Vöktun á lífríki Elliðavatns

Markmið verkefnisins var í fyrsta lagi að varpa ljósi á framvindu smádýrastofna á ársgrundvelli, en slíkt hefur ekki áður verið gert í Elliðavatni. Í öðru lagi var athugað notagildi botnkrabba sem vísi (indicator) á álag á vatnavistkerfið af manna völdum, einkum m.t.t. næringarefna og efnamengunar. Í þriðja lagi beindist verkefnið að því að leggja grunn að framtíðarvöktun á lífríki vatnsins.

Mælingar staðfesta að sýrustig og álstyrkur eru óvenju há í Elliðavatni. Sýrustig að sumri til mældist jafnan á bilinu 9,2-9,9. Samkvæmt mælingum á fosfór, köfnunarefni og fleiri næringarefnum verður ekki séð að ofauðgunar gæti í vatninu.

Á heildina litið er gróður og smádýralíf mjög gróskumikið í Elliðavatni. Þetta er þó mismunandi eftir svæðum. Engjarnar skera sig frá upprunalegu vatnshlutunum tveimur, Vatnsvatni og Vatnsendavatni, með umtalsvert rýrari gróðri og smádýralífi.

Stofnar botnkrabbadýranna sveifluðust verulega eftir árstíðum í takt við vatnshita og fæðuframboð. Í nóvember-mars þegar vatnshitinn var 2-5°C voru dýrastofnarnir að mestöllu leyti í dvala á botninum á eggstigi. Í apríl-maí þegar vatnshtinn náði um 6 °C komust fullorðin dýr á kreik. Hámarki í stofnstærð náðu langflestar tegundir krabbadýranna á tímabilinu júlí-ágúst þegar vatnshiti var á bilinu 12-17 °C.

Vöktun á lífríki Elliðavatns

Viðaukar við skýrslu