Fræðsla

Fræðsla til handa almenningi og skólaæsku er eitt af aðalhlutverkum Náttúrufræðistofu Kópavogs og er skýrt kveðið á um það hlutverk í stofnskrá stofunnar. Fræðsluhlutverkinu er fyrst og fremst sinnt með sýningarhaldi á náttúrugripum í eigu stofunnar auk gripa sem fengnir hafa verið að láni. Grunnsýning safnsins er í allföstum skorðum en til viðbótar eru af og til settar upp litlar sérsýningar þar sem áhersla er lögð á afmörkuð viðfangsefni.

Stærstur hluti gesta er skólafólk af öllum skólastigum og þótt kópavogsbúar séu þar í meirihluta sækja hingað skólahópar af öllu höfuðborgarsvæðinu auk hópa utan af landi. Einnig hefur verið nokkuð um að erlendir skólahópar hafa komið í heimsókn. Þá sækir töluverður fjöldi erlendra ferðamanna safnið heim.

Starfsfólk stofunnar sinnir leiðsögn um safnið sé þess óskað og reynir af fremsta megni að aðlaga leiðsögn að aldri, áherslusviði og tungumáli gesta. Leiðsögn er hluti af  þjónustu safnsins og er ókeypis.

Auk hefðbundins sýningarhalds hefur verið boðið upp á sérstakar bekkjaheimsóknir fyrir skóla og kynningarfundi fyrir almenning þar sem afmörkuð viðfangsefni eru tekin fyrir. Þessir viðburðir hafa gjarna verið í samvinnu við aðrar menningarstofnanir á svæðinu s.s. Bókasafn Kópavogs og Gerðarsafn.  

Náttúrufræðistofan hefur um langt árabil boðið upp á sumarnámskeið fyrir 10-12 ára krakka. Námskeiðið gengur út á að kynna krökkunum vísindaleg vinnubrögð með því að fara út í náttúruna og afla þar efniviðar sem svo er unnið úr á rannsóknastofu. 

Loks má svo nefna viðburði á borð við Safnanótt, en þar gefst tækifæri til að ná til mikils fjölda gesta á öllum aldri.