Ljóðstafur Jóns úr Vör 2006

Óskar Árni Óskarsson

1. sæti

Í bláu myrkri

Á kvöldin sópa ég sólskininu af þökum húsanna

kveiki rauðan glampa í rúðum

fylli höfnina af logandi skuggum

og breiði stjörnuskikkjuna yfir himininn

ég er nafnlaus eins og andvarinn

sem bærir gluggatjaldið

ljósið sem kviknar um leið og það deyr

blossinn í fingrum myrkursins

ég færi ykkur nótt flugmannsins

rifin segl draumanna

inn í svefninn ferðast bifreið

sendibréf í hanskahólfi

ljósmynd af bláu myrkri

ég breyti syrgjendum í blóm

hengi gifshendur í trén

trekki upp spiladósir bernskunnar

horfi á þung augnhár þín síga

vegvísar þjóta gegnum ljósaskiptin

þar sem fjallsbrúnirnar loga

og stúlkan við bensíndæluna snýr vinstri vanga að tungli

sem glottir milli tinda

Consent Management Platform by Real Cookie Banner