Kísilþörungar og smádýr í Lagarfljóti

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur framkvæmt nokkrar rannsóknir í tengslum við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, oftar en ekki í tengslum við fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir. Þessar rannsóknir hafa ýmist verið unnar eingöngu af Náttúrufræðistofunni eða í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir s.s. Háskóla Íslands og Veiðimálastofnun, sem nú hefur sameinast Hafrannsóknarstofnun.

Alls voru 116 tegundir kísilþörunga greindar úr svifsýnum úr Leginum sumarið 2006, en svifsýni voru einungis tekin það ár. Flestar tegundir fundust út af Húsatanga, samtals 83, en töluvert færri tegundir voru út af Strönd (61) og Þórsnesi (67). Tveir tegundahópar kísilþörunga voru ríkjandi í svifinu, Stephanodiscus parvus/S. minutulus og Aulacoseira subarctica/A. italica og komu þessar tegundir fyrir í öllum svifsýnum. Í lok júní og júlí var magn kísilþörunga í svifi mest við Þórsnes, en mun minna bæði út af Strönd og Húsatanga.

Í svifsýnum, sem tekin voru í fjöruborðinu bæði árin, var heildarfjöldi kísilþörungategunda 91. Þær tegundir sem voru algengastar í fjörusvifsýnunum voru Stephanodiscus parvus/S. minutulus, Fragilaria cf. capucina var. gracilisAulacoseira subarctica/A. italicaFragilaria cf. capucina var. vaucheriae og Fragilaria ulna var. ulna.

Samsetning og þéttleiki smádýra á fjörusteinum á þremur dýptarbilum var einungis mæld í september hvort ár. Mældist þéttleikinn marktækt meiri við Húsatanga en í fjöru hinna staðanna bæði árin, eða rúmlega 26–58 þúsund dýr/m2 2006 og 22–32 þúsund dýr/m2 að meðaltali 2007. Þéttleiki smádýra á steinum var yfir meðallagi miðað við það sem þekkist í öðrum stöðuvötnum á Íslandi. Meðalþéttleiki var að jafnaði hæstur á 0,4 m dýpi á öllum sýnatökustöðum árið 2006, en ári síðar var ekki að sjá reglubundna dreifingu á þéttleika smádýra eftir dýpi.

Algengustu smádýrin á steinum voru rykmý. Hlutfallslegur þéttleiki þess var mestur á fjörusteinunum við Húsatanga, að meðaltali 78% af heildarfjölda smádýra sem þar fundust bæði árin. Við Strönd og Þórsnes var hlutur rykmýs á bilinu 57–64% að meðaltali. Ekki var hægt að merkja að hlutfall rykmýs breyttist í takt við það dýpi sem sýnin voru tekin af.

Deildu þessari grein

TENGDIR
VIÐBURÐIR

30
nóv

04
des

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner