Bæjarlistamaður Kópavogs 2021

Sunna Gunnlaugsdóttir

Tónlistarkona

Sunna Gunnlaugsdóttir jazzpíanisti hefur hvarvetna hlotið mikið lof fyrir tónlist sína allt frá því fyrsta plata hennar Mindful var valin á meðal 10 bestu diska ársins af blaðinu Virginian Pilot árið 2000. Hún hefur haldið tónleika um víða veröld og komið fram á mörgum af helstu jazztónlistarhátíðum heims.

Sunna hefur sent frá sér 11 geisladiska sem hafa hlotið frábærar viðtökur hér heima og erlendis og náð inn í efstu sæti vinsældalista á jazzútvarpsstöðvum í Bandaríkjunum og Kanada.  Sunna hefur hlotið fjölda tilnefninga til Íslensku tónlistarverðlaunanna og var valin flytjandi ársins 2015 og 2019. Tríó hennar með Þorgrími Jónssyni á kontrabassa og Scott McLemore á trommur, sem hefur notið mikillar hylli, var Tónlistarhópur Reykjavíkur 2013 og á meðal fulltrúa Íslands á Nordic Cool hátíðinni í Kennedy Center í Bandaríkjunum.

Sunna er fædd 1970 í Reykjavík en er stoltur Kópavogsbúi í dag. Hún hefur margoft komið fram í Salnum í Kópavogi og er stofnandi tónlistarhátíðarinnar Jazz í Salnum. Hún nam jazzpíanóleik við Tónlistarskóla FÍH, William Paterson College í New Jersey og Pratt University í New York þaðan sem hún lauk mastersprófi. Sunna sat í stjórn Jazzhátíðar Reykjavíkur í fimm ár og situr í stjórn Europe Jazz Network.

Sunna Gunnlaugsdóttir sagði af þessu tilefni: „Það er varla hægt að koma í orð hversu mikil hvatning þessi viðurkenning frá Kópavogsbæ er á þessum undarlegu tímum. Það er skrítið að vera listamaður á tíma þegar ekkert má og oft erfitt að finna innblásturinn til að skella sér í skapandi verkefni. Ég fann fyrir ótrúlegu þakklæti við þessar fréttir og það er ómetanlegt að finna það að aðrir hafi kunnað að meta mitt framlag undanfarin ár. Ég hlakka mjög til að starfa að nýju verkefni sérstaklega hannað fyrir Kópavogsbúa. Takk innilega fyrir viðurkenninguna.“

Consent Management Platform by Real Cookie Banner