Grunnrannsókn á lífríki Hafravatns

Fyrri hluta sumars 2007 hófust rannsóknir á lífríki og umhverfisþáttum í Hafravatni. Um var að ræða all viðamikla úttekt á ástandi vatnsins, dýralífi og gróðurfari. Rannsóknin var unnin af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis, en Reykjavíkurborg kom einnig að rannsókninni.

Ástand Hafravatns m.t.t. næringarefna og þungmálma var mjög gott. Næringarefnastyrkur var lítill og telst Hafravatn næringarefnasnautt. Heildarstyrkur fosfórs (Tot-P) mældist 4–5 µg/l og köfnunarefnis (Tot-N) 66–93 µg/l. Hlutfall PO4:NH4+NO3 var um 1,0 sem bendir til þess að köfnunarefni sé takmarkandi í frumframleiðslu. Styrkur þungmálma (Cu, Zn, Cd, Pb, Cr, Ni, As) var lítill og jafnan undir greiningarmörkum. Rafleiðni mældist 95 µS/cm (± 1,3, n=9). Samkvæmt langtímagögnum Náttúrufræðistofunnar og fyrri rannsóknum hefur rafleiðnin aukist marktækt í vatninu um 10–15 µS/cm á sl. tíu árum eða svo. Þetta bendir til þess að ákoma efna í vatnið hafi aukist og eða að yfirborðslag vatnsins hafi hlýnað. Aukning í rafleiðni gefur tilefni til að ætla að lífsskilyrði hafi batnað almennt í vatninu. Sjóndýpi mældist fremur lítið, 5,8 m (± 0,48), sem kemur á óvart m.t.t. þess hve lítið var af gruggi (0,96 ± 0,23 FNU), blaðgrænu–a (2,3 ± 0,27 µg/l) og lífrænu kolefni (0,72 ± 0,05 mg/l).

Samanburður við fyrri rannsóknir í Hafravatni bendir til þess að bleikjustofninn hafi stækkað á sl. tíu árum, sem og að lengdar– og þyngdarvöxtur einstaklinga hafi aukist og lífslíkur vaxið. Sömu tilhneigingar gætir í grósku smádýra í grýttu fjörubelti og í vatnsbolnum – þéttleiki dýra er meiri nú en fyrir um tíu árum. Þessar breytingar kunna að standa í sambandi við víðtækari breytingar á umhverfisþáttum sem virðast eiga sér stað á vatnasviði Hafravatns og höfuðborgarsvæðinu öllu, þ.e.a.s. í hlýnandi veðurfari.

Grunnrannsókn á lífríki Hafravatns