Frumathugun á lífríki Búðatjarnar

Árið 2012 var gerð einföld rannsókn á lífríki Búðatjarnar á Seltjarnarnesi. Rannsóknin var framkvæmd af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og umhverfisþætti í Búðatjörn.

Gögnum um lífríki var safnað í tveimur ferðum dagana 7. júní og 7. september 2012. Að auki voru farnar sjö ferðir á tímabilinu 22. febrúar til 4. september 2012 þar sem eðlisþættir voru mældir. Athugun af þessu tagi hefur ekki farið fram áður í Búðatjörn.

Búðatjörn er ísölt, sporöskjulaga tjörn syðst á Seltjarnarnesi. Mesta lengd hennar við fulla vatnsstöðu er um 110 m og mesta breidd um 55 m. Áætlað hámarksdýpi miðað við fulla vatnsstöðu er um 60 cm. Botngerð Búðatjarnar einkennist annars vegar af mjög gljúpri leðju og hins vegar af strandsvæði sem er allfast í sér. Vatnsstaða, og þar af leiðandi flatarmál og dýpi, tjarnarinnar er nokkuð sveiflukennt og háð úrkomu, en vera má að sjávarföll hafi einnig áhrif. Vatnshiti tjarnarinnar er mjög háður lofthita og mældist 0,8–22,8°C, rafleiðni 5,8–17,5 mS/cm, selta 3,1–10,3‰ og sýrustig (pH) 8,0–9,0.

Lífríki Búðatjarnar er mjög fábreytt en einstaklingsfjöldi einstakra hópa getur verið mjög hár. Í svifsýnum var mest af árfætlum (Copepoda) og einni tegund þyrildýra af ættkvíslinni Hexarthra, en í setkjarnasýnum bar mest á sundánum, mýlirfum og þó einkum þráðormum, sem komu fyrir í gríðarlegu magni á einni stöðinni. Enginn hágróður var í tjörninni og einungis lítið af botnföstum þörungum.

Dálítið fuglalíf var við Búðatjörn á þeim tíma sem gagnasöfnun stóð yfir. Kríur urpu við tjörnina og stokkendur og sendlingar nýttu tjörnina sem fæðulind og hvíldarstað.

Frumathugun á lífríki Búðatjarnar