Safnið
Náttúrufræðistofa Kópavogs er til húsa í Hamraborg 6a, í sama húsi og bókasafnið og deilir þar rými með barnabókadeildinni. Safnið er opið alla virka daga frá kl 08 til 18:00. Á laugardögum er opið frá 11 til 17 en lokað er á sunnudögum. Aðgangur er ókeypis og eru öll áhugasöm hjartanlega velkomin.

Náttúrufræðistofa Kópavogs var opnuð í desember 1983. Hlutverk Náttúrufræðistofunnar er að safna, varðveita og sýna náttúrugripi, efla náttúru- og umhverfisvitund og efla fræðslu til barna og ungmenna um náttúruvísindi. Kópavogsbær leggur áherslu á víðtækt samstarf við bæjarbúa, svið og deildirbæjarins og lista-, fræði- og vísindamenn úr ólíkum áttum.

Tilurð

Tilurð Náttúrufræðistofu Kópavogs má rekja til kaupa Kópavogsbæjar á skeldýrasafni Jóns Bogasonar. Hann hafði um langt skeið safnað skeldýrum meðfram störfum sínum sem rannsóknamaður hjá Hafrannsóknastofnun. Er þetta skeldýrasafn einn kjarni í náttúrugripasafni Náttúrufræðistofunnar. Á tímum Árna Waag myndaðist einnig töluvert fuglasafn og á síðustu árum hefur einnig orðið til gott safn af berg- og steintegundum. Frá upphafi hefur Kópavogsbær staðið að rekstri stofunnar en hún hefur einnig aflað verulegra sértekna með útseldum verkefnum.

Flutningur

Í maí 2002 fluttist Náttúrufræðistofa Kópavogs í nýbyggt safnahús að Hamraborg 6a og deilir því með Bókasafni Kópavogs. Húsið er sambyggt Salnum í Kópavogi, við hlið Gerðarsafns. Staðsetningin er sérlega góð m.t.t. almenningssamgangna, en aðeins eru fáein skref að skiptistöðinni við Hamraborg. 

Húsnæði Náttúrufræðistofunnar er hið fyrsta á landinu sem er hannað frá grunni fyrir náttúrufræðisafn og gerbreytti sýningaraðstöðu á safnmunum og stórbætti möguleika á allri þjónustu.

Starfsemi

Hér áður fyrr voru rannsóknir stór hluti af starfsemi Náttúrufræðistofunnar, einkum á sviði vatnavistfræði. Verkefnin hafa verið af öllum stærðum, stundum í samvinnu við aðrar rannsóknarstofnanir bæði innanlands og utan. Sum verkefni hafa verið unnin fyrir eigin reikning en önnur hafa hlotið styrki s.s. frá Rannís, ESB og Norrænu ráðherranefndinni. Einnig hefur verið nokkuð um útseld verkefni m.a. í tengslum við vatnaflokkun, mat á umhverfisáhrifum og skipulagsmál sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Ný sýning

Í maí 2024 var ný og stórlega endurbætt sýning opnuð í safninu undir heitinu Brot úr ævi Jarðar. Í dag hverfist starfsemi Náttúrufræðistofu Kópavogs því um metnaðarfulla fræðslu til barna og ungmenna. Skólahópar og auðvitað allir aðrir eru hjartanlega velkomin í heimsókn.