LÍFLJÓMUN | Ljósveruleit og fræðslusýning

13.02.2021 - 20.03.2021

Á fræðslusýningunni LÍFLJÓMUN er sjónum beint að lífljómandi lífverum og hinu innra ljósi. Sæstjarna, marglytta, eldfluga og fleiri magnaðar, ljómandi lífverur birtast í teikningum Dagrúnar Guðnýjar Sævarsdóttur sem gerðar voru sérstaklega fyrir sýninguna og verða til sýnis í gluggum Náttúrufræðistofu Kópavogs. Teikningarnar snúa í báðar áttir í gluggum stofunnar og því má njóta sýningarinnar hvort sem er innan- eða utandyra.

Fræðslusýningin kallast á við skemmtilegan ratleik fyrir alla fjölskylduna, svokallaða ljósveruleit, og á henni leynast faldar vísbendingar. Litríkar ljósverustöðvar lúra á víð og dreif á útisvæði Menningarhúsanna og bíða ljósveruleitenda á öllum aldri – leggjum í ljósveruleit!

Á opnunartíma Náttúrufræðistofu má nálgast kort og lausnarorðsblað í anddyri stofunnar en einnig eru gögnin aðgengileg á heimasíðum Náttúrufræðistofunnar og Menningarhúsanna, þaðan sem hægt er að prenta þau út.

Gestir eru hvattir til að taka með sér skriffæri en dregið verður vikulega úr innsendum lausnarorðsblöðum og skemmtileg bókaverðlaun í boði. Utan opnunartíma má skila lausnarorðsblöðum í skilalúgu Bókasafns Kópavogs. Einnig er snjallt að taka með sér vasaljós því þátttaka í myrkri og rökkri ljær ljósveruleitinni ævintýralegan blæ.

Góða skemmtun!

Hér má nálgast kort af svæðinu og lausnarorðsblað.