Fyrir kennara

Kennarar á öllum skólastigum eru eindregið hvattir til að notfæra sér þá möguleika sem felast í góðu náttúrugripasafni við kennslu í náttúrufræðum. Heimsókn á safn, þar sem skoða má náttúrugripi í nágvígi og þannig átta sig á hvað aðgreinir mismunandi tegundir, eykur almennan skilning og auðveldar ferðir út í náttúruna þar sem hún er skoðuð í samhengi.

Náttúrugripasafn Náttúrufræðistofunnar er opið skólahópum sem og öðrum hópum eftir samkomulagi. Ráðlegt er að bóka tíma með fyrirvara þannig að ekki séu margir hópar samtímis á safninu. Starfsmenn safnsins veita leiðsögn um safnið sé þess óskað en einnig eru upplýsingaskilti við hvern safngrip sem hægt er að styðjast við. Hentug hópstærð fyrir leiðsögn er 15 – 20 manns. Möguleiki er á því að skipta stórum hópum upp í smærri einingar.

Hægt er að hugsa sér margs konar verkefni fyrir nemendur. Sem dæmi um einfalt verkefni má nefna það að velja sér grip til að teikna. Það dregur athygli að útliti náttúrugripsins og ýtir undir að útlitsmunur milli gripa sé gaumgæfður. Fyrir eldri nemendur má útbúa spurningar er lúta að líffræði, búsvæðum, tegundafjölbreytileika o.fl. Einnig getur starfsfólk stofunnar útbúið umfjöllun um ákveðin efni ef samráð er haft með nægum fyrirvara. Þannig hafa verið útbúnar myndasýningar (power point) sem fjalla um afmörkuð efni s.s. farfugla, seli, hvali, skordýr og líf í ferskvatni.

Oftast hefur þetta miðast við yngri nemendur og leikskólabörn, en einnig er hægt að gera þetta fyrir eldri nemendur ef óskað er. Eldri nemendur geta unnið sjálfstætt að verkefnum og hægt er að staðfesta komur þeirra með stimpli á verkefnablöð. Til viðbótar er einnig hægt að nálgast ýmsan fróðleik á Bókasafn Kópavogs auk þess að sækja þangað í heimildaleit.

Í náttúrugripasafninu er jarðfræði Íslands gerð nokkur skil í máli og myndum. Sýnishorn er að finna af helstu berggerðum og steindum sem finnast á Íslandi. Fjallað er um flekakenninguna og jarðskjálfta, gosbelti og virk eldstöðvakerfi, mismunandi berggerðir og holufyllingar, molaberg og myndun steingervinga. Finna má sýnishorn af nútíma hrauni, móbergi, líparíti, blágrýti (stuðlaberg) og grágrýti ásamt töluverðu safni holufyllinga.

Á sviði líffræði eru til eintök af flestum tegundum lindýra sem finnast við Ísland og nokkurt safn af fuglum er til, einkum endur, máfar og ránfuglar. Þá eru skrápdýr og krabbar einnig til sýnis. Í þremur búrum má finna lifandi verur úr tjörnum og vötnum, og eitt sjóbúr hefur að geyma eitthvað af þeim algengustu fjörudýrum sem finnast í íslenskum fjörum.