Tjarnanál í Þingvallavatni

Nitella_mælingar.JPG

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) er ráðandi tegund vatnagróðurs í Þingvallavatni og finnst hún víðsvegar um vatnið, aðallega á 5–35 m dýpi. Tegundin getur náð um og yfir 1 m hæð og myndað þéttar breiður á botni, en einnig verið gisin og lágvaxin. Tjarnanálabreiður auka fjölbreytileika búsvæða í vatninu og þar má m.a. finna urmul hornsíla og ýmissa smádýra, ásamt því að þær mynda undirlag fyrir ásætur, bæði þörunga og dýr.

Á árunum 2015 og 2016 var ráðist í litla rannsókn á útbreiðslu og þéttleika tjarnanálarinnar á völdum stöðum í vatninu og rannsóknarsvæði frá fyrri tíma höfð til hliðsjónar við það val. Beitt var nokkrum mismunandi aðferðum við mælingarnar og var það gert í þeim tilgangi að bera saman árangur þeirra og fýsileika ef til umfangsmeiri vöktunar kæmi í framtíðinni.

Að svo miklu leyti sem niðurstöður þessa verkefnis eru sambærilegar við eldri gögn, virðist sem vöxtur tjarnanálar hafi verið minni á árunum 2015 og 2016 en fyrr á árum þótt útbreiðsla væri sambærileg. Ekki er hægt að segja til um hvort þarna er um náttúrulegan breytileika að ræða eða aðrar orsakir liggi þar að baki.

Tjarnanál í Þingvallavatni 2015–2016