Komið hefur í ljós að skógarþrestir hafa svæðisbundnar mállýskur og syngja þannig mismunandi lög á mismunandi svæðum. Hægt er að heyra um 20 mismunandi mállýskur skógarþrasta víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu. Skógarþrestirnir hafa þannig sín eigin hverfi og póstnúmer í borginni með einkennandi söng í hverju hverfi. Inni í borginni okkar er því að finna aðra borg; ósýnilega stórborg skógarþrasta þar sem hver fugl keppist við að syngja sína bestu sumarsöngva.
Hlynur Steinsson hefur í sumar unnið að rannsóknum á menningarlandslagi skógarþrasta á Höfuðborgarsvæðinu á vegum Skapandi Sumarstarfa í Kópavogi. Hann fór út með hljóðnema í vor og tók upp þrastasöng og frá 12. júlí verður opin sýning á Náttúrufræðistofu Kópavogs um fjölbreitileika í sönglífi skógarþrasta. Þar má koma sér vel fyrir í mjúkum sófa og hlusta á tóndæmi af öllum helstu mállýskum skógarþrasta á höfuðborgarsvæðinu. Sýningin mun standa fram í lok ágúst.