Jörðin
Jörðin er síbreytileg pláneta. Á hverju ári skiptir hún um búning en á milljónum ára gjörbreytist útlit hennar. Jöklar skríða um landið, höggva og móta eins og öflugustu landslagsarkitektar. Heilu meginlöndin færast úr stað svo nýir fjallgarðar rísa, aðrir sökkva, hafstraumar breytast og loftslagið með. Á plánetunni Jörð aðlagast lífverur breytingunum og deyja út. Lífið er mesta undur Jarðar. Það setur sterkan svip á plánetuna okkar hvert sem litið er. Saga lífsins er löng og mögnuð og hér og þar leynast brotin sem segja þá stórfenglegu sögu
Sólkerfið
Ferðalagið hefst í tíma og rúmi, úti í geimnum þaðan sem við öll komin. Við höfum minnkað sólina niður í tvo metra og allar reikistjörnurnar smækkaðar í sama hlutfalli. Sérðu hvað Jörðin er agnarsmá? Meira en milljón Jarðir kæmust innan í sólina væri hún hol að innan. Líkanið sýnir einungis stærðir reikistjarnanna, ekki fjarlægðirnar á milli. Í raun ætti Jörðin að vera 215 metra frá sólinni og Plútó átta kílómetra í burtu á þessum skala. Listamennirnir Syrmir Örn og Agata Mickiewicz sköpuðu líkanið af sólkerfinu.
Uppruni Jarðar
Fyrir 4,5 milljörðum ára varð Jörðin til úr sama gasi og ryki og myndaði sólina og aðrar reikistjörnur sólkerfisins. Sólkerfið hreinsaði sig jafnt og þétt þar sem smástirni, halastjörnur og loftsteinar skullu á reikistjörnum og tunglum og skildu efir ör sem eru þar enn. Í þessum hamförum losnuðu lífræn efni og vatn sem bleyttu Jörðina, skópu hafið og breyttu Jörðinni í plánetu þar sem líf gat kviknað og dafnað. Á einum vegg í Náttúrufræðistofunni stiklum við á stóru um sögu Jarðar, allt frá fyrsta lífinu yfir í örlög Miðjarðarhafsins eftir fimmtíu milljónir ára. Jarðsöginni er nefnilega hvergi nærri lokið.
Þróun lífsins
Uppruni lífs á Jörðinni er ein mesta ráðgáta vísindanna. Kviknaði lífið í drullupolli frumsjávarins? Eða kviknaði lífið við hverasvæði á hafsbotni? Enginn veit. Lengst af virðist lífið hafa verið fremur einfalt en fyrir um 2500 milljónum ára byrjuðu blágrænar bakteríurað beisla orku sólarljóssins með ljóstillífun. Í fyrsta sinn gat járn á Jörðinni ryðgað. Veistu af hverju? Ljóstillífun var byltingarkennd og lagði grunninn að þróun flóknari lífvera á landi, bæði plantna og dýra. Opnuðu skápa og skúffur sýningarinnar til að kafa enn dýpra inn í heims hins örsmáa og hulda
Margbreytileiki náttúrunnar – árstíðirnar. Lífið er mesta undur Jarðar og fjölbreytileiki lífs ótrúlegur. Lífið fylgir takti árstíðanna, möndulhallans sem varð sennilega til af völdum risaárekstursins sem myndaði tunglið. Á vorin vaknar landið til lífsins. Plöntur spretta úr vetrarhamnum, laufgast og blómstra þegar sól hækkar á lofti. Á sumrin nýtur lífið hlýjunnar og birtunnar sem fer svo þverrandi þegar sól lækkar og dag tekur að stytta á haustin. Náttúran bregður sér í nýjan búning. Laufin fölna og falla og veitir lífverum skjól. Á veturna ræður myrkrið ríkjum. Dýr skipta úr felulit sumarsins í hvítan vetrarbúninginn. Snæuglur, rjúpur og refir hverfa í snjóinn sem leggst eins og teppi yfir landið.
Fuglarnir
Á Íslandi eru farfuglar ein mest áberandi birtingamyndarmynd árstíðanna. Fuglar nútímans eru afkomendur risaeðla. Á vorin flýgur risaeðla, heiðlóan, til landsins frá veturstöðvum sínum í Evrópu, kveður veturinn og syngur inn vorið. Flestir fuglar á Íslandi eru farfuglar sem fljúga burt seint á sumrin og í haustbyrjun. Flestir fuglar, svo sem heiðlóan og stelkur, halda til/ Evrópu en aðrir, til dæmis spóinn, leggja í langferð alla leið til Afríku. Krían er langförlust allra fugla. Hún flýgur alla leið í gjöfulu fiskimiðin við Suðurskautslandið. Þá er sumar á suðurhveli. Krían elskar sumarið!
Eldvirknin
Ísland er á einstökum stað á Jörðinni. Ísland er á mörkum tveggja jarðskorpufleka sem reka sundur um einn til tvo sentímetra á ári. Undir Íslandi er heitur reitur þar sem berg bráðnar og kvika verður til. Kvikan nærir ekki bara eldfjöll, heldur líka jarðhitasvæði þar sem vatn kemst í návígi við hana. Við notum heita vatnið til að hita húsin okkar, sundlaugar og gróðurhús.
Ísland er einn eldvirkasti staður Jarðar og hér gýs á þriggja til fimm ára fresti. Undir sumum eldfjöllum safnast kvika saman í hólf eða geyma, mallar þar eins og súpa og kólnar með tíð og tíma. Ef það gerist geta orðið kröftug sprengigos sem spúa mikilli og fínni ösku eða gjósku til himins. Stundum þrýstir heitari kvika sér í gegnum sprungur sem liggja frá eldstöðvunum. Þá verða flæðigos þar sem kvikan vellur upp til yfirborðsins, gjarnan í öflugum strókum sem gnæfa hátt.
Þú átt heima á ótrúlegri plánetu þar sem samspil sólar og vatns, lífs og jarðfræði hafa leikið lykilhlutverk. Hvert sem litið er blasa við brot úr ævi Jarðar.
Sýningarteymi:
Brynhildur Pálsdóttir, Studio Studio (Arnar Freyr Guðmundsson og Birna Geirfinnsdóttir), Theresa Himmer, Hulda Margrét Birkisdóttir, Sævar Helgi Bragason, Júlía Kristín Kristinsdóttir, Cecilie Gaihede, Brynja Sveinsdóttir
Sólkerfi sýningarinnar: Agata Mickiewich og Styrmir Örn Guðmundsson