Grunnrannsókn á lífríki Bakkatjarnar

Vistkerfi Bakkatjarnar á Seltjarnarnesi var rannsakað á tímabilinu maí–október 2008 á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og efna- og eðlisþætti Bakkatjarnar. Rannsókn af þessu tagi hefur ekki áður farið fram í Bakkatjörn.

Bakkatjörn er grunn og botninn er fremur sléttur. Meðaldýpi var 75 cm og mesta dýpi 85 cm. Vegna þurrkatíðar og lágs vatnsborðs á mælingadegi má gera ráð fyrir að í venjulegu árferði sé Bakkatjörn 50–70 cm dýpri en mælingar í þessari rannsókn sýndu. Í dýpri hluta tjarnarinnar þekur þunnt leðjulag botninn, um 5 cm þykkt, en þar undir tekur við fjörusandur og þéttur mór.

Efnabúskapur Bakkatjarnar var óvenjulegur. Óvenjuhá rafleiðni mældist í tjörninni, að meðaltali 703 μS/cm (± 41,5 μS/cm staðalskekkja, spönn 230–939 μS/cm), og styrkur helstu næringarsalta var einnig afar mikill og hið sama gilti um flestar an- og katjónir. Styrkur fosfórs (Tot-P, 168–856 μg/l), fosfats (PO4-P, 74–300 μg/l), köfnunarefnis (Tot-N, 1150–4860 μg/l) og lífræns kolefnis (TOC, 9,0–28,6 mg/l) var í flestum tilvikum meiri en tilgreint er sem viðmið fyrir næst-lakasta og lakasta vatnsgæðaflokk á yfirborðsvatni skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Mikill efnastyrkur í Bakkatjörn er rakinn til nálægðar við sjó, álags vegna fugladrits og uppsöfnunar á efnum þar sem ósi tjarnarinnar var lokað um 1960. Selta í Bakkatjörn mældist aðeins 0,2–0,3‰ og því flokkast hún sem ferskvatn en ekki sem ísölt tjörn eins og verið hefur.

Lífríki Bakkatjarnar var að flestu leyti einkar gróskumikið hvað varðar magn einstakra tegunda, en fjöldi tegunda var aftur á móti fremur lítill. Gífurleg frumframleiðsla var meðal svifþörunga og voru grænþörungar allsráðandi. Magn blaðgrænu-a mældist 9,0–570,7 µg/l og eru þetta hæstu gildi sem mælst hafa í ferskvatni hér á landi. Engar háplöntur fundust í tjörninni og er það líklega vegna mjög lítils rýnis og mikilla vatnsborðssveiflna. Á setbotni bar langmest á vatnaflóm, einkum burstafló (Iliocryptus sordidus) og broddfló (Macrothrix hirsuticornis), ásamt augndílum (Cyclopidae) og þyrildýrum (Rotifera). Í samanburði við önnur grunn vötn á höfuðborgarsvæðinu var þéttleiki framangreindra dýra í Bakkatjörn afar mikill. Mikil mergð hornsíla fannst í Bakkatjörn. Góður vöxtur hornsílanna, nær tvöföldun á þyngd á fimm mánuðum, gefur til kynna að þau hafi það gott í tjörninni. Aðalfæða sílanna voru kúlufló (Chydorus sphaericus) og broddfló.

Í Bakkatjörn fannst mikið af söðulhýðum  halaflóartegundar. Þá fannst talsvert af götungum (Foraminifera) í tjörninni, sem er athyglisvert því þeir hafa ekki áður verið greindir í ferskvatni hérlendis. Eftir er að skera úr um hvort götungarnir eru sjávar- eða ferskvatnstegundir.

Grunnrannsókn á lífríki Bakkatjarnar