Frumathugun á lífríki Daltjarnar

Árið 2011 var gerð frumrannsókn á lífríki Daltjarnar á Seltjarnarnesi. Rannsóknin var framkvæmd af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og umhverfisþætti Daltjarnar. Rannsókn af þessu tagi hefur ekki áður farið fram í Daltjörn. 

Gögnum var safnað í tveimur lotum, daganna 14.–15. júní og 9.–10. september 2011. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og eðlisþætti tjarnarinnar í tengslum við hugmyndir um breytingar á tjarnarstæðinu s.s. dýpkun þess. Athugun af þessu tagi hefur ekki farið fram áður í Daltjörn.

Daltjörn er tæpur hektari að stærð og vatnsdýpi er að hámarki um 60 cm. Flatarmál og dýpi tjarnarinnar er mjög sveiflukennt og háð úrkomu, sérstaklega að sumarlagi, þar sem vatnasvið tjarnarinnar er mjög lítið (á að giska 2–3 hektarar). Vatnshiti tjarnarinnar er mjög háður lofthita og mældist á bilinu 14–17 °C, rafleiðni var á bilinu 219–307 µS/cm og sýrustig (pH) á bilinu 7,7–9,1.

Lífríki Daltjarnar er fábreytt af dýrategundum en einstaklingsfjöldi er gríðarlega hár, sérstaklega hjá krabbaflóategundunum kúlufló (Chydorus sphaericus) og halafló (Daphnia atkinsoni). Kúlufló er mjög smávaxin en halaflóin er stórvaxnari og virðist vera étin af æðarungum. Af vatnagróðri er lófótur (Hippuris vulgaris) lang mest áberandi.

Nokkurt fuglalíf var á Daltjörn á þeim tíma sem gagnasöfnun stóð yfir. Æðarfuglar nýttu tjörnina sem fæðulind fyrir unga sína en einnig sáust grágæsir með unga á tjörninni. Að auki nýttu endur, gæsir og máfar tjörnina sem bað- og drykkjarvatnsstað eða sem afdrep.

Botngerð Daltjarnar var könnuð lauslega í tjörninni norðanverðri. Efst liggur laust efni  5–15 cm að þykkt en sjálfur tjarnarbotninn er 70–135 cm á þykkt. Undir botninum er svo fast efni sem virðist vera möl og grjót. Svigrúm til dýpkunar er því lítið.

Daltjörn er ferskvatnstjörn þrátt fyrir nálægð við sjó. Aukist selta í tjörninni verulega má búast við neikvæðum áhrif á ásýnd hennar og lífríki.

Frumathugun á lífríki Daltjarnar