03. nóv

Leggjum línurnar

Snemmárs 2021 hlaut Náttúrufræðistofa Kópavogs styrk úr Loftslagssjóði fyrir loftslagsverkefni sitt, Leggjum línurnar. Verkefnið er ætlað 10. bekkingum og nú á haustönn tóku um 400 nemendur í sjö grunnskólum í Kópavogi þátt í því undir stjórn kennara sinna, verkefnastjóra Náttúrufræðistofu og Sævars Helga Bragasonar, vísindamiðlara.

Sýningin Leggjum línurnar hefur að geyma afrakstur vinnu allra þátttakenda, en verkefnið var fjölþætt og myndaði samfellt ferðalag frá hinum smáa skala nærumhverfisins yfir í hinn stóra hnattræna. Á þann hátt gaf það m.a. góða innsýn í muninn á veðri og loftslagi.

Nokkrum litlum veðurstöðvum var komið fyrir á ólíkum stöðum í Kópavogi og nemendum bauðst að gera raunmælingar á veðri, afla áþreifanlegra gagna og setja í samhengi við umhverfi sitt. Í kjölfarið útvíkkuðu þeir rannsóknarsvið sitt yfir á heimsvísu og unnu sk. loftslaglínur (e. climate stripes) fyrir mismunandi lönd í heiminum. Þá rýndu þeir gögn um ýmsa félags-, efnahags- og umhverfislega þætti í rannsóknarlöndum sínum og tengdu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Meðal leiðarljósa verkefnisins var greinargóð fræðsla um loftslagsmál og fjölbreytt verkefnavinna byggð á raunverulegum gögnum. Þar að auki var leitast við að skapa tækifæri til valdeflandi samtals, ígrundunar og lausnaleitar hjá nemendahópunum, meðal annars með umræðufundum undir stjórn Sævars Helga.

Á sýningunni eru heildarniðurstöður allra þátttakenda dregnar saman í áhrifaríka hnattræna heild.

Deildu þessum viðburði

ÞÚ GÆTIR HAFT ÁHUGA Á

08
jan

18
jan

Sjá meira

Consent Management Platform by Real Cookie Banner