Jón Bogason | Ágrip

Jón Bogason og Náttúrufræðistofa Kópavogs tengjast sterkum böndum. Náttúrufræðistofa Kópavogs er reist á einkasafni Jóns á skeldýrum og öðrum sjávarhryggleysingjum sem Kópavogsbær keypti af honum árið 1976. Við það tækifæri var Jón jafnframt ráðinn í hálft starf til að sinna safninu og stunda frekari rannsóknir og söfnun á náttúrugripum. Jón gegndi störfum við safnið fram til 1986, þegar hann hætti, þá í 75% stöðu. Um tíma starfaði Jón einnig sem rannsóknarmaður á Hafrannsóknastofnuninni.

jbkrabbi.jpg

Aðdraganda að stofnun Náttúrufræðistofu Kópavogs má rekja til 1970 þegar athygli bæjaryfirvalda í Kópavogi var vakin á því hvílíka gersemi var að finna á heimili Jóns að Nýbýlavegi 12, en þar var safnið til húsa. Þá var safnið þegar orðið það umfangsmikið að annað hvort varð að flytja út; Jón og fjölskylda eða skeljasafnið! Utankomandi aðilar höfðu þá þegar gert tilboð í safnið en Jón veitti Kópavogsbæ forkaupsrétt, sem bærinn nýtti sér og greiddi kr. 3.000.000 fyrir. Þetta var árið 1976.

Lindýrasafn Jóns er mjög stórt, eitt hið stærsta hér á landi. Margar tegundir eru afar sjaldgæfar og sumar tegundir hafa ekki fundist hér við land áður. Uppistaðan í safninu eru sæsamlokur (skeljar) og sæsniglar (kuðungar) og er bæði um íslensk og erlend eintök að ræða. Auk þess er safnið ágætlega búið af smokkdýrum, kröbbum og skrápdýrum (ígulkerjum, krossfiskum o.fl. dýrum) og koma þau öll frá Íslandsmiðum. Safni Jóns má skipta í 5 hluta: 1) Sýningarsafn íslenskra tegunda; 2) Sýningarsafn erlendra tegunda; 3) Safn íslenskra blautsýna; 4) Safn smásærra, íslenskra hryggleysingja og; 5) Skrár um fundarstaði og útbreiðslu. Í safni Jóns er 91 tegund af íslenskum samlokum úr sjó (2 teg. nýuppgötvaðar), 119 tegundir íslenskra sæsnigla með skel (5 teg. nýuppgötvaðar), 75 tegundir af íslenskum skellausum sæsniglum (baktálknum), 15 tegundir af land- og vatnakuðungum og um 650 tegundir af erlendum skeldýrum.

kudungur1.jpg

Safn Jóns er ekki aðeins ríkt af tegundum. Afar mikilvægar upplýsingar um dýrin byggjast á vísindalegum vinnubrögðum sem Jón viðhafði við skráningu, greiningu og frágang á eintökunum sem hann safnaði. Jón færði nákvæmlega til bókar hvar tegundir fundust, hvenær og á hvaða dýpi. Hann greindi eintök til tegunda af miklu öryggi, teiknaði dýrin upp og merkti fundarstaðina inn á Íslandskort. Teikningar Jóns eru sérlega vel gerðar og prýða nokkrar þeirra þessa síðu. Sjaldgæft að saman fari jafn drátthagur maður og góður náttúrufræðingur.

Vinnubrögð af því tagi sem Jón tileinkaði sér eiga menn helst von á hjá einstaka, sprenglærðum háskólamönnum, en Jón stendur þeim mörgum framar. Þetta er þeim mun athyglisverðara þar eð Jón naut hvorki langskólamenntunar né sérstakrar menntunar í líffræði. Hann var sjálfmenntaður í náttúrufræðum og hlaut verðleikana í vöggugjöf og nýtti sér þá, sjálfum sér, Kópavogsbúum og þjóðinni allri til gagns og gamans. Jón fæddist 9. apríl 1923 í Flatey á Breiðafirði og byrjaði ungur að grúska í fjöru og sanka að sér smálegum hlutum.

Gildi safnsins sem Jón byggði upp er margvíslegt. Það sem almenningur heillast mest af eru hin fjölbreytilegu form og litir sjávardýranna. Þessi þáttur, sem gleður augað og svalar eðlislægri forvitni, er tvímælalaust mjög mikilvægur í starfsemi Náttúrufræðistofunnar, einkum meðal barna sem heimsækja stofuna. Eldri nemar í myndlistarskólum koma einnig reglulega á safnið og glíma við náttúruformin.

Í vísindalegu tilliti má skilgreina safn Jóns og starf hans sem grunnrannsókn í sjávarlíffræði. Safn Jóns veitir gott yfirlit yfir landfræðilega útbreiðslu nær allra íslenskra samloka og snigla og einnig er að finna mikilsverðar upplýsingar um dýpi og á hvers lags undirlagi dýrin þrífast. Upplýsingarnar í safni Jóns eru mikilvægt innlegg í þá heildstæðu mynd af vistfræði íslenskra hafsvæða sem vísindamenn hafa verið að byggja upp á síðari hluta þessarar aldar. Sjávarútvegur er eitt helsta fjöregg þjóðarinnar og sú auðlind verður ekki skynsamlega nýtt nema til komi þekking á öllu lífríkinu.

kudungur2.jpg

Segja má að grunnrannsóknir Jóns hafi farið fram 20 árum á undan samtímanum. Í hinum alþjóðlega vísindaheimi í dag ber sífellt meira á hvers kyns samstarfi vísindamanna í umfangsmiklum yfirlitskönnunum. Gott dæmi um þetta er fjölþjóðlega rannsóknaverkefnið „Botndýr á Íslandsmiðum“, sem Íslendingar taka snaran þátt í. Meginmarkmið verkefnisins er að rannsaka hvaða botndýrategundir lifa innan efnahagslögsögunnar, skrá útbreiðslu þeirra, magn og tengsl þeirra við aðrar sjávarlífverur. Hvatinn að þessu yfirgripsmikla verkefni er sú nauðsyn í nútímaþjóðfélagi, að byggja nýtingu náttúruauðlinda á traustum þekkingargrunni og í anda sjálfbærrar þróunar. Hið fjölþjóðlega botndýraverkefni er skiljanlega mun ítarlegra en verk Jóns og rannsóknargögn. Engu að síður má líkja þessu tvennu saman þar sem markmið beggja eru í grundvallaratriðum hin sömu. Með ótrúlegri eljusemi safnaði Jón viðamiklum gögnum um íslensk lindýr á miðunum umhverfis allt landið á tveggja til þriggja áratuga skeiði.

Jón, sem stóð meira eða minna einn og óstuddur við söfnun dýranna, og stundum litinn hornauga við þá iðju, hafði tímann með sér, öfugt við hraðann og streituna sem oft hrjáir vísindastarf í dag. Framtak Jóns sannar enn og aftur það sem gjarnan er haft um grunnrannsóknir og vísindastarf almennt, þ.e.a.s. að hagnýtingu slíks starfs er oft erfitt að sjá nákvæmlega fyrir, en í því m.a. felst gildi þess; hinu ófyrirséða og óvænta. Safn Jóns og rannsóknargögn eru mikilvæg viðbót í hina stóru smíði á þekkingargrunni á íslensku sjávarlífríki og í framtíðinni verður safnið vafalaust enn mikilvægara sem viðmið við niðurstöður rannsókna.

Jón Bogason lést í október 2009, áttatíu og sex ára að aldri.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

04
des

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner