Sjónarspil með ÞYKJÓ

23. febrúar 2023

þykjólogo.jpg

Sjónarspil er rannsóknarverkefni, listsmiðjur og upplifunarhönnun fyrir börn sem hverfist um sjónskynjun dýra og manna. Hvernig sjá dýr öðruvísi en mannfólk? Hvaða liti greina þau? Skiptir máli hvar augun eru staðsett? Standa augun kannski á stilkum?

Hönnun Sjónarspils er innblásin af gömlum myndavélakössum – fyrstu tækni mannsins til að varðveita sjónskynjun sína af heiminum. Safngripirnir inni í kössunum þremur eru valdir úr safni Náttúrufræðistofu Kópavogs af hópum barna af leikskólanum Marbakka.

Sjónarspil er vettvangur fyrir heimspekilegar samræður um ólík sjónarhorn og afstöðu til hlutanna. Það er æfing í samkennd og samlíðan með öðrum lífverum.

Sjónarspil er hannað af ÞYKJÓ, unnið í samstarfi við líffræðinga Náttúrufræðistofu Kópavogs, vísindafólk Vísindasmiðju Háskóla Íslands og 5-6 ára börn á leikskólanum Marbakka. Verkefnið hlaut styrk úr safnasjóði. Verkefnið var vígt á Safnanótt 2023.