Kúluskíturinn kvaddur

12. september 2019

Þann 4. desember 2004 var kúluskítur tekinn formlega til sýningar á Náttúrufræðistofu Kópavogs og var sýningin opnuð af þáverandi umhverfisráðherra, Sigríði Önnu Þórðardóttur.

Í dag eru hins vegar þau tregafullu tímamót að kúluskíturinn hverfur úr sýningu, eftir að hafa staðið sína plikt með stökum sóma í tæp 15 ár. Síðasta embættisverk kúluskítsins fer nú fram á Kjarvalsstöðum, í sameiginlegri kynningu Menningarhúsa Kópavogs á fræðsluefni fyrir börn, sem hlýtur að teljast afar vel við hæfi.

Þessi tímamót koma fyrst og fremst til af því að verulegrar þreytu er farið að gæta hjá þeim kúlum sem enn lifa, en einnig standa nú yfir breytingar á sýningarrými sem gera það að verkum að taka þarf sýningaraðstöðuna niður. Það þarf þó ekki að koma á óvart að að aldurinn sé farinn að segja til sín hjá kúluskítnum, þegar horft er til þess að nær engar nýjar kúlur hafa bæst við eftir að sýningin hófst árið 2004 og hluti þeirra var allt frá árinu 2000.

Hvort hægt verður að setja aftur upp sýningu með lifandi kúluskít ræðst fyrst og fremst af aðstæðum á heimaslóðum kúluskítsins í Mývatni, þar sem hann hefur átt afar erfitt uppdráttar undanfarinn áratug.