þú breyttir mér óvart í vetur
og hélst ég væri planta (og sól og ský)
sem vökvaði sjálfa sig með snjó
og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold
og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana
að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári
ég ferðast þaðan á hraða úlfalda
því annars verður sálin eftir segja arabar
í eyðimörk skyrtu þinnar
(sem minnir á handklæði)
er ég týnd í sveit milli sanda
of nálægt
til að geta aðskilið
jörð og skinn
svo ég skauta bara hér
þar til vorar
– Hvaðan utan af landi ertu?
spurði fisksalinn
það var eitt og hálft kíló af hrognum
á milli okkar
og sambandið ekki alveg augljóst
en víst að ég þekkti
innyfli frá dauðyfli
og svarið sendi hugann yfir fjörð
með nokkur forskeyti
í
við
á
úr
frá
en ég deildi ekki um það
– sem sagt ekki í hundraðogeinum í uppeldinu
bætti hann við
og ég sem fagnaði ung og oft
í hundraðogeinum
mundi ekki hvar uppeldið endaði:
– nei
– þá viltu víst lifur?
sagði hann
og hrærði í fatinu
en ég datt inn
í póstnúmer pempíunnar:
– nei takk, það gerir brjóstsviðinn,
skilurðu
hann þerraði fituga höndina
og var létt:
– þetta er heldur ekki mannamatur
hún er full af ormum og ógeði, lifrin
með áhyggjur af hlýnun sjávar
úrkynjun og ormaveitum
og afgreiðslumanni í fiskverslun
sem var of hreinskilinn fyrir starfið
gleymdi ég að spyrja:
– hvaðan utan af landi ertu?
aspir
sprautaðar í jarðveginn
eins og bráðabólusetning við bílastæðum
þú sparkar fótunum á undan þér
Í gluggum er myrkur en út um hvern einasta
horfirðu á sjálfa þig á götunni
höfuðið liggur á hettunni
stöku fallbeying hrýtur af vörum
af og til líturðu um öxl
á gönguslóðann og aspirnar
gleymir fallbeygingunum
raular textabút úr Smiths lagi
agnið er úti
en hér er enginn, um engan, frá engum
til einskis.
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig til að fá fréttabréf um viðburði, fréttir og menningu í Kópavogi.
OPNUNARTÍMI
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17