Lífríkisúttektir

Úttekt á lífríki Varmár í Mosfellsbæ

Markmið rannsóknarinnar er að gera úttekt á lífríki Varmár sem náði til tegundaauðgi og þéttleika smádýra á hörðum botni/steinum (steinasýni) og helstu eðlisþátta, en einnig var horft eftir fiskum á sýnatökustöðvunum. Í kjölfar óhapps sem varð þann 23.6.2020 þegar heitt vatn flæddi í ána við dælustöð Veitna ohf. við Dælustöðvarveg, var, að ósk Veitna ohf. bætt við rannsóknina tegundagreiningum á rykmýi á tveimur stöðvum, ofan og neðan útrásar heitavatnsins til að meta áhrif þess á lífríkið. Sýnatökur fóru fram þann 25. ágúst 2020.

Alls fundust í heildina 46 tegundir eða greiningarhópar. Fjöldi hópa og þéttleiki botndýra reyndist nokkuð mismunandi eftir stöðvum þótt sömu meginhópar fyndust víðast hvar. Þegar horft var til fjölbreytileika- og jafnaðarstuðla reyndust hæstu gildin vera á stöðvum 1 og 3 og vekur stöð 3 sérstaka athygli því talið var að þar hafi lífríki beðið skaða af þegar heitt vatn flæddi í ána tveimur mánuðum fyrir sýnatöku. Mesta einsleitni var hins vegar að finna á stöð 4 sem jafnframt hafði langmestan heildarþéttleika lífvera. Þetta ástand stafaði af miklum fjölda ána af tegundinni Nais barbata sem er þekkt fyrir nokkurt þol gagnvart lífrænni mengun og efnamengun.

 

Svo virðist sem vistkerfið á botni Varmár sé í nokkuð vel stakk búið til að bregðast við staðbundnum óhöppum og þrátt fyrir að þéttleiki lífvera á stöð 3 hafi verið sá lægsti sem mældist á þeim stöðum sem kannaðir voru, reyndist fjölbreytileikinn vera með því mesta. Tegundasamsetning rykmýslirfa á stöðinni var frábrugðin viðmiðunarstöðinni (stöð 1) en ekki er hægt að útiloka að það stafi af mismun búsvæða. Líklega má því sjá afleiðingar hitaóhappsins á stöð 3 í lægri þéttleika botndýra en á viðmiðunarstöðinni en landnám tegunda virðist nokkuð jafnt sem heldur uppi fjölbreytninni.

Lífríki Silungatjarnar, Królatjarnar og Selvatns

Að beiðni Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis gerði Náttúrufræðistofa Kópavogs rannsókn á vistkerfi þriggja vatna í landi Mosfellsbæjar; Silungatjörn, Krókatjörn og Selvatn og fór sýnataka fram dagana 23.–26. ágúst 2016. Markmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lykilþætti í lífríki og efnabúskap vatnanna þriggja. Rannsóknin náði til efna- og eðlisþátta, vatnagróðurs, smádýralífs og fiska.

Alls fundust fjórar tegundir vatnaplantna í Silungatjörn og átta í Krókatjörn. Síkjamari var yfirgnæfandi tegund en heildargróðurþekja mældist að meðaltali 72% í báðum vötnunum. Í Selvatni fundust 10 tegundir vatnaplantna og var síkjamari enn algengastur en þekja var verulega minni en í hinum vötnunum eða 28% að meðaltali. Þetta stafar af því að lítinn sem engan gróður var að finna á þeim stöðvum sem voru á 8–20 m dýpi.

Mikið veiddist af hornsílum í öllum vötnunum og reyndust sílin í Silungatjörn sérstök að því leyti að á þau vantaði kviðgadda. Þessu fyrirbæri hefur verið lýst úr einu öðru vatni á landinu, Vífilsstaðavatni. Hvað laxfiska áhrærir þá varð ekki vart við laxfiska í Krókatjörn aðeins urriði veiddist í Silungatjörn og bleikja í Selvatni. Uppistaðan í fæðu bleikjunnar voru sviflæg krabbadýr en hjá urriðanum bar mest á hornsílum og vatnabobbum.

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að vötnin eru ólík innbyrðis hvað varðar vatnsbúskap og tilvist og tegundasamsetningu laxfiska. Þá sker Selvatn sig frá hinum vötnunum hvað þéttleika og tegundasamsetningu smádýra varðar, enda stærst og langdýpst þeirra þriggja. Vatnsgæði eru mikil m.t.t. flestra þátta og ekkert bendir til að vötnin séu undir álagi vegna mengunar. Til að tryggja að svo verði til framtíðar þarf að gæta varúðar í umgengni á svæðinu og að auki má árétta að neðar á vatnasviðum umræddra vatna eru bæði fengsæl veiðisvæði og útivistarperlur.

Lífríki Tjarnarinnar í Reykjavík

Að beiðni Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar gerði Náttúrufræðistofa Kópavogs rannsókn á vistkerfi Reykjavíkurtjarnar og tveggja tjarna í Vatnsmýri. Sýnum var safnað í þremur lotum, í maí og ágúst 2015 og í ágúst 2016. Markmið rannsóknarinnar var að afla upplýsinga um vistfræðilegt ástand tjarnanna og náði til efna- og eðlisþátta, vatnagróðurs, smádýralífs og fiska.

Grunnrannsókn á lífríki Meðalfellsvatnsatjarnar og Selvatns

Að beiðni Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis gerði Náttúrufræðistofa Kópavogs grunnrannsókn á vistkerfi Meðalfellsvatns í Kjós árið 2014. Markmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lykilþætti í lífríki og efnabúskap Meðalfellsvatns. Rannsóknin náði til efna- og eðlisþátta, vatnagróðurs, smádýralífs, fiska og fugla. 

Niðurstöður þessarar rannsóknar sýna að Meðalfellsvatn er lífauðugt vatn og gildir þar einu hvort um er að ræða vatnagróður, smádýr eða fiska. Jafnframt leiða rannsóknirnar í ljós að vatnsgæði Meðalfellsvatns virðast almennt í góðu lagi. Til að tryggja að svo verði til framtíðar þarf að gæta varúðar í umgengni við vatnið og vatnasvið þess.

Frumathugun í Kópavogslæk

Náttúrufræðistofan vann árið 2013 frumathugun á stöðu Kópavogslækjar m.t.t. lífríkis. Ástæður þessarar athugunar voru tvær, umhverfisfulltrúi Kópavogsbæjar var að vinna að viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa, en einnig hafði verið óskað úttektar á kostum þess að sleppa silungaseiðum í lækinn.

Fyrirliggjandi vitneskja um lækinn var afar rýr og því lítið til að byggja á varðandi ráðleggingar um seiðasleppingar.  Náttúrfræðistofunni hafa borist silungar fangaðir í læknum þannig að svo virðist sem silungur gangi í lækinn. Ekki höfum við vitneskju um að silungi hafi verið sleppt í lækinn á allra síðustu árum. Þá er að finna í læknum bæði ál og flundru sem ganga í hann af sjálfsdáðum. Í læknum eru einnig hornsíli og ofarlega í honum er töluvert magn kuðunga en hvoru tveggja leggja urriðar sér gjarnan til munns.

Mælt er með því að gerð sé s.k. umhverfisflokkun á læknum en þá er með reglubundnum hætti kannað hvað berst í lækinn af mengun, bæði efna- og gerlamengun.

Grunnrannsókn í lífríki Rauðavatns

Helstu markmið rannsóknarinnar, sem unnin var að beiðni Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, voru að afla grunnþekkingar á lífríki og efnabúskap Rauðavatns og draga upp sem gleggsta mynd af gerð og eðli vistkerfis vatnsins, bæði í tíma og rúmi. Sýni voru því tekin á mismunandi stöðum í vatninu og á mismunandi árstímum.

Frumathugun á lífríki Búðatjarnar

Árið 2012 var gerð einföld rannsókn á lífríki Búðatjarnar á Seltjarnarnesi. Rannsóknin var framkvæmd af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og umhverfisþætti í Búðatjörn.

Gögnum um lífríki var safnað í tveimur ferðum dagana 7. júní og 7. september 2012. Að auki voru farnar sjö ferðir á tímabilinu 22. febrúar til 4. september 2012 þar sem eðlisþættir voru mældir. Athugun af þessu tagi hefur ekki farið fram áður í Búðatjörn.

Búðatjörn er ísölt, sporöskjulaga tjörn syðst á Seltjarnarnesi. Mesta lengd hennar við fulla vatnsstöðu er um 110 m og mesta breidd um 55 m. Áætlað hámarksdýpi miðað við fulla vatnsstöðu er um 60 cm. Botngerð Búðatjarnar einkennist annars vegar af mjög gljúpri leðju og hins vegar af strandsvæði sem er allfast í sér. Vatnsstaða, og þar af leiðandi flatarmál og dýpi, tjarnarinnar er nokkuð sveiflukennt og háð úrkomu, en vera má að sjávarföll hafi einnig áhrif. Vatnshiti tjarnarinnar er mjög háður lofthita og mældist 0,8–22,8°C, rafleiðni 5,8–17,5 mS/cm, selta 3,1–10,3‰ og sýrustig (pH) 8,0–9,0.

Lífríki Búðatjarnar er mjög fábreytt en einstaklingsfjöldi einstakra hópa getur verið mjög hár. Í svifsýnum var mest af árfætlum (Copepoda) og einni tegund þyrildýra af ættkvíslinni Hexarthra, en í setkjarnasýnum bar mest á sundánum, mýlirfum og þó einkum þráðormum, sem komu fyrir í gríðarlegu magni á einni stöðinni. Enginn hágróður var í tjörninni og einungis lítið af botnföstum þörungum.

Dálítið fuglalíf var við Búðatjörn á þeim tíma sem gagnasöfnun stóð yfir. Kríur urpu við tjörnina og stokkendur og sendlingar nýttu tjörnina sem fæðulind og hvíldarstað.

Frumathugun á lífríki Daltjarnar

Árið 2011 var gerð frumrannsókn á lífríki Daltjarnar á Seltjarnarnesi. Rannsóknin var framkvæmd af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og umhverfisþætti Daltjarnar. Rannsókn af þessu tagi hefur ekki áður farið fram í Daltjörn. 

Gögnum var safnað í tveimur lotum, daganna 14.–15. júní og 9.–10. september 2011. Tilgangur rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og eðlisþætti tjarnarinnar í tengslum við hugmyndir um breytingar á tjarnarstæðinu s.s. dýpkun þess. Athugun af þessu tagi hefur ekki farið fram áður í Daltjörn.

Daltjörn er tæpur hektari að stærð og vatnsdýpi er að hámarki um 60 cm. Flatarmál og dýpi tjarnarinnar er mjög sveiflukennt og háð úrkomu, sérstaklega að sumarlagi, þar sem vatnasvið tjarnarinnar er mjög lítið (á að giska 2–3 hektarar). Vatnshiti tjarnarinnar er mjög háður lofthita og mældist á bilinu 14–17 °C, rafleiðni var á bilinu 219–307 µS/cm og sýrustig (pH) á bilinu 7,7–9,1.

Lífríki Daltjarnar er fábreytt af dýrategundum en einstaklingsfjöldi er gríðarlega hár, sérstaklega hjá krabbaflóategundunum kúlufló (Chydorus sphaericus) og halafló (Daphnia atkinsoni). Kúlufló er mjög smávaxin en halaflóin er stórvaxnari og virðist vera étin af æðarungum. Af vatnagróðri er lófótur (Hippuris vulgaris) lang mest áberandi.

Nokkurt fuglalíf var á Daltjörn á þeim tíma sem gagnasöfnun stóð yfir. Æðarfuglar nýttu tjörnina sem fæðulind fyrir unga sína en einnig sáust grágæsir með unga á tjörninni. Að auki nýttu endur, gæsir og máfar tjörnina sem bað- og drykkjarvatnsstað eða sem afdrep.

Botngerð Daltjarnar var könnuð lauslega í tjörninni norðanverðri. Efst liggur laust efni  5–15 cm að þykkt en sjálfur tjarnarbotninn er 70–135 cm á þykkt. Undir botninum er svo fast efni sem virðist vera möl og grjót. Svigrúm til dýpkunar er því lítið.

Daltjörn er ferskvatnstjörn þrátt fyrir nálægð við sjó. Aukist selta í tjörninni verulega má búast við neikvæðum áhrif á ásýnd hennar og lífríki.

Grunnrannsókn á lífríki Bakkatjarnar

Vistkerfi Bakkatjarnar á Seltjarnarnesi var rannsakað á tímabilinu maí–október 2008 á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir umhverfisnefnd Seltjarnarnesbæjar. Meginmarkmið rannsóknarinnar var að afla grunnupplýsinga um lífríki og efna- og eðlisþætti Bakkatjarnar. Rannsókn af þessu tagi hefur ekki áður farið fram í Bakkatjörn.

Bakkatjörn er grunn og botninn er fremur sléttur. Meðaldýpi var 75 cm og mesta dýpi 85 cm. Vegna þurrkatíðar og lágs vatnsborðs á mælingadegi má gera ráð fyrir að í venjulegu árferði sé Bakkatjörn 50–70 cm dýpri en mælingar í þessari rannsókn sýndu. Í dýpri hluta tjarnarinnar þekur þunnt leðjulag botninn, um 5 cm þykkt, en þar undir tekur við fjörusandur og þéttur mór.

Efnabúskapur Bakkatjarnar var óvenjulegur. Óvenjuhá rafleiðni mældist í tjörninni, að meðaltali 703 μS/cm (± 41,5 μS/cm staðalskekkja, spönn 230–939 μS/cm), og styrkur helstu næringarsalta var einnig afar mikill og hið sama gilti um flestar an- og katjónir. Styrkur fosfórs (Tot-P, 168–856 μg/l), fosfats (PO4-P, 74–300 μg/l), köfnunarefnis (Tot-N, 1150–4860 μg/l) og lífræns kolefnis (TOC, 9,0–28,6 mg/l) var í flestum tilvikum meiri en tilgreint er sem viðmið fyrir næst-lakasta og lakasta vatnsgæðaflokk á yfirborðsvatni skv. reglugerð nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. Mikill efnastyrkur í Bakkatjörn er rakinn til nálægðar við sjó, álags vegna fugladrits og uppsöfnunar á efnum þar sem ósi tjarnarinnar var lokað um 1960. Selta í Bakkatjörn mældist aðeins 0,2–0,3‰ og því flokkast hún sem ferskvatn en ekki sem ísölt tjörn eins og verið hefur.

Lífríki Bakkatjarnar var að flestu leyti einkar gróskumikið hvað varðar magn einstakra tegunda, en fjöldi tegunda var aftur á móti fremur lítill. Gífurleg frumframleiðsla var meðal svifþörunga og voru grænþörungar allsráðandi. Magn blaðgrænu-a mældist 9,0–570,7 µg/l og eru þetta hæstu gildi sem mælst hafa í ferskvatni hér á landi. Engar háplöntur fundust í tjörninni og er það líklega vegna mjög lítils rýnis og mikilla vatnsborðssveiflna. Á setbotni bar langmest á vatnaflóm, einkum burstafló (Iliocryptus sordidus) og broddfló (Macrothrix hirsuticornis), ásamt augndílum (Cyclopidae) og þyrildýrum (Rotifera). Í samanburði við önnur grunn vötn á höfuðborgarsvæðinu var þéttleiki framangreindra dýra í Bakkatjörn afar mikill. Mikil mergð hornsíla fannst í Bakkatjörn. Góður vöxtur hornsílanna, nær tvöföldun á þyngd á fimm mánuðum, gefur til kynna að þau hafi það gott í tjörninni. Aðalfæða sílanna voru kúlufló (Chydorus sphaericus) og broddfló.

Í Bakkatjörn fannst mikið af söðulhýðum  halaflóartegundar. Þá fannst talsvert af götungum (Foraminifera) í tjörninni, sem er athyglisvert því þeir hafa ekki áður verið greindir í ferskvatni hérlendis. Eftir er að skera úr um hvort götungarnir eru sjávar- eða ferskvatnstegundir.

Grunnrannsókn á lífríki Hafravatns

Fyrri hluta sumars 2007 hófust rannsóknir á lífríki og umhverfisþáttum í Hafravatni. Um var að ræða all viðamikla úttekt á ástandi vatnsins, dýralífi og gróðurfari. Rannsóknin var unnin af Náttúrufræðistofu Kópavogs fyrir Heilbrigðiseftirlit Kjósasvæðis, en Reykjavíkurborg kom einnig að rannsókninni.

Ástand Hafravatns m.t.t. næringarefna og þungmálma var mjög gott. Næringarefnastyrkur var lítill og telst Hafravatn næringarefnasnautt. Heildarstyrkur fosfórs (Tot-P) mældist 4–5 µg/l og köfnunarefnis (Tot-N) 66–93 µg/l. Hlutfall PO4:NH4+NO3 var um 1,0 sem bendir til þess að köfnunarefni sé takmarkandi í frumframleiðslu. Styrkur þungmálma (Cu, Zn, Cd, Pb, Cr, Ni, As) var lítill og jafnan undir greiningarmörkum. Rafleiðni mældist 95 µS/cm (± 1,3, n=9). Samkvæmt langtímagögnum Náttúrufræðistofunnar og fyrri rannsóknum hefur rafleiðnin aukist marktækt í vatninu um 10–15 µS/cm á sl. tíu árum eða svo. Þetta bendir til þess að ákoma efna í vatnið hafi aukist og eða að yfirborðslag vatnsins hafi hlýnað. Aukning í rafleiðni gefur tilefni til að ætla að lífsskilyrði hafi batnað almennt í vatninu. Sjóndýpi mældist fremur lítið, 5,8 m (± 0,48), sem kemur á óvart m.t.t. þess hve lítið var af gruggi (0,96 ± 0,23 FNU), blaðgrænu–a (2,3 ± 0,27 µg/l) og lífrænu kolefni (0,72 ± 0,05 mg/l).

Samanburður við fyrri rannsóknir í Hafravatni bendir til þess að bleikjustofninn hafi stækkað á sl. tíu árum, sem og að lengdar– og þyngdarvöxtur einstaklinga hafi aukist og lífslíkur vaxið. Sömu tilhneigingar gætir í grósku smádýra í grýttu fjörubelti og í vatnsbolnum – þéttleiki dýra er meiri nú en fyrir um tíu árum. Þessar breytingar kunna að standa í sambandi við víðtækari breytingar á umhverfisþáttum sem virðast eiga sér stað á vatnasviði Hafravatns og höfuðborgarsvæðinu öllu, þ.e.a.s. í hlýnandi veðurfari.

Grunnrannsókn á lífríki Urriðavatns

Um var að ræða forkönnun á lífríki og vistkerfi Urriðavatns, sem unnin er að beiðni Alta ehf. í tengslum við yfirstandandandi skipulagsvinnu í landi Urriðaholts í Garðabæ. Í skipulagsvinnunni er lögð áhersla á að vatnið verði miðpunktur í aðlaðandi og aðgengilegu útivistarlandi.

Markmiðið með rannsókninni var að afla upplýsinga um grundvallarþætti í vatnavistkerfinu til að draga upp heildstæða mynd af gerð og eðli vatnavistkerfisins bæði í tíma og rúmi. Um er að ræða eins konar ástandslýsingu á vistkerfinu í heild.

Með forkönnuninni var jafnframt aflað mikilvægra upplýsinga um grunnástand vatnsins sem nýtist sem viðmið í framtíðarvöktun þess. Ef ekki er aflað gagna áður en verður af framkvæmdum verður nær ógerningur að henda reiður á orsökum breytinga sem kunna að verða á vatninu í kjölfar framkvæmda.

Vatnið er grunnt og mældist mesta dýpi aðeins um 90 cm. Vatnið er mjög lífríkt og sýnir ekki neins konar merki mengunarálags. Það hefur nokkra sérstöðu að því leiti að strand- og botnsvæði með grjót- og malarundirlagi eru afar rýr og hið litla dýpi gerir það að verkum að svifvist er ekki til staðar. Vatnsborð helst nokkuð stöðugt yfir sumartímann, enda er innstreymi til þess úr lindum og af votlendinu sunnan vatnsins. Vatnsbotninn er víðast vel gróinn en þó með áberandi gróðurlausum svæðum í SA hluta vatnsins. Þykkt botnsetsins fer yfir 6 metra og í setinu má finna greinileg öskulög sem hægt er að aldursgreina.

Grunnrannsókn á lífríki í Hamarskotslæk og Ástjörn

Í október 2001 kom út skýrsla um rannsóknir Náttúrufræðistofunnar á dýralífi og efnafræði í Hamarkotslæk og Ástjörn sem unnin var fyrir Hafnarfjarðarbæ á tímabilinu maí 2000 til apríl 2001.

Markmið rannsóknanna var lýsa megineinkennum vatnavistkerfanna m.t.t. helstu dýrasamfélaga og samspils þeirra við nokkra umhverfisþætti. Dýrasýnum var safnað á mismunandi stöðum og tímum í vatnakerfunum, efnainnihald vatns kannað og eðlisþættir skráðir. Hér fyrir neðan má finna þann hluta skýrslunnar sem var unnin af Náttúrufræðistofu Kópavogs.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner