Vöktunarverkefni

Úttekt á lífríki Varmár í Mosfellsbæ

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur í gegn um tíðina tekið þátt í vöktunarverkefnum sem snerta ýmis svið vatnalíffræðinnar.

Með hugtakinu vöktun (monitoring) er átt við reglulega sýnatöku og/eða mælingu á tilteknum þætti/þáttum. Vöktun getur bæði falið sér þéttar mælingar í skamman tíma (t.d. eitt ár) eða mælingar með lengra millibili í langan tíma (a.m.k. nokkur ár).

Þátturinn sem vaktaður er þarf að vera mikilvægur í viðkomandi kerfi og helst fremur auðveldur og hagkvæmur að fylgjast með. Hér er að finna umfjöllun um vöktunarverkefni sem Náttúrufræðistofan hefur komið að og helstu niðurstöður þeirra.

Vöktun á lífríki Reykjavíkurtjarnar

Markmið vöktunarinnar er að afla upplýsinga um, og fylgjast með vistfræðilegu ástandi Reykjavíkurtjarnar og tjarnanna í Vatnsmýri. Rannsóknirnar hafa náð til efna- og eðlisþátta, vatnagróðurs, smádýralífs og hornsíla. Tekin hafa verið sýni til mælinga á blaðgrænu og næringarefnum, sem gefa vísbendingar um álagsþætti af völdum mengunar. Smádýrum sem hafast við yfir botni hefur verið safnað í gildrur og gróður kortlagður með þekjumati og tegundagreiningu. Loks hefur hornsílum verið safnað í þeim tilgangi að fylgjast með þéttleika þeirra, fæðu og kynþroska og afla betri upplýsinga um árgangaskiptingu.Jafnframt hefur botndýralíf verið kannað með því að taka setkjarna úr botnseti tjarnanna.

Samhliða sýnatöku Náttúrufræðistofu Kópavogs hefur farið fram sýnataka á svifþörungum í Reykjavíkurtjörn þar sem sjónum hefur m.a. verið beint sérstaklega að svokölluðum blágrænum bakteríum, en þær geta myndað mikla blóma og orðið mjög áberandi. Gunnar Steinn Jónsson þörungafræðingur hefur haft þann verkþátt með höndum og er skýrslur hans að finna hér að neðan.

Niðurstöðurnar gefa misvísandi vísbendingar varðandi vistfræðilega ástand Tjarnarinnar. Þannig er aukin útbreiðsla vatnaplantna jákvætt merki, á meðan fábreytt samfélög benda til fremur veikrar stöðu. Þó virðist ljóst, miðað við fyrri niðurstöður, að vistfræðilegt ástand Tjarnarinnar sé hægt en örugglega að hnikast til betri vegar.

Vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns

Árið 2007 hófst vöktun á lífríki og vatnsgæðum Þingvallavatns. Verkefnið er á vegum Umhverfisstofnunar, Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur og Þjóðgarðsins á Þingvöllum. Um er að ræða sýnatökur og mælingar nokkrum sinnum á ári og er vöktuninni skipt í þrjá meginverkþætti.

1. Efna- og eðlisþættir í írennsli og útfalli. Jarðvísindastofnun Háskólans.
2. Lífríkis- og efna- og eðlisþættir í vatnsbol. Náttúrufræðistofa Kópavogs.
3. Fiskistofnar. Veiðimálastofnun.

Náttúrufræðistofan kemur einnig að verkþætti nr. 3 ásamt Veiðimálastofnun, m.a. með sýnatöku á murtu á haustin.

Hér má finna útgefnar gagnaskýrslur, þar sem niðurstöðum þess hluta vöktunarinnar sem eru á hendi Náttúrufræðistofunnar (verkþáttar 2) eru gerð skil. Í gagnaskýrslunum er meðal annars að finna niðurstöður mælinga á vatnshita, sýrustigi (pH), leiðni, blaðgrænu og rýni ásamt greiningum á þörunga- og dýrasvifi.

Í gagnaskýrslunum er meðal annars að finna niðurstöður mælinga á vatnshita, sýrustigi (pH), leiðni, blaðgrænu og rýni ásamt greiningum á þörunga- og dýrasvifi. Í yfirlitsskýrslunni eru niðurstöðurnar teknar saman, en einnig er vitnað til ýmissa annarra gagna.

Til viðbótar framantöldum þáttum, hefur fá árinu 2015 verið fylgst með magni og tegundasamsetningu svifþörunga, bæði í útfalli Þingvallavatns og á dýptarsniði (stöð 3). Þessi vinna hefur að langstærstum hluta verið á herðum Gunnars Steins Jónssonar þörungafræðings.

Í þessum tilgangi hafa sýni að jafnaði verið tekin nokkrum sinnum í mánuði í útfalli vatnsins, en fjórum sinnum á ári á dýptarsniðinu. Niðurstöður þörungavöktunarinnar hafa nú verið teknar saman í eina skýrslu fyrir árin 2015–2021.

Þá hefur Gunnar Steinn ennfremur útbúið ítarlegan tegundalista með ljósmyndum fyrir smásæja svif- og botnþörunga sem finnast í Þingvallavatni. Verkefnið var styrkt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en útgáfa var á vegum Rorum ehf. og Náttúruminjasafns Íslands.

Samstarfsaðilar að verkefninu voru Náttúrufræðistofa Kópavogs, Hafrannsóknastofnun og Háskóli Íslands.

Vöktun á snefilefnum í Þingvallavatni

Gerð er grein fyrir mæliniðurstöðum á snefilefnum í sýnum úr lífríki Þingvallavatns sem tekin voru á árunum 1989–2012, og svo aftur árið 2019, í vöktunarverkefni á vegum Orkuveitu Reykjavíkur í tengslum við affallsvatn frá Nesjavallavirkjun. Meginmarkmið vöktunarinnar er að fylgjast með hugsanlegum áhrifum ólífrænna snefilefna í affallsvatni virkjunarinnar á lífríki Þingvallavatns.

Samanburður sem nær til allra rannsóknanna á snefilefnum í botnseti, gróðri, hryggleysingjum og fiski í Þingvallavatni, sem annars vegar voru tekin á áhrifastað Nesjavallavallavirkjunar og hins vegar á viðmiðunarstað utan áhrifasvæðis virkjunarinnar, leiðir í ljós að ekki er um tölfræðilega marktækan mun að ræða í meðalstyrk efna milli áhrifa- og viðmiðunarstaðar, nema hvað varðar selen í seti, kopar í dvergbleikju og mangan í síkjamara og vatnabobbum. Selen í seti og kopar í lifur dvergbleikju mældust í hærri styrk á áhrifastöðum, en mangan mældist í hærri styrk á viðmiðunarstöðum.

Eðlisþættir í vötnum á höfuðborgarsvæðinu

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur um árabil vaktað eðlisþætti í nokkrum stöðuvötnum á höfuðborgarsvæðinu. Fylgst er með hita, sýrustigi (pH) og leiðni og magni blaðgrænu á nokkrum stöðum í hverju þeirra. Mælingar eru gerðar mánaðarlega yfir veturinn en á tveggja vikna fresti að sumarlagi. Mælt er á tveimur til fimm stöðum í hverju vatni og fer fjöldi mælistaða eftir stærð vatnanna, en einnig eftir aðgengi að þeim. Vötnin eru eftirfarandi: Vífilsstaðavatn, Elliðavatn, Rauðavatn, Hafravatn, Bakkatjörn og Reykjavíkurtjörn en að auki er mælt í inn og útfalli Elliðavatns þ.e. Bugðu og Dimmu, en einnig við brúna (álinn) efst í Elliðavatni.

Niðurstöður þessa verkefnis hafa ekki verið gefnar út sem slíkar en hafa hins vegar verið kynntar á ráðstefnum, auk þess að nýtast sem stoðgögn við aðrar rannsóknir s.s. í Reykjavíkurtjörn.

Vöktun á smádýralífi Elliðaánna

Árið 2011 var gerður samningur milli Stangaveiðifélags Reykjavíkur og Náttúrufræðistofu Kópavogs um árlega vöktun á smádýralífi í Elliðaánum. Meginmarkmið verkefnisins er að tryggja sem best samræmi og samfellu í öflun og útgáfu upplýsinga sem varða lífríki ánna.

Hér má nálgast skýrslur með niðurstöðum verkefnisins.

Eðlisþættir í vötnum á höfuðborgarsvæðinu

Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur um árabil vaktað eðlisþætti í nokkrum stöðuvötnum á höfuðborgarsvæðinu. Fylgst er með hita, sýrustigi (pH) og leiðni og magni blaðgrænu á nokkrum stöðum í hverju þeirra. Mælingar eru gerðar mánaðarlega yfir veturinn en á tveggja vikna fresti að sumarlagi. Mælt er á tveimur til fimm stöðum í hverju vatni og fer fjöldi mælistaða eftir stærð vatnanna, en einnig eftir aðgengi að þeim. Vötnin eru eftirfarandi: Vífilsstaðavatn, Elliðavatn, Rauðavatn, Hafravatn, Bakkatjörn og Reykjavíkurtjörn en að auki er mælt í inn og útfalli Elliðavatns þ.e. Bugðu og Dimmu, en einnig við brúna (álinn) efst í Elliðavatni.

Niðurstöður þessa verkefnis hafa ekki verið gefnar út sem slíkar en hafa hins vegar verið kynntar á ráðstefnum, auk þess að nýtast sem stoðgögn við aðrar rannsóknir s.s. í Reykjavíkurtjörn.

Vöktun á lífríki Elliðavatns

Markmið verkefnisins var í fyrsta lagi að varpa ljósi á framvindu smádýrastofna á ársgrundvelli, en slíkt hefur ekki áður verið gert í Elliðavatni. Í öðru lagi var athugað notagildi botnkrabba sem vísi (indicator) á álag á vatnavistkerfið af manna völdum, einkum m.t.t. næringarefna og efnamengunar. Í þriðja lagi beindist verkefnið að því að leggja grunn að framtíðarvöktun á lífríki vatnsins.

Mælingar staðfesta að sýrustig og álstyrkur eru óvenju há í Elliðavatni. Sýrustig að sumri til mældist jafnan á bilinu 9,2-9,9. Samkvæmt mælingum á fosfór, köfnunarefni og fleiri næringarefnum verður ekki séð að ofauðgunar gæti í vatninu.

Á heildina litið er gróður og smádýralíf mjög gróskumikið í Elliðavatni. Þetta er þó mismunandi eftir svæðum. Engjarnar skera sig frá upprunalegu vatnshlutunum tveimur, Vatnsvatni og Vatnsendavatni, með umtalsvert rýrari gróðri og smádýralífi.

Stofnar botnkrabbadýranna sveifluðust verulega eftir árstíðum í takt við vatnshita og fæðuframboð. Í nóvember-mars þegar vatnshitinn var 2-5°C voru dýrastofnarnir að mestöllu leyti í dvala á botninum á eggstigi. Í apríl-maí þegar vatnshtinn náði um 6 °C komust fullorðin dýr á kreik. Hámarki í stofnstærð náðu langflestar tegundir krabbadýranna á tímabilinu júlí-ágúst þegar vatnshiti var á bilinu 12-17 °C.

Consent Management Platform by Real Cookie Banner