Sumarnámskeið Menningarhúsanna

12.08.2019 09:00

Vikuna 12.–16. ágúst fer fram fjölbreytt heilsdagsnámskeið Menningarhúsanna í Kópavogi þar sem náttúruvísindi, bókagerð, hljóðfærasmiðja og myndlist eru viðfangsefni.

Námskeiðið stendur yfir milli kl. 9:00–16:00 hvern dag og er ætlað börnum frá 6–9 ára.

Námskeiðið skiptist í tvo morgna á aðalsafni Bókasafnsins þar sem myndlistarkonan og grafíski hönnuðurinn Steinunn Jónsdóttir mun kenna mismunandi aðferðir við bókagerð, allt eftir hugmyndum barnanna.

Þrír morgnar námskeiðsins fara fram á Náttúrufræðistofu þar sem m.a. verður farið í spennandi vettvangsferðir í fjöruna, Borgarholt og aðra staði í nærumhverfinu. Með leiðsögn sérfræðinga stofunnar kynnast börnin vatna-, fjöru- og plöntulífríki svæðisins og fá innsýn í vísindaleg vinnubrögð.

Tvo eftirmiðdaga verður hljóðfærasmiðja í Gerðarsafni og aðrir tveir eftirmiðdagar fara í myndlistartengda vinnu.

Á lokadegi verður sett upp sýning á afrakstri námskeiðsins sem gefur færi á að kynna sér starfsemi vikunnar.

Leiðbeinendur frá Kópavogsbæ munu vera til staðar í hádegishléum. Þátttakendur þurfa að hafa meðferðis hollt og gott nesti, hlífðarföt og stígvél.

Skráning fer fram í gegnum Frístundagátt Kópavogsbæjar en nánari upplýsingar eru veittar hjá menningarhusin@kopavogur.is en þar er einnig hægt að skrá börn utan Kópavogsbæjar.

Námskeiðsgjald; kr. 24.000. Systkinaafsláttur er 20% við skráningu annars barns en 10% á hvert systkini eftir það. Hámarkfjöldi þátttakenda takmarkast við 18 börn.