Erindi um líffræðilega fjölbreytni

17. febrúar 2022

Á dögunum var haldið erindi um líffræðilega fjölbreytni þar sem prófessor Skúli Skúlason fór í saumana á þessu mikilvæga og margslungna málefni. Því miður var ekki hægt að streyma erindinu en hér má hins vegar nálgast upptöku af því.  

Skúli Skúlason, prófessor og fyrrverandi rektor við Háskólann á Hólum, flytur erindi um líffræðilega fjölbreytni sem verður viðfangsefni hádegisfyrirlestra á vegum Náttúrufræðistofu Kópavogs næstu mánuðina.

Líffræðileg fjölbreytni er undirstaða lífkerfa á jörðinni. Því miður fer hún nú mjög þverrandi vegna áhrifa mannsins, og sjónum er í æ ríkari mæli beint að verndun hennar.

Í erindinu verður leitast við að útskýra hvað líffræðileg fjölbreytni er og í hverju verðmæti hennar felast. Rætt verður um náttúru Íslands sem er mjög sérstæð, og gefur óvenjulega skýra sýn á hvernig líffræðileg fjölbreytni verður til og er viðhaldið.

Skúli Skúlason er prófessor og fyrrverandi rektor við Háskólann á Hólum. Hann lauk doktorsnámi í dýrafræði við Háskólann í Guelph. Hann hefur stundað rannsóknir á sviði vistfræði og líffræðilegrar þróunarfræði og verið virkur í umræðu um háskólanám. Skúli er höfundur margra greina og kafla í ritrýndum alþjóðlegum tímaritum og bókum.

Erindið er liður í viðburðaröðinni Menning á miðvikudögum sem fram fer á víxl í Bókasafni Kópavogs, Gerðarsafni, Náttúrufræðistofu Kópavogs og Salnum í Kópavogi. Viðburðaröðin er styrkt af lista - og menningarráði Kópavogsbæjar