Mengunarflokkun á Reykjavíkurtjörn

Ástand Reykjavíkurtjarnar m.t.t. örvera og efna- og eðlisþátta var kannað á tímabilinu maí 2007–apríl 2008 og vatnsgæði tjarnarinnar metin og tjörnin mengunarflokkuð í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns.

Á heildina litið var ástand tjarnarinnar slæmt m.t.t. næringarefna og örvera, en skárra m.t.t. málma. Fosfór (Tot-P), ammóníak (NH3) og lífrænt kolefni (TOC) mældust í sérlega miklu magni og er Reykjavíkurtjörn í næstlakasta mengunarflokki, flokki D, sem verulega snortið vatn m.t.t. þessara efna. Hvað varðar fosfat (PO4), köfnunarefni (Tot-N) og blaðgrænu-a er tjörnin í þriðja mengunarflokki, flokki C, sem nokkuð snortið vatn. Umtalsverð saurmengun mældist í tjörninni og ratar hún í mengunarflokk D m.t.t. saurkólígerla og mengunarflokk C m.t.t. enterókokka.

Samkvæmt greiningu á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur telst mengunarálag á Reykjavíkurtjörn vera mikið. Auk röskunar og mengunar frá fyrri tíð, þ.m.t. eyðing votlendis, uppfyllingar, skólplosun og sorpurðun, er helsti uppruni næringarefna- og málmmengunar nú til dags rakin til ofanvatns, einkum frá umferðargötum, og til lífrænnar ákomu frá fuglum.

Mengunarflokkun á Reykjavíkurtjörn