Stór samstarfsverkefni

Undir þennan flokk falla verkefni þar sem Náttúrufræðistofan vinnur með fleiri rannsóknastofnunum að umfangsmiklum verkefnum. Afurðir þessara verkefna geta ýmist verið á formi lokaskýrslu, gagnagrunns eða verfsjár. 

Dæmi um verkefni af þessu tagi eru verkefnin Yfirlitskönnun á lífríki íslenskar vatna: Samræmdur gagnagrunnur og Natura Ísland. Bæði þessi verkefni gengu út á gagnaöflun á landsvísu þar sem beitt var fyrirfram ákveðinni og samræmdri aðferðafræði. Hvort verkefni um sig tók til yfir 70 stöðuvatna og þótt vekefnunum sem slíkum sé lokið mun úrvinnsla þeirra gagna sem safnað var halda áfram á næstu árum. Jafnframt mun gagnaöflun í framtíðinni óhjákvæmilega miðast við þær aðferðir sem beitt var í þessum verkefnum, því stöðlun aðferða er forsenda þess að niðurstöður mismunandi rannsóknarverkefna séu sambærilegar.

Þau gögn sem safnast í verkefnum sem þessum mynda oft grunn að námsverkefnum til meistara eða doktorsgráðu og hefur vatnaverkefnið skilað þó nokkrum slíkum námsverkefnum.

Hér að neðan má fræðast um fáein stór samstarfsverkefni þar sem Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur verið meðal þátttakanda.

Natura Ísland

Yfirlitskönnun á lífríki íslenskra vatna: Samræmdur gagnagrunnur (vatnaverkefnið)

Vatnalífríki á virkjanaslóð

Euro-Limpacs

NORLAKE

Námsverkefni: Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur í gegn um tíðina komið að fjölda smárra og stórra námsverkefna með beinum og óbeinum hætti. Hér að neðan eru dæmi um námsverkefni sem byggja á ofangreindum verkefnum.

Íslenska rykmýsfánan: fjölbreytileiki og útbreiðsla
Samkvæmt nýrri samantekt á rykmýsfánu landsins eru tegundirnar nú 80 talsins. Þessar upplýsingar er að finna í mastersritgerð Þóru Hrafnsdóttur, sem hefur verið send til birtingar í ritröðinni The Zoology of Iceland. Fullvíst má telja að fleiri tegundir komi í ljós á næstu árum með auknum rannsóknum.

Rykmý í fjöruvist íslenskra stöðuvatna
Rannsóknarverkefni Erlín E. Jóhannsdóttir til MS gráðu við Háskóla Íslands.