir. Þessir fuglar eru þekktir fyrir mikla flugfimi enda lifa þeir töluvert á því að elta aðra fugla uppi og ræna þá ætinu.

Máfar
Máfar eru af sama ættbálki og kjóar og þernur. Þeir teljast til strandfugla (Charadriiformes). Þessir fuglar lifa einna helst á fiski en éta einnig skordýr, fuglsunga, egg og úrgang. Goggur þeirra er sterklegur með boginn krók á endanum. Karlfuglinn er yfirleitt stærri en kvenfuglinn en að öðru leiti eru bæði kynin eins í útliti.

Pípunefir
Á Íslandi eru tvær ættir af þessum ættbálki, fýlingaætt (Procellariidae) og sæsvölur (Hydrobatidae). Þetta eru meðalstórir og litlir sjófuglar, með nasaholur sem opnast ofan á nefinu og mynda pípu. Þeir spúa lýsi og fæðuleifum til að bægja frá hættu. Af fýlingum og sæsvölum eru til um 120 tegundir í heiminum og verpa 4 þeirra á Íslandi. Að auki eru 2 tegundir (gráskrofa og hettuskrofa)reglulegir sumargestir.

Ránfuglar
Helstu einkenni ránfugla eru hvasst og krókbogið nef, sterkar og hvassar klær og mjög skörp sjón. Til eru hátt í 300 tegundir af 5 ættum. Á íslandi verpa 3 tegundir af 2 ættum.

Súlur og skarfar
Pelíkanaættbálkur. Af þessum ættbálki eru 3 tegundir á Íslandi og tilheyra þær súluætt (Sulidae) og skarfaætt (Phalacrocoraacidae). Í Evrópu hefur sést til alls 14 tegunda af þessum tveimur ættum. Þetta eru stórir sjófuglar, með sundfit milli allra fjögurra táa, fiskiætur og verpa á skerjum og klettum.

Vaðfuglar
Vaðfuglar tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes). Á Íslandi verpa 11–13 tegundir vaðfugla reglulega og tilheyra þeir þremur ættum, tjaldaætt, lóuætt og snípuætt. Vaðfuglar eru yfirleitt langnefjaðir, háfættir og annað hvort með vaðfætur eða sundblöðkur. Ofast eru eggin fjögur og ungar klekjast vel þroskaðir úr þeim.

Íslenskar vefsíður með fuglaefni:
Fuglar.is
The Icelandic Birding Pages

Helstu heimildir:
The encyclopaedia of birds. Ritstj. Christopher M. Perris og Alex L. A. Middleton. Útg. George Allen & Unwin, London 1985.
Fuglar í náttúru Íslands. Höf: Guðmundur Páll Ólafsson. Útg. Mál og menning 1987
Íslenskir fuglar. Höf: Ævar Petersen og Jón Baldur Hlíðberg. Útg. Vaka-Helgafell hf. 1998.