AUGASTEINN
undan nóttinni vaxa trén
við vorum sammála um það
hvort var það ég eða þú sem komst aftur?
var ég heilög og húðin sjúklega geislandi
kjarni sítrusávaxta
við ræddum lófana í hljóði
góm við góm
meðan augasteinarnir sukku
sáttlausir í myrkrinu
það fæst engin medalía fyrir tilraunastarfsemi
þú með þína klofnu tungu
og ég sem næli orðunni
rétt undir viðbeinið
Að elska vestfirðing er að elska hafið í augum hans, norðanáttina sem stendur útúr honum þegar hann heldur einræðurnar um ágæti sitt, hrukkurnar á enni hans sem eru einsog skorningarnar á Gleiðarhjalla og benda til þess að ástin hafi hrukkað enni hans þegar hann reyndi að verjast henni, að elska vestfirðing er að trúa á gugguna hvort sem hún var seld eða ekki seld, að elska vestfirðing er að elska bg og ingibjörgu, rækjuna, snjóskaflana, siggu ragnars, gamla bakaríið, allar gömlu ljósmyndirnar, gúttó, villa valla, víking þriðja, hver sé skyldur hverjum, hver bjó hvar, hver er fluttur suður, að elska vestfirðing er að lofsyngja fíflalæti og vitleysisgang, þegar hann kemur í heimsóknar bankar hann ekki en beygir sig niður við dyrnar og galar innum dyralúguna þótt hann sé að verða sextugur, að elska vestfirðing er deyja pínulítið þegar hann byrjar að einangar sig, ekkert flug, engar samgöngur, síminn lokaður og vestfirðingurinn liggur í þunglyndi og rís ekki upp aftur fyrren í lok janúar, þetta er ekkert sem sálfræðingar ráða við, þetta er myrkrið og sólin í sál hans sem hafa sett mark sitt á hann einsog hrukkurnar fjórar á enninu og tákna jafnmargar eiginkonur sem hann skilur ekkert í að hafa yfirgefið því auðvitað yfirgáfu þær ekki hann svona stórkostlegan og að elska vestfirðing er að hlusta á norðanáttina hvína dag eftir dag þegar hann lýsir sjálfum sér og sálarlífi sínu, öllum þessum tvöhundruð togurum sem hann hefur verið á, öllum sem fóru í hafið og öllum sem björguðust, allt myrkrið sem drukkið var og reið honum næstum að fullu og hann vaknaði upp í meðferð og þar voru engin fjöll og ekkert haf þangað til hann hitti annan vestfirðing með Gleiðarhjalla í andlitinu og myrkrið í hverri taug að sligast undan örlögunum og aðeins vitleysisgangurinn gat bjargað þeim einsog sólargangurinn í þessum bæ sem kúrir við ysta haf og þegar ég sakna hans sakna ég ekki hans heldur sakna ég vestfirðings sem ber mig á höndum sér, snýr hlutunum á hvolf, skilur æsinginn, taumleysið, skáldskapinn og hlustar sallarólegur einsog hann hlustar á norðanáttina fjórtánda daginn í röð, að elska vestfirðing er einsog að fá rjómatertu á hverju kvöldi í rúmið og á morgnanna er sólin í bollanum. Og ástin lygn.
Hamraborg 6a
200 Kópavogur
Skráðu þig til að fá fréttabréf um viðburði, fréttir og menningu í Kópavogi.
OPNUNARTÍMI
Opið mánudaga – föstudaga
kl. 8-18
Opið laugardaga
kl. 11-17